Hjörleifur Guttormsson 6. febrúar 2001

Flugvallarumræða í öngstræti

Hverjir eru kostirnir?

Ekkert er óeðlilegt við að rætt sé um skipulag innanlandsflugs. Skipulagsmál eru snar þáttur umhverfismála og um þau þyrfti almennt að vera önnur og meiri umræða en raun ber vitni. Hitt er lakara ef Reykjavíkurborg ætlar að efna til sérstakra kosninga um framtíð Reykjavíkurflugvallar án þess að málið hafi áður fengið víðtæka og markvissa athugun. Margt misvísandi hefur komið fram í umræðum um málið, meðal annars þegar látið er að því liggja að margra kosta sé völ. Rætt hefur m.a. verið um byggingu nýs flugvallar á Lönguskerjum í Skerjafirði eða á Vatnsleysuströnd. Hvorugur þessara kosta sýnist álitlegur, hinn fyrri vegna kostnaðar og hækkandi sjávarstöðu, sá síðari m.a. vegna þess hve lítið vinnst miðað við að fara alla leið til Keflavíkurflugvallar. Miðað við umrædda kosti virðist mér spurningin um framtíðaraðstöðu fyrir innanlandsflugið á höfuðborgarsvæðinu snúast um val milli Reykjavíkurflugvallar í breyttri mynd og Keflavíkurflugvallar. Hugsanlega koma fram nýjar hugmyndir til álita síðar, en málið er hvorki nægilega rætt eða undirbúið til að takast á um það í atkvæðagreiðslu með eða móti Reykjavíkurflugvelli. Skipulagsmál af þessum toga þarf að skoða í víðu samhengi og hafa í huga að niðurstaðan snertir samgöngustefnu fyrir landið sem heild.

Gagnkvæmur hagur af flugvelli

Það er ósköp eðlilegt að þeir sem ekki hafa þurft að fljúga innanlands að neinu ráði eigi erfitt með að átta sig á annmörkum þess að flytja miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkur, en sveitarstjórnarmenn, einnig borgarfulltrúar í Reykjavík ættu að geta sett sig í þau spor. Fyrir fólk sem erindi á milli landsbyggðar og Reykjavíkur er það ótvíræður kostur að eiga skammt á flugvöll. Þessu veldur bæði mikill tímasparnaður við góð skilyrði en ekki síður mikið hagræði þegar seinkanir eru á flugi eða flugi er aflýst með skömmum fyrirvara eins og oft gerist vegna veðurskilyrða. Fyrir Reykjavík bæði sem höfuðstað og ferðamannastað hlýtur það að teljast mikilvægt að miðstöð innanlandsflugs færist ekki langt út úr borginni. Hafa ætti einnig í huga að því fylgja óskráðar skyldur að vera miðstöð stjórnsýslu í landinu en það finnst mér stundum gleymast í hita leiksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Innanlandflug drægist mikið saman

Flutningur miðstöðvar innnanlandsflugs til Keflavíkur og þó ekki væri nema hálfa leið getur jafngilt því að það heyri að mestu sögunni til. Líklegt er að ef innanlandsflugi yrði beint þangað eða suður á Vatnsleysuströnd fækki þeim mjög sem nýti flugið sem ferðamáta og velji þess í stað bílinn. Því fylgja augljósir annmarkar, m.a. meira slit á þjóðvegum. Austurland er sá landshluti sem lengst á að sækja landleiðina til Reykjavíkur. Samt er það svo að menn aka á milli í vaxandi mæli, sumpart vegna hækkandi flugfargjalda. Ýtt væri mjög undir þá þróun ef óhagræðið af því að komast í flug færi að skipta klukkustundum umfram það sem nú er. Keflavík liggur í gagnstæða átt og flugtími þaðan til staða innanlands lengist. Um leið vex eldsneytiskostnaður, bæði í flugi og á landi og jafnframt losun gróðurhúsalofttegunda. Ekkert liggur fyrir um tilhögun samgangna eftir 15-20 ár milli Reykjavíkur og Keflavíkur nema krafan um "tvöföldun Reykjanesbrautar".

Endurskipulagning Reykjavíkurflugvallar

Áður en lengra er haldið ætti að grandskoða, hvernig koma megi innanlandfluginu fyrir einu og sér á hluta af núverandi athafnasvæði Reykjavíkurflugvallar og minnka það svæði sem til þarf svo sem frekast er unnt. Allt annað flug víki þaðan og hætt verði að gera ráð fyrir Reykvíkurflugvelli sem varaflugvelli fyrir millilandaflug. Þess í stað verði Egilsstaðaflugvöllur treystur í sessi frekar en orðið er sem varaflugvöllur. Jafnframt verði flug yfir miðbæ Reykjavíkur stöðvað nema í algjörum undantekningartilvikum. Í slíkri lausn gæti verið fólgin málamiðlun ólíkra sjónarmiða og hagsmuna. Skoðanakönnun eins og nú virðist að stefnt er ekki farsæl byrjun til að undirbúa ákvarðanir í vandasömu og flóknu máli sem þessu. Það mikill tími er til stefnu að unnt á að vera að viðhafa vönduð vinnubrögð. Ég efast um að atkvæðagreiðsla nú eins og allt er í pottinn búið verði til framdráttar sjónarmiðum þeirra sem heimta "flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni" helst strax á morgun.

Fátt sýnist brýnna fyrir Íslendinga en að standa vörð um óspillt umhverfi og bæta úr því sem aflaga hefur farið. Framsýni á þessu sviði mun skila sér í góðum efnahag og farsæld til lengri tíma litið.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim