Hjörleifur Guttormsson 10. janúar 2001

 

Umhverfismál í aldarbyrjun

Takmarkaður árangur

Það er tilfinning margra um þessi árþúsundamót að maðurinn, sem kallar tegund sína Homo sapiens, þ.e.hinn viti borna mann, sé að fara fram úr sjálfum sér og raska svo umhverfi jarðar að afkomendunum sé mikil hætta búin. Sívaxandi þungi í umræðunni um umhverfi okkar undanfarin 30 ár ber þessum áhyggjum vitni. Þrátt fyrir skipulega viðleitni Sameinuðu þjóðanna allt frá Stokkhólmsráðstefnunni 1972 til að koma þessari umræðu frá málþingum yfir í aðgerðir, staðbundnar og alþjóðlegar, hefur alltof lítið áunnist. Eyðingaröflin hafa ekki staðið í stað, hnattvæðing efnahagslífsins hefur magnað efnahagslega misskiptingu og ný svið eins og líftækni og erfðabreytingar kallar á svör sem ekki eru auðfundin. Eitt af sérkennum okkar tíma er sívaxandi hraði breytinga, bæði sem orsök og afleiðing. Ekki er fyrr búið að taka á einu vandamáli en annað og stærra birtist við sjónhring. Dæmi um þetta er eyðing ósonlagsins, sem brugðist var við með alþjóðasamningi, og loftslagsbreytingar vegna gróðurhúsaáhrifa, þar sem alþjóðleg viðbrögð hafa enn litlum árangri skilað.

Hættumerkin hrannast upp

Afurðir vísinda og tækni hafa fært mannkyni miklar hagsbætur en athafnir manna í krafti þeirra hafa á síðustu þremur áratugum spillt og eyðilegt um þriðjunginn af náttúruauðlindum jarðar. Sáttmálunum um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og um varnir gegn eyðimerkurmyndun er meðal annars ætlað að stöðva þá óheillaþróun. Sé íbúatölu jarðar deilt á það ræktarland sem enn er til staðar kemur aðeins hálfur annar hektari í hlut hvers og eins og hrekkur ekki til. Ef allir jarðarbúar byggju við neyslumynstur Vesturlanda er talið að fimm hnettir eins og Jörðin nægðu tæpast til að standa undir veislunni, slíkur er ójöfnuðurinn og sóunin. Iðnvæðing og efnanotkun í landbúnaði og matvælaframleiðslu hefur leitt af sér stórfelld vandamál, mengun grunnvatns og innsjávar, dýrasjúkdóma og smitsjúkdóma hjá neytendum. Kúariða er nýjasta dæmið, afleiðingar þess að farið var að fóðra nautgripi á próteinríku beinamjöli fyrir tveimur áratugum. Það er engin furða að lífrænt ræktaðar afurðir sækja nú á hjá neytendum. Ferskvatn er víða orðin takmörkuð auðlind og spáð er hríðversnandi ástandi næstu áratugi. Iðnvæddur landbúnaður tekur til sín um 65% af heildar vatnsnotkun og annar iðnaður um 25%. Nú þegar býr um miljarður manna við vatnsskort. Mengun heimshafanna og hraðminnkandi afrakstur fiskistofna vegna ofveiði víða um heim er nú alþekkt staðreynd. Gerð alþjóðasamnings um þrávirk lífræn efni, sem gengið var frá í síðasta mánuði er jákvætt skref, sem Íslendingar áttu góðan hlut að. Eftir er að sjá hverju framkvæmdin skilar, en þess utan stafar lífríki hafsins hætta af fjölmörgum öðrum efnum og geislavirkum úrgangi.

Líftækni og erfðablöndun

Það svið sem nýjast er og mikill styrr stendur um er líftækni í sínum margbreytilegu myndum, ekki síst erfðatækni og tilkoma erfðabreyttra lífvera og afurða þeirra. Fátt er umdeildara um þessar mundir, og á það jafnt við um rannsóknir og hagnýtingu í læknisfræði, í landbúnaði og við fæðuframleiðslu. Þróun á þessu sviði er knúin fram af gífurlegum fjárhagslegum hagsmunum og samkeppni milli fyrirtækja og landa. Um 20 fjölþjóðfyrirtæki ráða nú lögum og lofum á matvælamarkaði heimsins og sum þeirra eins og Monsanto hafa beitt ótrúlegum brögðum við að vinna markað fyrir erfðabreyttar afurðir. Viðbrögð almennings víða í Evrópu hafa hins vegar sýnt að neytendur eru afar tortryggnir gagnvart erfðabreyttum matvælum og hefur það haft áhrif á leyfisveitingar, m.a. í Evrópusambandinu.

Deilurnar um flutning erfðaefnis milli landa og áhrif erfðablöndunar milli ræktaðra og viltra stofna lífvera er hluti af eðlilegri tortryggni gagnvart gálausum og óafturkræfum breytingum á náttúrunni. Samþætting viðskiptalegra hagsmuna og vísindarannsókna á þessu sviði er afar óheppileg og getur fyrr en varir leitt til ófarnaðar. Kapphlaupið um hagnað af líftækni snýst líka um einkaleyfi stórfyrirtækja á erfðabreyttum lífverum, erfðavísum og útsæði og hefur nú þegar leitt til árekstra, ekki síst í þróunarlöndum. Langan tíma hefur tekið að móta alþjóðlegar reglur á þessu sviði líftækni, en áfanga var náð á síðasta ári með sérstakri bókun um öryggi í lífvísindum (Protocol on Biosafety) á grundvelli Sáttmálans um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Ísland fylgdist ekki einu sinni með við undirbúning þessarar bókunar og hefur ekki gerst aðili að henni.

Loftslagsverndin áfram prófsteinn

Afdrifaríkasta málið sem nú er á dagskrá og varðar umhverfi Jarðar er verndun lofhjúpsins fyrir frekari breytingum af mannavöldum. Það veldur eðlilega gífurlegum vonbrigðum að ekki skyldi nást ásættanleg niðurstaða um útfærslu Kýótó-bókunarinnar á ársþingi aðila loftslagssamningsins í Haag í nóvember 2000. Kýótó-samkomulagið 1997 fól aðeins í sér ákvörðun um 5% samdrátt í losun sem fyrsta áfanga á langri leið. Þegar haft er í huga það mat sérfróðra að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda um meira en 60% á nýbyrjaðri öld má vera ljóst hvílík örlagaglíma bíður mannkyns.

Þetta viðfangsefni er einstakt að því leyti að það varðar undirstöður efnahagsstarfsemi á heimsvísu og spurninguna um efnahagslegt svigrúm og um leið réttlæti í samskiptum þjóða. Erfitt er að rökstyðja hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir jöfnu aðgengi íbúa jarðar að sameiginlegum lofthjúpi sem þýddi um leið jafnan rétt til losunar miðað við höfðatölu. Hliðstæðan við almenn mannréttindi blasir hér við og er erfitt fyrir Vesturlönd að skella við henni skollaeyrum. Það er hins vegar hörmulegt og ber ljósan vott um um siðblindu að auðugasta ríki heims, Bandaríkin, sem losar nær fjórðung alls gróðurhúslofts af mannavöldum, skuli helst ekkert vilja af þessu vandamáli vita. Íslensk stjórnvöld eru raunar engu betur á sig komin, eins og haldið hefur verið á málum undanfarið, en losun á mann hérlendis er hin sama og meðaltalið í löndum Evrópusambandsins.

Ógnvekjandi misskipting

Efnahagskerfi heimsins er siðferðilega gjaldþrota og magnar upp umhverfisvandann. Hnattvæðingin með hindrunarlausu streymi fjármagns heimshorna milli hefur í senn leitt til öryggisleysis og sívaxandi misskiptingar. Hún tekur á sig margar myndir, efnahagslegar og félagslegar. Bágt hlutskipti kvenna víða um heim og ólæsi eru þar á meðal, svo og hrörnun byggða og streymi fólks í eymdarhverfi borga þriðja heimsins. Hrun eins og gerðist í Suðaustur-Asíu fyrir fáum árum getur fyrr en varir endurtekið sig og spákaupmennskan á gjaldeyrismörkuðum blómstrar sem aldrei fyrr.

Á árunum 1960-1997 breikkaði tekjubilið milli ríkasta og fátækasta fimmtungs mannkyns um meira en helming. Vextir og lágt hráefnaverð eru arðránstækin sem tóku við af nakinni nýlendukúgun síðustu alda. Fimmtungur íbúa jarðar rakar til sín 80% af vegri framleiðslu á heimsvísu. Auður 225 ríkustu manna heims hefur nær þrefaldast á síðustu 6 árum og eignir þeirra svara til árstekna um helmings jarðarbúa! Einnig í velstæðum ríkjum dregur óðum sundur með ríkum og fátækum. Staðhæfingarnar um að efnahagsvöxtur leysi vanda hinna fátæku hefur reynst vera tálsýn. Yfir þessu kerfi vakir Alþjóða viðskiptastofnunin, Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn. Áhrif fjölþjóðafyrirtækja á stefnu þeirra hefur farið sívaxandi en áhrif ríkisstjórna minnkað að sama skapi. Umhverfisorðstír þessara stofnana, þar sem Bandaríkin ráða mestu um leikreglurnar, er hörmulegur en viðleitni hefur þó gætt til úrbóta undanfarið. Fundahöld þessara stofnana og leiðtoga iðnveldanna sjö hafa að undanförnu orðið tilefni mikilla mótmæla eins og í Seattle í desember 1999. Þau hafa komið valdamönnum í opna skjöldu en tilefni þeirra er ærið og margþætt. Lokaðir starfshættir og ólýðræðisleg vinnubrögð eru hluti af gagnrýninni en ekki síður innantóm loforð um að létta af skuldabyrði fátækra ríkja.

Nýtt líf í Ríóferlið

Margir spyrja eðlilega hvort þess sé að vænta að alþjóðkerfið nái einhverjum tökum á þeim mikla vanda sem við heimsbyggðinni blasir. Í þeim efnum er sem fyrr horft til Sameinuðu þjóðanna sem helsta mótvægis við ofurvald fáeinna stórvelda. Viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að varpa ljósi á umhverfisvanda og félagslegar meinsemdir samtímans hefur ótvírætt verið jákvæð, þótt hægt gangi að ná fram úrbótum.

Niðurstöður Ríó-ráðstefnunnar 1992 um umhverfi og þróun vöktu miklar vonir og þeir alþjóðasamningar sem þar voru innsiglaðir. Yfirlýsing ráðstefnunnar og leiðsögn um ný viðmið í umhverfisrétti, m.a. um mengunarbóta- og varúðarreglu, er enn í fullu gildi og hefur haft sín áhrif. Dagskrá 21 sem verkefnaáætlun fyrir þá öld sem nú er hafin og áherslan á grenndarlýðræði með Staðardagskrá 21 eru engan veginn úreltir leiðarvísar. Mikið skortir hins vegar á að þeir sem mestu ráða um efnahagsstefnu og fjármál einstakra ríkja og alþjóðlega hafi tekið hollráðin frá Ríó og leiðsögnina um sjálfbæra þróun alvarlega. Þó er hér á ferðinni spurningin um framtíð mannkyns og lausn undan vopnuðum átökum og gjöreyðingu. Öryggi byggt á sjálfbærum lífsháttum virðist fjarlægur draumur en framtíð lífs á jörðinni er þó undir því komin að hann megi rætast.

Brýnt er að blása nýju lífi í Ríóferlið og nýta tilefnið sem gefst á árinu 2002 til að safna liði undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Þá verða liðin 10 ár frá ráðstefnunni í Ríó og 30 ár frá því fyrsta ráðstefnan um umhverfis mannsins var haldin í Stokkhólmi 1972. Góður undirbúningur slíkra funda skiptir öllu til að árangur náist. Greina þarf brotalamirnar, jafnt í alþjóðkerfinu sem innan hvers lands. Fá þarf sem flesta til þáttöku, einstaklinga og almannasamtök og ekki síst unga fólkið. Þannig má í senn fræða og treysta lýðræðislegan grunn til að byggja á ákvarðanir í upphafi óráðinnar aldar.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim