Hjörleifur Guttormsson 7. október 2001

Stjórn NAUST kærir vegna Reyðaráls

Stjórn NAUST - Náttúruverndarsamtaka Austurlands - hefur kært til umhverfisráðherra úrskurð Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 um 420 þúsund tonna álverksmiðju og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði.

Kröfur NAUST samkvæmt kærunni eru þessar:

Aðalkrafa er að úrskurður Skipulagsstofnunar þar sem fallist er á fyrirhugaða byggingu allt að 420 þúsund tonna álvers og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði í tveimur áföngum verði úr gildi felldur og framkvæmdinni í heild verði hafnað.

Varakrafa er að aðeins verði heimiluð bygging fyrri áfanga álverksmiðju án rafskautaverksmiðju.

Þrautavarakrafa er að hafnað verði byggingu rafskautaverksmiðju.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum sagði m.a.:

Vísað er til umtalsverðra umhverfisáhrifa af framkvæmdaáformum Reyðaráls hf og að landfræðilega og veðurfarslega henti Reyðarfjörður ekki fyrir mengandi risaverksmiðjur. Ófullnægjandi rannsóknir hafi farið fram á svæðinu, m.a. á veðurfari, og mikil áhætta sé tekin þar eð þéttbýlið á Reyðarfirði sé aðeins í um 1 km fjarlægð frá útreiknuðu þynningarsvæði, en innan þess verður föst búseta alfarið bönnuð af heilbrigðisástæðum.

Kærandi telur ótvírætt að meta hefði átt hvora verksmiðju fyrir sig, þar eð báðar eru matsskyldar að lögum og engin ákvörðun var tekin af umhverfisráðherra um annað á grundvelli lagaheimilda (5. grein, 2. málsgrein laga nr. 106/2000). Í stað þessa var mat á rafskautaverksmiðjunni samtvinnað mati á álverksmiðjunni í matsskýrslu Reyðaráls hf. (maí 2001) og og auk þess þannig um búið að illmögulegt var fyrir almenning að átta sig á áhrifum hvorrar framkvæmdar um sig.

Þá véfengir NAUST að í rafskautaverksmiðjunni sé fyrirhugað að nota "bestu fáanlega tækni" í skilgreiningu laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og stjórnsýslufyrirmæla sem byggð eru á þeim lögum. Vísar kærandi í þessu sambandi til þriggja þrepa hreinsunar á mengunarefnum frá rafskautaverksmiðjunni (þurrhreinsun - vothreinsun - hreinsun á vothreinsivatni) en einvörðungu er gert ráð fyrir einu þrepi (þurrhreinsun). Varðar þetta ekki síst krabbameinsvaldandi PAH-sambönd en einnig brennisteinssambönd.

Einnig telur NAUST neikvæð og tvísýn samfélagsáhrif af byggingu verksmiðjanna og af NORAL-verkefninu í heild ekki síður áhyggjuefni en mengun og stórfellda nátturufarsröskun af öðrum þáttum verkefnisins sem verksmiðjurnar á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun eru hluti af.

Stjórn NAUST bendir einnig á stórfellda losun gróðurhúsalofts frá álverksmiðjunni sem engar mótvægisaðgerðir eru fyrirhugaðar gegn og að óvíst sé að sú losun myndi samrýmast skilyrðum samkvæmt "íslenska ákvæðinu" ef samþykkt yrði.

Umhverfisráðherra hefur 8 vikur lögum samkvæmt til að fjalla um kæruna áður en hann kveður upp sinn úrskurð.

Orðrétt segir síðan í erindinu til ráðherra:

"Frekari rökstuðningur stjórnar NAUST fyrir ofangreindum kæruatriðum er eftirfarandi:

I. Um aðalkröfu: Að hafnað verði byggingu 420 þúsund tonna álverksmiðju og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju:

  1. Umtalsverð umhverfisáhrif. Bygging og rekstur 420 þúsund tonna álverksmiðju og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði myndi að mati kæranda valda umtalsverðum umhverfisáhrifum í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til mótvægisaðgerða.

  2. Reyðarfjörður hentar ekki fyrir mengandi risaverksmiðjur. Sökum landfræðilegra aðstæðna og veðurskilyrða er Reyðarfjörður ekki til þess fallinn að þar séu staðsettar mengandi risaverksmiðjur eins og þær sem hér um ræðir. Niðurstaða úr víðtækum athugunum á vegum iðnaðarráðuneytisins 1983 á hugsanlegri staðsetningu orkufreks iðnaðar var sú að ekki væri ráðlegt að staðsetja "stóriðjuver" austanlands (Staðarval fyrir orkufrekan iðnað - Forval. Mars 1983) Þar er einnig umfjöllun um "einhæfa iðnaðarstaði" (bls. 16) með dæmum erlendis frá. Í matsskýrslu Reyðaráls hf. kemur m.a. eftirfarandi fram um Reyðarfjörð:
    "Vindafar í firðinum mótast mjög af fjöllunum og vindstefna er yfirleitt inn eða út fjörðinn. Við sérstakar aðstæður og mikinn stöðugleika andrúmslofts getur loftmassi lokast af innan fjarðarins vegna hringstreymis ... Á sumrin er staðbundin hringrás (hafátt-landátt) ráðandi í vindafari. Athuganir benda til þess að á vissum tímabilum geti hringrásin átt sér stað algjörlega innan fjarðarins. Við slíkar aðstæður eru skilyrði óhagstæð til loftdreifingar ... Logn og stöðugt andrúmsloft, eða hægviðri með breytilegri vindátt og mögulegri hringrás sama loftsins innan fjarðarins geta einnig skapað óhagstæð skilyrði til loftdreifingar. Logn er algengast að næturlagi yfir sumartímann. Stöðugt andrúmsloft er einnig algengt yfir veturinn, en logn er þá ekki eins algengt og að sumarlagi." (bls. 44)
  3. Ófullnægjandi veðurfarsrannsóknir. Rannsóknir sem mikilvægar forsendur matsskýrslu byggja á, m. a. veðurfarsrannsóknir til ákvörðunar svonefnds þynningarsvæðis, eru allsendis ófullnægjandi. Í umsögn Veðurstofu Íslands um matsskýrslu Reyðaráls, dags. 14. júní 2001, segir:
    "Við vekjum athygli á að útreikningar NILU byggjast á mælingum á tveggja ára tímabili og árin gefa mismunandi niðurstöður. Þótt verra árið hafi verið valið til viðmiðunar, er engin vissa fyrir því að ekki geti síðar komið mun óhagstæðari ár"
  4. Þéttbýlið á Reyðarfirði og mengunarhætta. Skipulagsstofnun hefur að höfðu samráði við Reyðarál sett í úrskurði sínum það skilyrði vegna mengunarhættu að "Ekki verði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst". Búseta er nú innan umrædds svæðis á jörðunum Hólmum og Framnesi. Innri mörk þessa þynningarsvæðis eru aðeins í um 1 km fjarlægð frá þéttbýlinu á Reyðarfirði. Af þessu er ljóst að lítið má út af bera, sbr. og tölulið 3, þannig að mengun verði yfir heilsuverndarmörkum, einnig innan þéttbýlisins.

  5. Mikil mengun á stóru svæði. Viðurkennt er bæði í matsskýrslu framkvæmdaraðila og í úrskurði Skipulagsstofnunar að mikil mengun muni verða frá umræddum risaverksmiðjum, bæði í lofti, láði og legi og sem hafa muni veruleg takmarkandi áhrif á landnotkun, bæði á landi varðandi búsetu og í sjó með tilliti til sjávarnytja, einkum innan þynningarsvæðis. Hafa ber í huga að mörg umræddra mengunarefna, þar á meðal þau hættulegustu eins og PAH-sambönd, safnast upp í náttúrunni á rekstartíma ráðgerðrar verksmiðju, meðal annars í sjávarseti. Alvara þessa máls kemur m. a. fram í aðvörunarorðum Skipulagsstofnunar sem segir í niðurstöðu sinni:
    "Skipulagsstofnun leggur áherslu á að forsvarsmenn Reyðaráls hf. og leyfisveitendur geri íbúum og öðrum aðilum sem nýta landsins gæði og sjávarfang í Reyðarfirði ljósa þá áhættu sem fylgir þeirri nýtingu, sérstaklega innan þynningarsvæða verksmiðjunnar á landi og í sjó." (bls. 134)
    Þessi staða gæti m. a. gert að engu hugmyndir um fiskeldi í Reyðarfirði og haft margvísleg neikvæð áhrif, beint og óbeint, á matvælaiðnað.

  6. Röng niðurstaða Skipulagsstofnunar. Kærandi telur að þrátt fyrir það álit Skipulagsstofnunar, sem byggir m.a. á umsögn Hollustuverndar, að unnt sé að uppfylla gildandi kröfur um mengunarmörk í reglugerðum og tilskipunum utan fyrirhugaðs þynningarsvæðis, sé með vísan til staðbundinna aðstæðna í Reyðarfirði og margra óvissuþátta í forsendum matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar óverjandi að heimila byggingu og rekstur umræddra risaverksmiðja.

  7. Rafskautaverksmiðju bar að meta sérstaklega. Skv. 2. mgr. 5. gr. er það meginregla ef um er að ræða fleiri en eina matsskylda framkvæmd á sama svæði, að þá skuli meta hverja þeirra sérstaklega. Undantekning frá þeirri reglu er heimiluð þannig að ráðherra geti, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega. Engin slík ákvörðun ráðherra liggur fyrir og því bar að meta rafskautaverksmiðjuna sérstaklega, en óumdeilt er að rafskautaverksmiðjan er matsskyld framkvæmd útaf fyrir sig, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og viðauka við þau.

    Bygging rafskautaverksmiðju samhliða álverksmiðju er af framkvæmdaraðila talin forsenda fyrir að hagkvæmt sé að ráðast í byggingu álverksmiðjunnar. Um það segir í matsskýrslu Reyðaráls hf.:
    "Í matsáætlun var tekið fram að kannað yrði hvort hagkvæmt væri að reka álverið án þess að framleiðsla rafskauta væri á staðnum. Niðurstaða þeirrar athugunar er sú að nauðsynlegt sé að byggja rafskautaverksmiðju vegna álvers Reyðaráls og mun hagkvæmara sé að byggja hana á iðnaðarsvæðinu í Reyðarfirði en annars staðar."
    Síðan eru bornar fram ástæður fyrir þessu í sex liðum og vegur sá síðasti etv. þyngst af hálfu fyrirtækisins, svohljóðandi:
    "Ef rafskautaverksmiðjan er ekki hluti álversins yrði kostnaður vegna flutnings rafskauta frá rafskautaverksmiðju staðsettri annars staðar og flutningur skautleifa til baka verulegur og myndi það rýra hagkvæmni álversins." Lokaorð um þetta eru: " Í heild yrði því mun óhagkvæmara að byggja rafskautaverksmiðjuna annars staðar og það myndi rýra hagkvæmni álversins." (bls. 71-72)
    Það voru mistök hjá Skipulagsstofnun að setja ekki það skilyrði við mótun matsáætlunar framkvæmdaraðila að sérgreind matsáætlun og matsskýrsla yrði gerð um rafskautaverksmiðjuna eða henni væri að minnsta kosti haldið skýrt afmarkaðri í matsskýrslu að því er byggingu, rekstur og losun mengandi efna varðar. Órökstudd er staðhæfing framkvæmdaraðila um nauðsyn á byggingu slíkrar verksmiðju á Reyðarfirði. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar í úrskurði segir m. a.:
    "Í umsögnum og athugasemdum hefur verið á það bent að meta ætti umhverfisáhrif rafskautaverksmiðju sérstaklega. Þar sem framkvæmdaraðili hefur lagt framkvæmdina fram til athugunar Skipulagsstofnunar með þeim hætti að um eina heildarframkvæmd sé að ræða, þar sem ekki verði skilið á milli álversins og og rafskautaverksmiðjunnar, og lagt áherslu á að ekki sé hagkvæmt að reisa og reka álverksmiðju af fyrirhugaðri stærð án rafskautaverksmiðju hefur Skipulagsstofnun fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir í einu lagi og telur ekki heimilt að skilja á milli einstakra framkvæmdaþátta í niðurstöðu úrskurðarins."
    Þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar fær engan veginn staðist, m.a. þar eð hagkvæmni og efnahagsleg rök eru ekki viðfangsefni mats á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Því var Skipulagsstofnun, andstætt því sem fram kemur í niðurstöðu hennar í úrskurði, fyllilega heimilt að skilja á milli álverksmiðju og rafskautaverksmiðju í úrskurði í stað þess að láta undan órökstuddri og ólögmætri kröfu Reyðaráls hf. Ljóst er að umrædd rafskautaverksmiðja á stóran hlut í því mengunarálagi sem ráðgerðar verksmiðjur á Reyðarfirði hefðu í för með sér.

  8. "Besta fáanleg tækni"ekki notuð. Í rafskautaverksmiðjunni er ekki fyrirhugað að nota bestu fáanlega tækni til mengunarvarna. Aðeins er um að ræða þurrhreinsun í stað þriggja þrepa hreinsitækni þar sem eftir þurrhreinsun komi vothreinsun og síðan hreinsun á vatni frá vothreinsuninni. Slíkri tækni beitir hins vegar Norsk Hydro heima fyrir í Noregi, m.a. í Sunndal-rafskautaverksmiðjunni. Hvorki meira né minna en um 77% af áætlaðri SO2-losun og 99% af PAH-útblæstri Reyðaráls (PAH eru fjölarómatísk kolvetnasambönd sem geta valdið krabbameini) má rekja til rafskautaverksmiðjunnar og áætluð stærð þynningarsvæðis á landi ákvarðast að stórum hluta af þessari losun. Vísað er til greina eftir Berg Sigurðsson umhverfisefnafræðing á heimasíðu Landverndar 3. september 2001 undir fyrirsögninni "Reyðarál hyggst ekki nota bestu fáanlega tækni til þess að draga úr mengun frá rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði" og grein eftir Ingibjörgu E. Björnsdóttur umhverfissérfræðing "Loftmengun vegna álvers" frá 7. júní 2001 á sömu heimasíðu. Í grein sinni bendir Bergur Sigurðsson á: "að Beyer einn af helstu vísindamönnum Norðmanna á sviði PAH rannsókna nefnir vothreinsun, með 3. þrepi, sem algenga aðferð til þess að draga úr PAH mengun."

    Veðurstofa Íslands bendir á í umsögn 14. júní 2001 að með því að nota koks með tiltölulega lágu brennisteinsinnihaldi og vothreinsun að viðbættri þurrhreinsun á útblæstri frá rafskautaverksmiðju virðist mega koma útblæstri SO2 niður fyrir 1 kg fyrir hvert framleitt tonn áls. Og Veðurstofan segir ennfremur:
    "Við að bæta vothreinsun við hreinsivirki rafskautaverksmiðju vinnst einnig mikil minnkun á útblæstri PAH frá álverinu, en því fylgir því miður aukning á flutningi PAH-efna til sjávar. Kynni því að þurfa að kanna heinsun frárennslis frá rafskautaverksmiðju",
    þ.e. þriðja þrepið sem Bergur Sigurðsson vísar til og sem Norsk Hydro beitir við rafskautaframleiðslu í Noregi. Að sama atriði víkur HAUST (Heilbrigðiseftirlit Austurlands) einnig í umsögn til Skipulagsstofnunar, dags. 17. júní 2001. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins segir þar m.a. :
    "Undirrituð telur æskilegt að leita allra leiða til að lágmarka það magn PAH efna sem fara frá verksmiðjunni, t.d. með því að bæta vothreinsibúnaði og síun við þurrhreinsun frá rafskautaverksmiðjunni. Meta þarf og bera saman áhættuna sem fylgir því að losa PAH-efni í loft og/eða sjó, út frá því magni sem um er að ræða miðað við valkosti í hreinsivirkjum."
  9. Lög og reglugerðarákvæði sniðgengin. Að mati kæranda gengur Reyðarál hf. gegn ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og stjórnsýslufyrirmælum um sem á þeim lögum eru byggðar, og sem málið varða, með því að beita ekki bestu fáanlegri tækni með þriggja þrepa hreinsun á losun frá rafskautaverksmiðjunni. Í 3. gr. nefndra laga er eftirfarandi skilgreining á "bestu fáanlegri tækni":
    Með bestu fáanlegri tækni er átt við framleiðsluaðferð og tækjakost sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins, svo og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
    Kærandi væntir þess að umhverfisráðherra í umfjöllun um kæruna kveði upp úr um mat ráðuneytisins á því hvort áform framkvæmdaraðila um hreinsun á losun á úrgangsefnum frá rafskautaverksmiðju séu í samræmi við lög og settar reglur.

  10. Neikvæð og tvísýn samfélagsáhrif. Samfélagsáhrif af álverksmiðjunni eru ekki síður áhyggjuefni en mengun og stórfelld náttúrufarsröskun af öðrum þáttum NORAL-verkefnisins. Þau geta að mati kæranda orðið öll önnur og neikvæðari en gert er ráð fyrir í matsskýrslu fyrirtækisins og fylgiskýrslu Nýsis ehf um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði. Framsetning í síðarnefndu skýrslunni er raunar á heildina litið óraunsæ og með miklum áróðursblæ og umfjöllun um aðra möguleika í atvinnuþróun fátækleg og máluð dökkum litum.
    Óvissa um samfélagslegu áhrifin kemur líka fram í niðurstöðum Skipulagsstofnunar. Stofnunin telur að á byggingartíma álvers og hafnar fyrir álverið verði mikil uppsveifla á atvinnulífi á Austurlandi og fjöldi nýrra starfa fylgi rekstri álversins. Síðan segir:
    "... hins vegar leiki meiri vafi á því hver áhrifin verði á aðrar atvinnugreinar sem verða þá í meiri samkeppni um vinnuafl .... Skipulagsstofnun telur líklegt að rekstur álverksmiðju muni leiða til samþjöppunar byggðar á Austurlandi. Þannig muni byggð í Fjarðabyggð og öðrum sveitarfélögum á Mið-Austurlandi styrkjast, hugsanlega að hluta til á kostnað jaðarsvæða á Austurlandi. Að mati Skipulagsstofnunar hefði mátt gera betur grein fyrir félagslegum áhrifum þess að mikill fjöldi aðkomufólks verður í Fjarðabyggð á byggingartíma álversins. Þá er einnig óljóst hvernig komið verður til móts við þörf á leiguhúsnæði til lengri eða skemmri tíma."
    (bls. 130 í úrskurði Skipulagsstofnunar).

    Að mati kæranda munu NORAL-framkvæmdirnar ef af verður raska allri grunngerð atvinnulífs á Mið-Austurlandi og skaða mörg þeirra atvinnufyrirtækja sem þar hafa verið byggð upp síðustu áratugi. Á byggingartíma álvers og virkjunar og tengdra framkvæmda, mun skapast eins konar gullgrafara-stemning í þessum tiltölulega fámennu sveitarfélögum, er þúsundir aðkomumanna streyma inn á svæðið. Verðlag á vörum, þjónustu og húsnæði mun hækka mikið, svo og laun a.m.k. tímabundið. Ólíklegt er að sá atvinnurekstur sem fyrir er fái staðist slíka holskeflu án mikilla skakkafalla. Afleiðingin gæti allt eins orðið fábreyttara þjóðfélag, sem að miklu leyti yrði háð fyrirhuguðu álveri. Engin vissa er heldur fyrir því að stóriðjuframkvæmdirnar myndu leiða til nettófólksfjölgunar á Mið-Austurlandi að byggingartíma loknum. Áhrifin á önnur svæði í kjördæminu, m.a. Vopnafjörð og byggðir sunnan Fáskrúðsfjarðar, yrðu að líkindum neikvæð, en í matsskýrslu er gert ráð fyrir umtalsverðu aðstreymi vinnuafls frá útjöðrum fjórðungsins (bls. 119). Þá er augljóst að álverksmiðja yrði til þess að skekkja enn frekar en orðið er hlutfallið á milli karla og kvenna á vinnumarkaði á Mið-Austurlandi, þar sem karlar eru nú 5% fleiri en konur. Einnig eru miklar líkur á að byggja þyrfti í auknum mæli á erlendu vinnuafli í ýmsum greinum atvinnulífs á Austurlandi eftir tilkomu álvers, en í matsskýrslu er ekkert fjallað um nauðsynleg úrræði og kostnað við að auðvelda aðlögun að slíkum aðstæðum.

  11. Stórfelld losun gróðurhúsalofts. Álverksmiðjan hefði samkvæmt matsskýrslu í för með sér 26% aukningu í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda (CO2-ígildi) hérlendis miðað við árið 1990 sem er viðmiðunarár loftslagssamningsins og aukning CO2 losunar næmi 36% sem er meira en nemur losun frá öllum fiskiskipaflota Íslendinga árið 1990. Losun gróðurhúsalofttegunda á mann hérlendis yrði að fullbyggðri álverksmiðju á Reyðarfirði með því hæsta sem þekkist í heiminum eða um 15 tonn á íbúa. Í Evrópusambandinu er samsvarandi losun aðeins um 9 tonn á íbúa að meðaltali. Ekki er gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum af hálfu fyrirtækisins vegna þessa heldur gengið út frá að íslensk stjórnvöld færi Reyðaráli hf. ókeypis losunarheimildir út á undanþáguákvæði í Kyótó-ferlinu, sem þó hefur ekki enn verið samþykkt á vettvangi loftslagssamningsins. Fyrirliggjandi tillaga að "íslenska ákvæðinu" svonefnda er bundin skilyrðum, m. a. um að beitt verði bestu fáanlegri tækni og bestu umhverfisvenjum við framkvæmdir og rekstur. Þegar höfð er í huga ófullkomin hreinsun á útblæstri frá rafskautaverksmiðju, sbr. tölulið 9, verður ekki séð að nefndu skilyrði sé fullnægt. Einnig er óvíst að orkuöflun fyrir álverið frá Kárahnjúkavirkjun standist nefnd skilyrði þar sem um óafturkræf náttúruspjöll yrði að ræða.

  12. Raflínur og virkjanir. Lagning tveggja 400 kílóvolta raflína að álverksmiðjunni hefur þegar farið gegnum mat á umhverfisáhrifum og gerði NAUST og fleiri aðilar miklar athugasemdir við þá framkvæmd sem einnig var kærð til umhverfisráðherra með litlum árangri. Sjónmengun af þeim mannvirkjum mun verða mikil innst í Reyðarfirði og ofan þéttbýlisins. Ótaldar eru þá virkjanir til orkuöflunar fyrir álverksmiðjuna, en þar fer mest fyrir Kárahnjúkavirkjun sem Skipulagsstofnun lagðist gegn í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum 1. ágúst 2001 og hugmyndum um Bjarnarflagsvirkjun var áður vísað í frekara mat. Allt er því í óvissu um raforkuöflun til álverksmiðjunnar.

II. Um varakröfu:
Að aðeins verði heimiluð bygging fyrri áfanga álverksmiðju, 280 þúsund tonn, án rafskautaverksmiðju.
Krafan skýrir sig sjálf og er sett fram í því tilviki að ekki verði fallist á aðalkröfu. Um er að ræða sjálfsagða varúðarnálgun þannig að ekki verði fyrst um sinn veitt heimild nema fyrir byggingu fyrri áfanga álverksmiðju og þá án rafskautaverksmiðju sem kærendur leggjast alfarið gegn að reist verði. Til byggingar 2. áfanga álverksmiðju yrði fyrst tekin afstaða í kjölfar fenginnar reynslu af umhverfisáhrifum 1. áfanga, t.d. eftir að áratugs reynsla væri fengin af rekstri verksmiðjunnar í umræddri stærð.

III. Um þrautavarakröfu:
Að hafnað verði alfarið byggingu rafskautaverksmiðju.
Þessi krafa er sett fram til þrautavara verði ekki fallist á aðalkröfu eða varakröfu og þannig heimiluð 480 þúsund tonna álverksmiðja. Eins og fram hefur komið í töluliðum 7-9 hér að framan og ítarlega er rökstutt í fylgiskjölum verður að teljast alröng sú niðurstaða Skipulagsstofnunar að heimila 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði á grundvelli matsskýrslu Reyðaráls hf.

Um málsástæður er að öðru leyti vísað til áðurnefndra gagna og fylgiskjala.

Kærandi áskilur sér allan rétt til að koma að frekari gögnum við meðferð málsins."

Með kærunni til ráðherra sendi stjórn NAUST afrit af athugasemdum sínum til Skipulagsstofnunar, dags. 28. júní 2001, svo og af athugasemdum Hjörleifs Guttormssonar til Skipulagsstofnunar á fyrri stigum matsferlisins.

Fróðlegt verður að sjá hver niðurstaða ráðherra verður vegna þessarar kæru sem bætist við framkomin kærumál vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim