Hjörleifur Guttormsson | 18. september 2001 |
Réttlæti en ekki hefnd Ógnaratburðirnir í Bandaríkjunum 11. september hafa í einu vetfangi breytt gangi heimsmála. Ekkert réttlætir verknað af því tagi sem þar var unninn eða hliðstæðar aðgerðir. Krafan um samstillta baráttu gegn hryðjuverkum er í senn eðlileg og sjálfsögð. Það er hins vegar vandasamt að velja leiðir sem líklegar séu til árangurs og mörg fótarkefli að varast. Vikan sem liðin er frá atburðunum þegar þetta er skrifað er full af dæmum um ofvirkni og mótsagnir í viðbrögðum sem hljóta að valda áhyggjum. Skilgreining á stríði og vopnaðri árás Allir geta skilið fyrstu viðbrögð Bandaríkjamanna við voðaverkunum sem unnin voru í höfuðborg þeirra og í New York. Samúðarbylgja sem náði langt út fyrir hefðbundinn stuðning við stefnu bandarískra stjórnvalda hlaut að rísa í kjölfarið. Hins vegar er bæði auðvelt að misnota slík tilfinningaleg viðbrögð umheimsins og snúa þeim í andstæðu sína ef gripið er til fljótræðisverka sem borin eru uppi af hefndarhug. Bandarísk stjórnvöld hafa valið viðbrögðum sínum yfirskriftina STRÍÐ. Með því fá þau meintum óvini hættulegt áróðursvopn í hendur. Rétt sólarhringur var liðinn frá hryðjuverkunum þegar bandamennirnir í Nató voru búnir að skrifa upp á þessa skilgreiningu með því að leysa í fyrsta sinn úr læðingi ákvæði 5. greinar Nató-samningsins. Varla voru Nató-ráðherrarnir hinsvegar komnir af fundi þegar þeir áttuðu sig á að böggull gæti fylgt skammrifi. Síðan hafa komið fram misvísandi túlkanir stjórnvalda Nató-ríkja á því hvað felist í þessari ákvörðun bandalagsins. Með stríðsyfirlýsingu sem enginn veit í raun að hverjum beinist geta menn verið að torvelda samstillt viðbrögð alþjóðasamfélagsins til lengri tíma litið. Jarðvegur hryðjuverka Bandaríkjamenn spyrja sig margir í forundran, hverjir geti viljað þeim svo illt. Þótt ekkert geti réttlætt slík voðaverk gegn saklausu fólki þarf ekki langt að leita að þeim jarðvegi sem hermdarverkin eru sprottin úr. Flest vísar á löndin fyrir botni Miðjarðarhafs sem lengi hafa orðið fyrir barðinu á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Afstaða þeirra með Ísraelsríki í deilum við Palestínumenn er sá þáttur sem mestu veldur og kallað hefur fram djúpstætt hatur meðal Arabaþjóða í garð Bandaríkjanna. Sú stefna Bush forseta að Bandaríkin haldi að sér höndum í friðarumleitunum milli stríðandi fylkinga hefur virkað sem olía á eld. Talsmenn ríkisstjórna Arabaríkja sem vinveittar eru Bandaríkjunum hafa á undanförnum vikum aftur og aftur varað stjórnina í Washington við að draga taum herskárra afla í Ísrael gegn Palestínumönnum. Hefndarárásir magna vandann Á meðan viðbrögð gegn hryðjuverkunum beinast að því að finna upphafsmennina og færa grunaða í hendur réttvísinnar geta Bandaríkin átt von á traustum stuðningi. En vopnaðar árásir af hefndarhug munu gera illt verra og fyrr en varir sundra þeirri samstöðu sem skapast hefur. Það er engin tilviljun að æðstu menn kirkjunnar með páfann í fararbroddi hafa varað sterklega við að reynt verði að gjalda líku líkt. Forseti Íslands hafði lög að mæla þegar hann í fyrstu viðbrögðum við ógnaratburðunum varaði við að Bandaríkjamenn létu reiði og hatur ráða ferðinni í stað yfirvegunar og gjörhygli. Orð hans stungu í stúf við ótrúlega grunnfærin og stráksleg ummæli oddvita íslensku ríkisstjórnarinnar. Mikið er í húfi fyrir heimsbyggð alla, lýðræði og frelsi einstaklinga, að klæði verði borin á vopn og sem flestir sameinist um að umbylta þeim jarðvegi sem voðaverkin eru sprottin úr. Leiðarljósið þarf að vera réttlæti en ekki hefnd. Hjörleifur Guttormsson |