Hjörleifur Guttormsson | 16. nóvember 2001 |
Ísland í skammarkrók Niðurstaða loftslagsráðstefnunnar í Marrakesh 10. nóvember sl. er fagnaðarefni á alþjóðavísu. Þar náðist sá árangur að nægjanlega mörg ríki tóku höndum saman um að stöðva aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda á lagalega skuldbindandi hátt. Viðmiðunin er mengun hvers ríkis á árinu 1990 en síðan hafa margir syndgað upp á náðina, þar á meðal Íslendingar. Þetta er aðeins fyrsta skref af mörgum sem stíga þarf á næstu áratugum. Vísindasamfélagið er sammála um að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir miðja öldina um að minnsta kosti 60% eigi jafnvægi að nást að því er snertir mengun lofthjúpsins af mannavöldum fyrir aldarlok. Gífurlegir almannahagsmunir eru í húfi, sem endurspeglast m. a. í hættu á stórfelldri röskun á lífríki vegna stígandi meðalhita og af hækkun sjávarborðs vegna bráðnunar jökla og hafíss. Áhrifin á einstök svæði jarðar geta hins vegar orðið afar mismunandi, til dæmis er talið að Golfstraumurinn kunni að veikjast og afleiðingin gæti orðið kólnun við norðaustanvert Atlantshaf. Í hlutverki betlarans Hlutur einstakra ríkja og ríkjahópa í niðurstöðunni í Marrakesh er afar ólíkur. Evrópusambandið á heiðurinn af því að málið komst í höfn án Bandaríkjanna sem standa eftir sem svarti sauðurinn og taka skammsýna eiginhagsmuni fram yfir velferð mannkyns og eigin þegna. Næstverstur er hlutur Íslendinga, sem neituðu frá byrjun að eiga aðild að Kyótóbókuninni þótt þeim byðist þar að auka mengun um 10% á meðan flest önnur iðnríki féllust á samdrátt. Ísland var þannig eitt í hópi velstæðra ríkja sem ekki setti einusinni fangamark sitt undir bókunina og lýsti sig andvíga henni nema því aðeins að landið fengi stórauknar mengunarheimildir með "íslenska ákvæðinu". Um samþykkt þessa sóðaákvæðis snerist öll viðleitni íslenskra stjórnvalda á vettvangi loftslagssamningsins frá og með ráðstefnunni í Kyótó 1997. Helsti bandamaður íslenskra stjórnvalda í Regnhlífarhópnum svonefnda voru Bandaríkin og rökstuðningur fyrir aumingjadómnum var smæð Íslendinga, það munaði svo lítið um þótt við lékum lausum hala! Falsrök frá upphafi Hér heima fyrir er látið líta svo út sem málið hafi snúist um heimild til að nýta endurnýjanlegar orkulindir eins og einhver hafi ætlað að banna okkur það. Íslendingar eru ekki einir um að búa að vatnsafli og jarðvarma og sáralítið munar um það sem hér er að hafa í alþjóðlegu samhengi. Fyrir fámenna þjóð í stóru landi skipta þær hins vegar miklu máli og þá ekki síður hvernig staðið er að hagnýtingu þeirra í víðtæku samhengi, þannig að saman fari náttúruvernd og hófleg nýting. Fyrir heimabrúk var samin sú plata að með því að heimila áliðnaði í stórum stíl ókeypis aðgang að losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis væru Íslendingar að vinna sérstakt góðverk í loftslagsmálum. Svo vill til að loftslagssamningurinn byggir ekki á uppgjöri eftir framleiðslugreinum heldur er hverju ríki í sjálfsvald sett innan ákvæða samningsins hvernig það uppfyllir sínar skuldbindingar sem fyrir flest velstæð ríki felast í skuldbindandi samdrætti. Eftir höfði dansa limirnir Í aðdraganda Kyótóráðstefnunnar lagði forsætisráðherra sig fram um að véfengja vísbendingar loftslagssérfræðinga um áhrif gróðurhúsalofttegunda og var einn um það úr hópi þjóðhöfðingja. Ekki gaf utanríkisráðherrann honum eftir og fékk umhverfisráðherra leiðsögn þessara höfðingja í heimanmund. Eins og á flestum öðrum sviðum hefur hún gerst kaþólskari en páfinn og stungið embættisheiðri sínum undir ráðherrastólinn. Það er sannarlega holur hljómur í máli Sivjar Friðleifsdóttur sem að loknum fundinum í Marrakesh talar af vandlætingu um að samningurinn hafi veikst á lokastigi vegna krafna Rússa, Japans og fleiri ríkja. Hafi einhver setið á svikráðum gagnvart samningsmarkmiðunum frá Kyótó var það íslenska ríkisstjórnin sem kaupa þurfti að samningsborðinu með því að gefa Íslandi kost á að auka mengun frá stóriðju um 1,6 miljónir tonna þegar flestir aðrir taka á sig niðurskurð. Hjörleifur Guttormsson |