Hjörleifur Guttormsson 12. nóvember 2001

Nýleg grein eftir Rudolf Augstein.

Í nýjasta hefti Der Spiegel (nr. 45 frá 5. nóvember 2001) skrifar útgefandinn Rudolf Augstein grein um stríð Bandaríkjanna á hendur Afganistan. Hér fer á eftir í lauslegri þýðingu á þetta athyglisverða innlegg sem sker sig úr hálfvelgju og yfirdrepsskap sem víða gætir í umræðunni eftir 11. september. Greinina byrjar Augstein með tilvitnun í ljóð eftir Johann Wolfgang von Goethe.


Að hlaða undir hryðjuverkamenn

Rudolf Augstein um Georg W. Bush, Osama Bin Laden og hættulegan sinueld

Ameríka, þú hefur það betra
en okkar gamla meginland,
átt engar hallarrústir
og ekkert blágrýti.
Í dagsins önn
trufla þig ekki í hugarfylgsnum
gagnslausar minningar
og tilgangslausar deilur.
        Johann Wolfgang von Goethe

" Mannkynið hefur aldrei fylgt einni ákveðinni forskrift. Nú verða einnig Bandaríkin, sem sett hafa "hefnd" á forgangslista, að horfast í augu við þá staðreynd. Frá hlutlægu sjónarhorni er árásin á Twin Towers og Pentagon mesta óhæfa sem einstakir gjörningsmenn geta valdið öðrum, dráp á yfir 4800 manns. En ríki geta komið meiru í verk. Truman forseti lét varpa kjarnorkusprengjum á Hirósíma og Nagasaki, 340 000 manns drepnir. Forseti Bandaríkjanna gerði sig í ágúst 1945 eflaust sekan um stríðsglæp.

Valdsmannshugarfarið, sem er nú sem fyrr aðaltrompið í Bandaríkjunum, færði þeim sigur í tveimur heimsstyrjöldum. Sú fyrri hófst vegna gáfnaskorts og stórmennskubrjálæðis Vilhjálms 2. keisara, á þeirri síðari ber Adolf Hitler einn ábyrgð með blöndu af þýskum hroka og eigin tortímingaráráttu. "A la guerre comme à la guerre" - "stríðið er nú einu sinni eins og það er" var huggun Frakka sem fyrstir urðu fyrir barðinu á því.

Í bæði skiptin krafðist almenningsálit heimsins (og eðlilega einnig eiginhagsmunir Washingtons) þess að Bandaríkin skærust í leikinn. Í bæði skipti var ljóst að þau gætu ekki látið England afskiptalaust. Báðar styrjaldirnar snerust um hráefni, þar sem Þýskaland hlaut að lúta í lægra haldi.

Nú beinast sjónir gegn hryðjuverkamönnum. Gjörningsmenn sem menn þekkja er unnt að finna og gera óskaðlega. Að berjast við ógnunina [den Terror] sem slíka er hins vegar vandræðamál og óframkvæmanlegt. Hvernig ætla menn að útrýma á heimsvísu hryðjuverkastarfsemi sem birtist í svo margvíslegu gervi og á sér svo margar mismunandi rætur?

Aðeins eitt er víst: Sá sem hegðar sér eins og Bandaríkjamenn gera núna í Afganistan, vinnur ekki gegn ógnuninni - heldur örvar útbreiðslu hennar. Sá sem leggur sárafátækt land í rúst og ösku án mikils tillits til óbreyttra íbúa sem þjást af hungri og bíða hlífðarlausir eftir hörðum vetri, þarf ekki að undrast þótt almenningsálitið fari að snúast gegn honum. Nú þegar finnst fyrir Þórðargleði í hvert skipti sem Bandaríkjamenn misstíga sig, yfir einstökum pólitískum afglöpum þeirra.

Og af þeim er nóg að hafa. Enn á ný hafa CIA og Pentagon, eins og viðurkennt er nú í Wahington, vanmetið gróflega andstæðinginn. Farið er að tala um langt stríð og nauðsyn þess að koma upp fastri herstöð innan Afganistan. Georg W. Bush forseti sætir þrýstingi um að tefla fram herliði á jörðu niðri. Utanríkisráðherra hans, Colin Powell, hershöfðinginn úr Flóabardaga, gæti sagt honum hvað slíkt hefði í för með sér. Einnig Sovétmenn börðust með fótgöngulið í Afganistan eftir innrásina 1979. Það var kerfisbundið murkað niður af skæruliðum í "smáhernaði". Einnig Alexander mikli (og hann vissi enn ekkert um olíu) komst að því að reyndar væri unnt að ferðast gegnum þetta svæði, en ómögulegt að leggja það undir sig.

Eftir upplausn Sovétríkjanna 1991 hafa bandarískir stjórnmálamenn magnað með sér þá firru að þeir þurfi ekki lengur að taka tillit til eins eða neins. Engin ríkisstjórn hefur sýnt af sér slíkt yfirlæti sem stjórn Georg W. Bush. Þar sem í Bandaríkjunum lifi augljóslega verðmætara fólk en annars staðar, þurfi þeir jafnframt sérstaka varnarhlíf gegn kjarnorkuflaugum. Stórkapítalistastjórn Texasbúans gaf til kynna að önnur ríki geti glímt við losun koldíoxíðs á heimsvísu, en fyrir Bandaríkin er loftslagsbreytingin enn ekki nógu alvarlegs eðlis. Og í hverju skrefi sem Bush stígur ættu menn að taka eftir olíuhagsmunum hans manna.

Nei, Bandaríkin hafa það ekki lengur betra, eins og leyndarráðið Johann Wolfgang von Goethe taldi vera. Bandaríki Goethes og Rooseveltanna beggja eru ekki lengur til. Landi Goethes sjálfs er skeinuhætt og hræðslan við það ristir dýpra en sárið eftir hryðjuverkið skelfilega. Kannski hefði verið betra að doka við lengur en augnablik eftir árásina 11. september og leiða hugann að ástæðum fyrir að vera orðinn svo berskjaldaður. Að ná áttum í stað þess að berja frá sér og jafna varnarlaust land við jörðu.

Í byrjun létu menn svo í Washington að nóg væri að afhöfða ógnina og þá myndi allur ófögnuðurinn fjara úr. Höfuðið hét Osama bin Laden, góðkunningi CIA. Sjálf bandaríska leyniþjónustan hafði í baráttu sinni gegn Sovétríkjunum fært sér þjónustu hans í nyt. Bestu þjónustu, því að hersveitir Moskvu, sem lutu smánarlega í lægra haldi fyrir Mudschaheddin-sveitunum, urðu að draga sig til baka árið 1989.

Georg W. getur í öllu falli ekki umgengist Bin Laden á sama hátt og faðir hans gerði gagnvart íraska einræðisherranum Saddam Hussein. Ómögulegt að setja svo mikið sem hömlur á ferðir hans, halda honum í skefjum, - til þess hafa Bandaríkjamenn nú hlaðið um of á bengalska vísu undir þennan djöful. Enn vantar lokasannanir fyrir því að Bin Laden hafi verið stjórnandi árásanna 11. september (og að hann setji nú allt á annan endann í Bandaríkjunum með hvítum duft-sendingum, því trúir ekki einu sinni FBI). En þeir vilja ná honum - lifandi eða þá dauðum. Næðu þeir honum gæti bandaríska leyniþjónustan til dæmis skotið hann á gangvegi á Kennedy-flugvelli í New York - CIA fékk einmitt samkvæmt skipun forsetans fyrir fáeinum vikum á ný leyfi til manndrápa.

Reyndar efast Bandaríkjamenn sjálfir um að þeir nái til hans. Allt bendir til að Osama Bin Laden haldi sig í hópi með skuggalegum Talibönu, vel varinn af þessum ókræsilegu stríðsmönnum Guðs sem við vitum svo lítið um. Um þá er þó eitt víst: Píslarvottur kæmi þeim nú til góða.

Arabaheimurinn kæmist í uppnám ef Bandaríkjamenn héldu áfram að kasta sprengjum - eftir 17. nóvember - í heilögum föstumánuði Rahmadan. Leggist Schröder kanslari og með honum Scharping áfram lágt í Washington, þurfa þeir ekki að verða hissa þótt reiði heimsins bitni einnig á þeim. Og komi til þess að þýskir hermenn yrðu einhverntíma kvaddir til Kashmír til að berjast til að "róa niður" 50-ára þarlent stríð, til hvaða skýringa eigum við þá að grípa? Kjarnorkuveldið Pakistan vill koma til valda sér hliðhollri stjórn í Kabul.

Hvorki Schröder eða Scharping virðast átta sig á því lævi sem blandað er milli Washington og Berlínar. Stjórnvísi kanslarans takmarkast þessa stundina við að fullvissa Kínverja um að við föllumst á annarskonar "lýðræðisskilning" en þeir, gegn því að viðskiptapantanirnar skili sér.

Heima fyrir safnar utanríkisráðherra hans vinsældastigum með friðarviðleitni fyrir botni Miðjarðarhafs, sem hvorki á hljómgrunn hjá Sharon forsætisráðherra Ísraels né Palestínumönnum sem hafa verið niðurlægðir frá 1967. Þar á bæ telst Jassir Arafat varla lengur í hópi stjórnmálaforingja. Ekki er að vísu hægt að uppfylla kröfu Bin Ladens um að Bandaríkin hverfi með herlið sitt frá löndum múslima, en hún hljómar enn lokkandi í eyrum Araba. Ekki hjálpar lengur að nú skyndilega tali Bush forseti - af tillitssemi við arabíska bandamenn - um rétt Palestínumanna til eigin ríkis.

Maður hlýtur að finna samúðarvott með Hamas-sjálfsmorðingja eða Alkaida-vígamanni þegar við blasir að öll mannkynssagan væri óhugsandi án ógnar og hægt er að skrifa hana sem afleiðingu slíkra illvirkja.

Úr hryðjuverkamönnum verða valdsmenn, oft virðingarverðir eins og Jomo Kenyatta í Kenya; stundum raunar lýðræðislega kjörnir eins og Menachem Begin í Ísrael, sem í júlí 1946 sprengdi í loft upp Hótel King David í Jerúsalem (91 týndi lífi). Aðrir "hryðjuverkamenn" eru áfram huldir sögulegu myrkri, mat okkar á þeim rökkri hulið: Reglubróðirinn Francois Ravaillac, sem sat fyrir Hinriki konungi IV. árið 1610 og myrti hann með rýtingi; samsærismennirnir gegn Pétri III. Rússakeisara árið 1762.

Hver hefur lokkað Bandaríkin í afgönsku gildruna? Oflæti þeirra? Hefndarþorsti þeirra? Sæll er sá sem ekki burðast með slíkt í farteski."


Þessari grein Rudolfs Augsteins var snúið lauslega á íslensku, 9. nóvember 2001

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim