Hjörleifur Guttormsson 8. júní 2001

Gróðurhúsaáhrifin og Reyðarál

Mengar eins og allur fiskiskipaflotinn!

Skýrsla Reyðaráls til mats á umhverfisáhrifum 420 þúsund tonna risaverksmiðju á Reyðarfirði er nýlega komin fram. Meðal umhverfisáhrifa verksmiðjunnar er gífurleg losun gróðurhúsalofttegunda sem skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að nemi 770 þúsund tonnum í koldíoxíðs-ígildum. Slík losun er meiri en barst frá öllum fiskiskipaflota Íslendinga á árinu 1990, en það er viðmiðunarár í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að. Reyðarál gerir ekki ráð fyrir sérstökum mótvægisaðgerðum vegna þessarar losunar. Þess í stað er vísað í stefnu íslenskra stjórnvalda, sem eru að reyna að fá stóriðju hérlendis undanskilda ákvæðum Kýótó-bókunarinnar við loftslagssamninginn. Það er sýnd veiði en ekki gefin og allsendis óvíst hvort úrslit fást áður en stjórnvöld ætla sér að taka ákvarðanir um framkvæmdir Reyðaráls.

Blekkjandi áróður

Þá er í matsskýrslu Reyðaráls sérstakur kafli þar sem borin er saman mismunandi losun gróðurhúsalofttegunda frá rafmagnsframleiðslu til áliðnaðar eftir því hvort um er að ræða endurnýjanlega orku eða jarðefnaeldsneyti. Á þessu hafa talsmenn stóriðjuframkvæmda hérlendis, jafnt stjórnmálamenn og fulltrúar fyrirtækja lengi klifað til réttlætingar á losun gróðurhúsalofttegunda af völdum stóriðju á Íslandi. Inntakið í þeim málflutningi er að miklu betra sé að framleiða ál og aðrar afurðir þungaiðnaðar hér með vatnsafli en annars staðar þar sem notað sé jarðefnaeldsneyti til framleiðslunnar. Þótt auðvelt sé að sýna tölulega útreikninga þessu til stuðnings er hér ekki allt sem sýnist. Loftslagssamningurinn sem Ísland er aðili að gerir ráð fyrir að hver samningsaðili hamli gegn losun gróðurhúsalofttegunda innan sinnar efnahagslögsögu. Með Kyótó-bókuninni margumræddu er gert ráð fyrir að ríki taki á sig lagalegar skuldbindingar í þessum efnum. Hvorki loftslagssamningurinn eða bókunin byggir á flokkun eftir framleiðslugreinum eða öðrum uppsprettum losunar á heimsvísu heldur er hverjum samningsaðila í sjálfsvald sett, hvernig hann nær settu marki. Ríki sem taka á sig skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda munu væntanlega nýta það svigrúm sem þeim er ætlað upp að umsömdum mörkum, ef ekki með þungaiðnaði þá með annarri starfsemi. Er þar af nógu að taka, hvort sem það er á sviði samgangna eða annarra þátta sem valda losun gróðurhúsalofttegunda. Heildarlosun út í andrúmsloftið á hverjum tíma mun því ekki ráðast af orkuframleiðslu til einstakra afmarkaðra framleiðsluþátta eins og áliðnaðar þótt ekkert sé á móti því að hafa uppi slíkan samanburð í eðlilegu samhengi.

Ríkisstjórnin gegn loftslagssamningnum

Veruleikinn á bak við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum virðist því miður vera sá, að Ísland skuli skerast úr leik í viðleitni þjóða til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Öll áhersla stjórnvalda hefur mörg undanfarin ár beinst að því að skapa Íslandi svigrúm til að auka stórlega losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi í stað þess að leggja lóð á vogarskálar með þeim sem draga vilja úr háskalegustu mengun sem nú steðjar að lífi á þessari jörð.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim