Hjörleifur Guttormsson | 7. mars 2001 |
Hnattvæðing og heilbrigði Á þessum vetri hafa margir vaknað upp við vondan draum. Matvælaiðnaður heimsbyggðarinnar er að reka sig á hindranir sem margir hafa að vísu varað við en lítið mark hefur verið tekið á af valdhöfum og þrýstihópum. Bakteríur og veirur og þaðan af minni lífeindir eru nú að knýja menn til að staldra við í feigðarflani hnattvæðingar sem knúin er áfram af efnalegri græðgi en litlum hyggindum. Hvarvetna blikka nú rauð ljós gegn óheftum viðskiptum heimshorna á milli með lifandi dýr og afurðir þeirra: Kúariða, gin- og klaufaveiki, salmónellusýking, campýlóbakter, listería, svínapest og smitsjúkdómar tengdir laxeldi, þennan lista er hægt að margfalda og stöðugt bætast við nýir váboðar. Hugmyndafræðin sem magnað hefur upp þessar pestir er hin sama og rutt hefur hnattvæðingu brautina á öðrum sviðum, ekki síst óheftum fjármagnsflutningum. Hugmyndir studdar hagfræði um verkaskiptingu og óhefta samkeppni í heimsþorpinu sem tryggja eigi sem lægst vöruverð án tillits til afleiðinga að öðru leyti er að steyta á skerjum sem mörgum voru hulin. Matvælaiðnaður heimsins er nú í klóm nokkurra fjölþjóðarisa sem segja ríkisstjórnum og Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) fyrir verkum. Það verður ekki einfalt mál að snúa taflinu við en í raun getur verið um líf eða dauða að tefla. Hagkvæmni stærðarinnar Fátt hefur haft jafn róttæk samfélagsleg áhrif og breytingar á landbúnaðarframleiðslu sem tryggja eiga framboð á ódýrri fæðu á alsnægtaborði Vesturlanda. Hefðbundinn fjölskyldubúskapur hefur orðið óarðbær og sveitafólk flosnað upp í stórum stíl og leitað í þéttbýli. Bændabýlum í Bretlandi hefur t.d. fækkað um fjórðung á síðasta áratug. Þó eru breytingar eftirstríðsáranna á Vesturlöndum smáræði hjá því sem í vændum er í löndum þriðja heimsins ef fram fer sem horfir en þar býr meirihluti fólks enn í strjálbýli. Fjölþjóðafyrirtækin á matvælamarkaði vinna að því að kippa fótum undan hefðbundnum búskaparháttum einnig í þeim hluta heimsins og beita þar fyrir sig erfðabreyttum matvælum og einkaleyfum á útsæði og framleiðsluvörum. Iðnvæðing landbúnaðar með sístækkandi framleiðslueiningum og ódýrum próteíngjöfum eru drifkraftar þessarar þróunar. Hin hliðin eru sístækkandi eymdarhverfi borga þar sem nú þegar búa tugmilljónir. Hvorttveggja er að verða gróðrarstía sjúkdóma jafnt í dýrum sem mönnum og ekki bætir vannæring úr skák. Viðskiptin með landbúnaðarafurðir Hluti af feigðarflaninu eru óheft eða "frjáls" viðskipti með landbúnaðarafurðir sem knúin voru fram í GATT-samningum og nú undir merkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar oft án nokkurs tillits til gæða og hollustu eða öryggis gagnvart sjúkdómum. Innri markaður Evrópusambandsins er hluti af þessari þróun. Lífræn ræktun og staðbundnir markaðir hafa hvarvetna átt undir högg að sækja. Neytendasamtök hafa víða orðið fórnarlömb þessarar hugmyndafræði. Ekki er langt síðan íslenskur utanríkisráðherra stóð fyrir ólöglegum innflutningi kjúklinga og kratar boðuðu hömlulausan innflutning landbúnaðarvara. Í þessu efni eins og á öðrum sviðum hafa frjálshyggjupostular ætlað sér að setja heiminn í eina skál og beita fyrir sig almennum óskum eftir ódýrri matvöru. Lífheimurinn ekki síst hinn smásæi lætur hins vegar illa að kröfunni um verkaskiptingu og hagkvæmni stærðarinnar. Að veði eru þau gæði sem felast í hollustu og sæmilega heilbrigðu umhverfi. Hjörleifur Guttormsson |