Hjörleifur Guttormsson | 13. ágúst 2001 |
Gullfoss og vogarskálar Landsvirkjunar Þegar Landsvirkjun lagði fram matsskýrslu á liðnu vori og óskaði eftir að fallist yrði á áformin um Kárahnjúkavirkjun vísaði fyrirtækið til þess að umhverfisáhrif virkjunarinnar væru innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun muni skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Skýrsla þessi hefur nú fengið margfalda falleinkunn hjá Skipulagsstofnun og fyrir því eru færðar fjölmargar gildar ástæður. Undirritaður er sammála niðurstöðu Skipulagsstofnunar og meginatriðum í þeim rökstuðningi sem fylgdi, þó með einni veigamikilli undantekningu. Ég tel að spurningin um þjóðhagslegan ávinning og tap eða hagnað af ráðgerðri framkvæmd varði ekki mat á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Í tilviki Kárahnjúkavirkjunar skipti því hagur Landsvirkjunar af raforkusölu frá virkjuninni ekki máli þegar meta skal umhverfisáhrif af framkvæmdinni og vöntun á upplýsingum um áætlað raforkuverð breyti engu í þessu samhengi. Umfjöllun um hagræna þætti framkvæmda er mér vitanlega ekki hluti af baksviði umræddrar lagasetningar, sem á rót að rekja til alþjóðlegrar réttarþróunar og samþykkta um umhverfisvernd allt frá Stokkhólsmráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1972 að telja. Vogarskálarnar sem Landsvirkjun stillti upp í matsskýrslu sinni með náttúruspjöllin annars vegar og meintan efnahagslegan ávinning hins vegar er þannig út í hött sem liður í umræddu mati og málatilbúnaður Landsvirkjunar að sama skapi veikari en ella. Viðfangsefni mats á umhverfisáhrifum er að átta sig á hvort um veruleg neikvæð umhverfisáhrif sé að ræða að teknu tilliti til mótvægisaðgerða til að draga úr náttúruspjöllum. Fjárhagslegar afleiðingar fyrir framkvæmdaaðilann eða þjóðarbúið eru annað mál, út af fyrir sig fullgilt til umfjöllunar í öðru samhengi. Hagfræðileg greining á ráðgerðri framkvæmd, hver svo sem hún er, getur ekki verið viðfangsefni í mati á umhverfisáhrifum að óbreyttum lögum. Vegna mats á umhverfisáhrifum skiptir engu á hvaða verði Landsvirkjun hyggst selja orku frá viðkomandi virkjun eða hvort líklegt sé að fyrirtækið hagnist eða tapi á rekstri hennar. Fyrir eigendur og viðskiptavini Landsvirkjunar er það hins vegar mikilvægt atriði. Ef vogarskálar Landsvirkjunar í Kárahnjúkaskýrslu væru gild aðferðafræði, þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. Eftir slíkum mælikvarða væri sjálfgefið að virkja Gullfoss og Dettifoss fyrr en seinna, moka upp botni Mývatns eins og hann leggur sig og flytja út að bragði sem mest af eldborgum landsins til fyllingar í húsgrunna og vegfyllingar á meginlandinu. Mat á umhverfisáhrifum er einmitt tæki til varnar slíkum náttúruspjöllum. Hagfræðivangaveltur eiga heima í öðru samhengi. Hjörleifur Guttormsson |