Hjörleifur Guttormsson 11.apríl 2001

Trektin mikla við Kárahnjúka
Mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar
Álver Reyðaráls samfélagsleg sprengja

Nú um sumarmálin senda íslensk stjórnvöld frá sér óvenjulegar kveðjur sem varða alla Íslendinga, alda og óborna. Um er að ræða áætlanir Landsvirkjunar og Reyðaráls um mestu náttúruspjöll sem nokkru sinni hafa verið kynnt á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Þetta eru hugmyndirnar um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi undir nafninu risaálver á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun sem gert er ráð fyrir að sjái álverinu fyrir raforku. Um svipað leyti stóð til að kynna stóriðjuáætlanir í Hvalfirði með mikilli stækkun Norðuráls en einhver bið verður á því þar eð Landsvirkjun gat að svo stöddu aðeins farið með hálfkveðnar vísur um orkuöflun. Þó fer fyrirtækið ekki leynt með að virkjanir sem tengjast Þjórsárverum séu þar efstar á blaði.

Stórfelld aukning gróðurhúsalofts

Álverksmiðjan sem ráðgerð er á Reyðarfirði er nú miðuð við um 400 þúsund tonna ársframleiðslu í tveimur áföngum, þar sem sá fyrri væri 260 þúsund tonn. Raforkan sem hún kallar á er meira en samanlagt fengist frá Kárahnjúkavirkjun með Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá sem bakhjarla og hrökkva þessi vatnsföll ekki til! Til þessarar einu verksmiðju þyrfti um 5 teravattstundir af raforku en heildarframleiðsla á öllu Íslandi nemur nú um 7 teravattstundum á ári. Fyrir utan staðbundna mengun í Reyðarfirði myndi þessi eina verksmiðja auka losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi um meira en fjórðung.

Verksmiðju sem þessari myndi fylgja samfélagsleg röskun í byggðum Austurlands sem enginn sér fyrir endann á. Þar við bætast umsvifin á byggingartíma orkumannvirkja og verksmiðju. Eftir stæði gjörbreytt Austurland bundið á klafa eins stórfyrirtækis sem ráða myndi lögum og lofum um alla framvindu á svæðinu. Samfélagsleg áhrif þessa eru andhverfa þess sem hægt er að fella undir hugtakið sjálfbær þróun.

Náttúrufarsröskunin óbætanleg

Erfitt getur verið fyrir þá sem lítt þekkja til Austurlands og svæða norðan Vatnajökuls að gera sér í hugarlund alla þá röskun sem fylgja myndi orkumannvirkjunum. Kárahnjúkavirkjun er blekkjandi heiti, því að á bak við hana standa yfir 20 vatnsföll sem leidd yrðu inn í jarðgöng að virkjuninni. Þannig virkar Kárahnjúkavirkjun eins og 50 kílómetra víð trekt sem taka á við öllu vatni frá Hraunum í austri vestur að vatnasviði Jökulsár á Fjöllum. Stærstu augljósu áhrifin eru af flutningi Jökulsár á Dal (Jöklu) austur í Lagarfljót. Slíkir vatnaflutningar eru óþekktir á Íslandi og þarf líklega allt austur í Síberíu til að finna samjöfnuð. Lagarfljót og Fljótsdalshérað yrðu aldrei söm eftir slíkt hervirki. Hafrahvammagljúfur, stærsta gljúfur á Íslandi, yrði rofið með 190 metra háum vegg og tvær stórar stíflur að auki lokuðu hliðardölum til að halda að Hálslóni. Vatnsborðssveiflan í þessu 60 ferkílómetra lóni myndi verða yfir 70 metrar. Farvegir fjölda áa yrðu að mestu vatnslausir. Þá eru ótalin áhrif tveggja 400 kílóvolta rafmagnslína til Reyðarfjarðar. Fljótsdalur, Skriðdalur, Þórudalur og Reyðarfjarðarbotn yrðu lagðir undir þessi hervirki sem tækju allan ljóma af fagurri náttúru þessara dala.

Viðbrögð almennings skipta máli

Ráðstöfun meiri raforku en orðið er í þungaiðnað hérlendis er glapræði, óháð því hvar á landinu hann er áformaður. Fórnarkostnaðurinn sem af þessu hlytist fyrir Austurland er slíkur að aldrei yrði fyrir bætt. Samjöfnuðurinn við að nýta umrædd hálendissvæði sem ósnortin víðerni og hluta af Vatnajökulsþjóðgarði er eins og svart og hvítt, einnig í efnahagslegu tilliti til framtíðar litið. Hervirkin sem stjórvöld nú ráðgera eru enn aðeins á teikniborði. Það er undir viðbrögðum almennings á næstunni komið hvort þau verða annað og meira en pappírsgagn.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim