Hjörleifur Guttormsson | 5.september 2001 |
Verður Íslenska óperan til friðs? "Þann 29.ágúst undirrituðu þeir Friðrik Sophusson og Bjarni Daníelsson óperustjóri samstarfssamning þess efnis að Landsvirkjun styrkir Íslensku óperuna næstu þrjú árin. Á móti kemur að Landsvirkjun fær pláss fyrir kynningar í útgáfum óperunnar og er kynnt sem styrktaraðili hennar." Þannig hljóðar lítil og látlaus frásögn á heimasíðu Landsvirkjunar og fylgir mynd af þátttakendum í þessum gjörningi. Þetta er eitt dæmi af fjölmörgum um viðleitni Landsvirkjunar að virkja í sína þágu hvers kyns menningarstarfsemi í landinu. Fyrirtækið sem nú ætlar að gerast stórtækara en nokkru sinni fyrr við að umbylta hálendi Íslands telur sér eðlilega hag í því að tengja nafn sitt við söng og hljóðfæraslátt, rithöfunda og andans menn látna og lifandi. Raddir söngvara eiga að yfirgnæfa skarkalann sem berst af heiðum ofan, og dásemdir stóriðjunnar að blasa við hverjum sem leggur leið sína á hljómleika og listsýningar. Er þetta ekki meinlaust, spyr fólk í sakleysi sínu, er ekki sama hvaðan gott kemur? Hótanir í garð Landverndar Í sömu vikunni og Friðrik Sófusson keypti sig inn í sýningarskrár Íslensku óperunnar fengu Landgræðslu- og náttúruverndarsamtök Íslands leiðsögn um það frá forstjóranum, hvaða verð beri að greiða fyrir gjafmildi orkurisans. Landvernd, þessi gamalgrónu og hógværu umhverfisverndarsamtök, sem notið hafa fjárstuðnings frá Landsvirkjun í áratugi, leyfði sér fyrr í sumar að vara við náttúruspjöllum af völdum Kárahnjúkavirkjunar. Þetta er að sjálfsögðu óheyrileg dirfska enda reiddi Friðrik þegar á loft vöndinn og gaf til kynna að svona nokkuð samræmdist ekki leikreglunum. Ekki er að efa að skilaboðin hafa borist til þeirra mörgu sem þegar eru háðir ölmusum frá Landsvirkjun og jafn gott að þeir hinir sömu haldi sig á mottunni. Það er gagn að forráðamenn Íslensku óperunnar fari ekki næstu þrjú árin að sviðsetja óperettur sem hafi að inntaki innrásina í Þjórsárver. Hvernig fór ekki fyrir Bárði á Biskupsstofu? Jafnvel saklausir dálkahöfundar Morgunblaðsins eru ekki lengur óhultir. Í svefnherbergi Franziscu Víkverji Moggans hafði verið að frílysta sig víða um land í sumar og leit meðal annars við á Skriðuklaustri. Í pistli sínum 10. ágúst segir hann frá heimsókninni þangað og lætur vel af heimsókninni í hús Gunnars skálds, allt þar til hann kom að hreiðri Landsvirkjunar í kamesi frú Fransziscu. Um áhrifin af þeirri heimsókn sagði dálkahöfundurinn: "Herbergi Landsvirkjunar líktist helst lítilli heilaþvottastöð og þar vantaði ekki ítarefnið. Segir þar meðal annars eitthvað á þá leið að náttúran sé sífelldum breytingum undirorpin og kennileiti komi og fari." Viðbrögðin við þessum orðum létu ekki á sér standa. Upplýsingafulltrúi orkurisans gjafmilda sendi að bragði út sérstakt hirtingarbréf, sem Víkverji af skömmum sínum birti orðrétt 15. ágúst. Þar mátti m.a. lesa: "Herbergi þetta er eitt af mörgum áhugaverðum á staðnum og stendur öllum gestum opið en enginn er neyddur þangað inn." Þetta er vel og mildilega mælt af fyrirtæki sem gengur um með mútuféð í annarri hendi en refsivöndinn í hinni. Ábyrgð á þessum nýja sið ber stjórn fyrirtækisins undir forystu fyrrverandi alþingismanns. Er nokkur ástæða til að nefna siðareglur fyrir þá háttsettu í yfirstandandi kauptíð? Hjörleifur Guttormsson |