Hjörleifur Guttormsson 4. desember 2001

Sigur umhverfisráðherra í útlöndum

Losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis getur hækkað ú 9 í 15 tonn á mann!

Umhverfisráðherra Íslands er alltaf að vinna sigra að eigin mati. Flestir gerast þeir á erlendri grund á sama tíma og lítið miðar á heimavelli. Á loftslagsráðstefnu í Marrakesh í síðasta mánuði ruddi ráðherrann úr vegi hindrunum fyrir áframhaldandi stóriðju á Íslandi með því að fá samþykkt sérákvæði sem leyfir Íslandi að auka mengun með gróðurhúsalofttegundum um meira en þriðjung á meðan aðrir taka á sig niðurskurð. Ríkisstjórnin og stóriðjusinnar fagna eðlilega þessum tíðindum og fengu nýlega liðsauka þar sem er fréttastjóri DV, Birgir Guðmundsson. Um málafylgju hans er fjallað hér á vettvangi.

Nýr upplýsingafulltrúi

Með fréttastjóra DV hefur ríkisstjórnin eignast nýjan upplýsingafulltrúa. Í blaðinu 24. nóvember sl. skrifar hann grein undir fyrirsögninni "Hnattsýn eða heimaværð" og tekur sér þar fyrir hendur að réttlæta í einu og öllu gerðir íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og "íslenska ákvæðið" sérstaklega. Þessum sjálfkjörna blaðursfulltrúa, svo notað sé ágætt hugtak ritstjóra DV, munar ekkert um að snúa loftslagssáttmála SÞ á haus til að fá út þá niðurstöðu að íslensku ríkisstjórninni hafi ekki gengið annað til en bæta loftslag jarðar, ríkisstjórnin hafi "hnattsýn" en andstæðingar hennar og umhverfissinnar vaggi sér sljóir í "heimaværð". Fréttastjórinn segir m. a. að íslensku undanþágunni hafi verið vel tekið "... vegna þess að loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál og krefjast hnattrænna viðbragða og í íslenska ákvæðinu felst hnattrænn ávinningur." Þessi plata hefur verið spiluð linnulítið af stóriðjusinnum undanfarin ár í von um að fólk setji sig ekki inn í bakgrunn og forsendur loftslagssamningsins.

Viðbót í hnattrænu samhengi

Nýmæli Kyótóbókunarinnar við loftslagssamninginn er að hún verður lagalega skuldbindandi fyrir aðildarríki hans. Hvert einstakt iðnríki eða ríkjabandalag gengst undir ákveðið þak að því er heildarlosun varðar miðað við árið 1990. Skiptir þá engu frá hvaða uppsprettum mengunin kemur. Hvert ríki ákveður innan ramma loftslagssamningsins og bókana við hann hvernig það uppfyllir sínar skuldbindingar. Andstætt því sem fréttastjórinn virðist halda kveður loftslagssamningurinn ekki á um einstakar atvinnugreinar eða eðli þeirrar starfsemi sem mengun veldur í hverju landi. Aukin álframleiðsla á Íslandi í skjóli viðbótar losunarheimilda mun auka við losun á heimsvísu. Ölmusan sem íslensk stjórnvöld börðust fyrir og fengu úthlutað í Marrakesh þýðir líkt og undanþágur til Rússa viðbótarmengun í hnattrænu samhengi. Vegna fámennis okkar er viðbótin hins vegar léttvæg í heildarsamhengi og því flaut hún með í hrossakaupunum. Hvort aðilar að Kyótóbókuninni kjósa að framleiða ál eða stál með endurnýjanlegri orku, kolum eða kjarnorku er þeirra mál svo lengi sem þeir halda sig innan lögbundinna losunarmarka.

Í hópi mestu umhverfissóða

Með málafylgju sinni og "íslenska ákvæðinu" hefur Ísland skipað sér á bekk með mestu umhverfissóðum heimsins. Miðað við höfðatölu hafa Íslendingar fram að þessu mengað lofthjúpinn með gróðurhúsalofttegundum ámóta mikið og gerist víða annars staðar, svipað og Norðmenn, Japanir og íbúar innan ESB með nálægt 9 tonnum á mann árlega. Verði ölmusan í skjóli "íslenska ákvæðisins" notuð myndi mengun gróðurhúsalofttegunda hérlendis hækka í um það bil 15 tonn á hvern íbúa á sama tíma og flest önnur iðnríki skuldbinda sig til að draga úr losun. Þá værum við farin að nálgast mesta umhverfissóðann Bandaríkin með sín 20 tonn á íbúa. Er nema von að menn séu stoltir af þessari frammistöðu!

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim