Hjörleifur Guttormsson 7. mars 2001

Hættum stóriðjudansinum

Ekki er öll vitleysan eins segir gamalt orðtæki sem kemur upp í huga manns þegar farið er yfir hugmyndir Reyðaráls hf. um 420 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði og 220 þúsund tonna rafskautaverksmiðju í ofanálag. Það er sannarlega frumlegt að láta sér detta í hug að reisa stærstu álverksmiðju í Vestur-Evrópu í þröngum firði á Austurlandi þar sem búa innan við 2000 manns. Í góðu samræmi við stærð verksmiðjunnar ætlar Landsvirkjun að byggja hæstu stíflu norðan Alpafjalla og búa til 60 ferkílómetra drullupoll ofan hennar. Það sem ekki sest til í Hálslóni af 10 miljón tonna árlegum aurframburði Jöklu mun nægja til að lita Lagarfljót mórautt um aldir en þangað á að beina móðunni miklu sem nú þeysir niður eftir Jökuldal. Reyðarál hf og Norsk Hydro sem bakhjarl þess getur ekki þvegið hendur sínar af mestu náttúruspjöllum Íslandssögunnar, sem nú eru undirbúin á Austurlandi. Sú spurning brennur líka á forráðamönnum lífeyrissjóða og fólkinu sem þar ávaxtar sitt pund hvort leggja eigi sameiginlegar eignir þess og ellitryggingu í fáránlegustu fjárfestingu sem komið hefur til tals á Íslandi, risaálverksmiðju á Reyðarfirði. Grandvarir menn hafa reikað út að til verksmiðjunnar og þess sem við á að éta þurfi 300 miljarða króna á næstu 12 árum, gott betur en öll útgjöld samkvæmt fjárlögum ríkisins í ár.

Ósjálfbært glapræði

Frá því í fyrrasumar hafa þeir Reyðarálsmenn verið að efna í skýrslu um sína framtíðarsýn og hefur almenningur og félagasamtök haft rétt til athugasemda að undanförnu. Skipulagsstofnun mun væntanlega kveða upp sinn úrskurð 10. ágúst 2001. Vissulega er málið stórt og nokkuð margbrotið en þó einfalt í raun og engum ofraun að hafa á því skoðun. Spurningin sem við blasir er hvort menn telja rétt að verja gífurlegum fjármunum í umrædda fabrikku á Reyðarfirði og spilla í leiðinni að stórum hluta náttúrufari Fljótsdalshéraðs og hálendisins inn af því allt til jökla. Veðurstofa Íslands segir okkur að óhagstæðari staður en Reyðarfjörður sé vandfundinn á Íslandi undir mengandi iðnað. Óvíða er logn og hægviðri jafn ríkjandi hérlendis eins og þar milli hárra fjalla með tíðum hitahvörfum. Hversu mjög sem menn vanda sig í mengunarvörnum er verið að tefla á tæpasta vað, bæði fyrir lífríki og gagnvart því fólki sem þarna er ætlað að búa undir verksmiðjuvegg. Ávinningurinn fyrir Austurland og þjóðarbúið allt er tvísýnn og óviss í meira lagi á skammtímamælikvarða. Til lengri tíma litið er málið allt ósjálfbært glapræði.

Ráðgjafar með bundnar hendur

Margir hafa komið að athugunum einstakra þátta verksmiðjumálsins fyrir Reyðarál og reynt að spá í spilin eins og fyrir þá hefur verið lagt. Eitt gildasta skjalið í blaðsíðum talið heitir "Mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði" og skrifast fyrir því Nýsir ehf. Aðalhöfundurinn Sigfús Jónsson hefur staðið framarlega í eldlínu við að kynna innihald skýrslu sinnar og stundum leyft sér að ganga feti lengra en til mun ætlast af þeim sem kaupa verkið. Þannig dylst engum sem sótt hafa kynningarfundi Reyðaráls að undanförnu að þessum samfélagsrýni líst ekki meira en svo á blikuna sem NORAL-verkefninu mikla fylgir. Frekar en að opna þá umræðu eins og hugur hans stendur til lýsti Sigfús því yfir á fundi á Hótel Sögu 14. júní síðastliðinn að sem vinnumaður Reyðaráls hefði hann bundnar hendur. Það var hraustlega mælt með stjórnarformann Reyðaráls og fleiri verkkaupa á áheyrendabekkjum. Sigfús er þarna engan veginn einn á báti, þótt misjafnlega hátti til á einstökum fræðasviðum sem leggja í það stóra púkk sem matsskýrslur kallast. Þessa aðstöðu þarf almenningur að skilja og láta ekki sérfræðivaðalinn villa sér sýn meira en efni standa til. Skýrsla Nýsis ehf. er þó altént rituð á íslensku máli, en drjúgur hluti af fylgiefni matsskýrslu Reyðaráls ehf. er á enskri tungu og í fæstum tilvikum orð með á íslensku. Hver þeim ósköpum ræður veit ekki sá sem hér heldur á penna.

Dýrkeypt einnotalausn

Yfirlýst markmið þeirra stjórnmálamanna sem ábyrgð bera á NORAL-"viðskiptahugmyndinni" sem svo er kölluð er að bjarga Austurlandi í bráð og lengd. Hafa þeir hengt allt upp á einn þráð, fylgismenn sína og sveitarstjórnir og sjálfa sig með. Enginn hefur hins vegar komist að því hvort festa sé á bak við meint haldreipi og grunar ýmsa að þetta sé bláþráður. Samt á að beita öllum ráðum til að koma NORAL af stað með illu eða góðu og allir sjá að róinn er pólitískur lífróður. En til hvers á þetta að leiða? Í skýrslunum lesum við að eftir 12 ár og 300 þúsund miljóna fjárútgjöld sé þess að vænta að um eitt þúsund störf verði til á Reyðarfirði og grennd. Jafnvel megi búast við að fólkinu fjölgi um 2-3 þúsund manns þegar upp er staðið. Enginn af sérfræðingum Reyðaráls hefur hins vegar fengið leyfi til að spá í, hversu margir muni nota tækifærið eftir uppgripavinnu og hækkað fasteignaverð til að koma sér fyrir annars staðar. Þaðan af síður hafa menn leitt getum að því hversu mörg fyrirtæki leggi upp laupana í þeim darraðardansi sem einkenna myndi byggingartíma næstu ára. Mannaflaþörfin í NORAL er talin vera um 6000 ársverk, þar af um 2000 ársverk á árinu 2005! Þetta Klondike stendur til að innleiða á svæði þar sem lítið sem ekkert atvinnuleysi hefur verið undanfarið. Þegar rykið síðan fellur standa Austfirðingar eftir með álverksmiðju sem einnotalausn, dýrkeypta myndi margur telja.

Allsherjaraðhald annars staðar

Það dylst engum sem horfir á þetta dæmi að lítið svigrúm yrði til athafna og fjárfestinga á Íslandi utan Mið-Austurlands á meðan NORAL-verkefnið geystist fram næstu 12 árin eða í þrjú kjörtímabil. Þar og ekki annars staðar verða hlutirnir að gerast eigi NORAL að ganga upp verklega og samfélagslega. Auk risavirkjana og verksmiðja þarf að reisa 900 íbúðir, 18 þúsund fermetra í atvinnuhúsnæði, stórskipahöfn, jarðgöng og vegabætur með tilheyrandi fjárframlögum úr ríkissjóði og lántökum fámennra sveitarfélaga. Allt þetta og meira til er skilyrði þess að mati Reyðaráls hf að hægt sé að leggja upp í ævintýrið mikla, safna fólki í verksmiðjuna og sjá því fyrir þaki yfir höfuðið. Um þessa 5-ára áætlun hefur hins vegar verið fremur hljótt og óvíst að hún hafi verið kynnt fyrir þingmönnum stjórnarflokkanna, kannski er hún ekki einu sinni til nema hjá Reyðaráli hf. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur þó væntanlega heyrt af henni, því að hann er formaður samráðsnefndar um NORAL-verkefnið og á væntanlega að stilla allt þetta af svo vel fari og verðbólga og þensla fari ekki úr böndum meira en orðið er.

Mengun frá tveimur risaverksmiðjum

Fljótsdalshérað ásamt öræfum sínum yrði skilið eftir í sárum í þágu Reyðaráls, Landsvirkjun á að sjá fyrir því. Reyðfirðingum er hins vegar ætlað að þola mengunina frá 420 þúsund tonna álverksmiðju og 223 þúsund tonna rafskautaverksmiðju. Sú síðartalda heyrðist fyrst nefnd á árinu sem leið en nú er hún af Reyðaráli hf. talin ómissandi fyrir fyrirtækið af hagkvæmniástæðum. Umhverfislega er þar hins vegar á ferðinni tvísýnn glaðningur, því að þessi bikstöð er vægast sagt mjög varhugaverð, sendir m.a. frá sér um 2 tonn af PAH-efnum ár og síð út í Austfjarðaþokuna. Þótt Hydro Aluminium as leggi til skárri hreinsibúnað en sést hefur í öðrum álverksmiðjum hérlendis veldur stærð verksmiðjanna því að magn mengandi efna sem frá þeim kæmi minnkar ekki að sama skapi. Mest munar um losun 770 þúsund tonna af gróðurhúsalofti árlega sem engar mótaðgerðir eru fyrirhugaðar gegn og setur sú mikla mengun stöðu Íslands samkvæmt Rammasamningnum um loftslagsbreytingar í uppnám. Vegna vothreinsunar á brennisteinssamböndum berast krabbameinsvaldandi PAH-efnasambönd til sjávar með afleiðingum sem erfitt er að sjá fyrir. Þá falla til ef NORAL verður að veruleika um 10 þúsund tonn af mjög varhugaverðum kerbrotum árlega, en þau á að urða skammt frá sjó sen taka skal við frárennslinu. Verði af byggingu álverksmiðjunnar er ólíklegt að marga fýsi að stofna til fiskeldis í Reyðarfirði, þó ekki væri nema vegna markaðslegrar áhættu og ótta við mengun.

Nýtum orkulindirnar af varfærni

Ekkert er efnahag og umhverfi á Íslandi hættulegra þessi árin en stóriðjustefnan sem stjórnvöld magna nú meira en nokkru sinni fyrr. Í stað óvægins hernaðar gegn landinu eigum við að nýta orkulindirnar af varfærni og átta okkur á að þær eru miklu takmarkaðri en Landsvirkjun og stóriðjutalsmenn láta í veðri vaka. Hver virkjun sem nú er ráðstafað til þungaiðnaðar þýðir meiri umhverfislegar fórnir þegar líður á þessa öld. Losun gróðurhúsalofts sem álvinnslunni og annarri stóriðju fylgir er jafnframt að setja Ísland út í horn í samfélagi þjóða ekki ósvipað og Bandaríkin vegna stefnu Bush í loftslagsmálum. Þau fáu störf sem stóriðjunni fylgja eru alltof dýru verði keypt. Hugmyndin um risaálbræðslu Reyðaráls er ok sem Austfirðingar ættu að hrista af sér sem fyrst með stuðningi sem flestra annarra Íslendinga.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim