Hjörleifur Guttormsson | 18. desember 2001 |
Andsvör við áróðri fyrir ESB-aðild Lengi hefur verið í gangi áróður samtaka og hópa fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þegar á sjöunda áratug síðustu aldar var forysta Alþýðuflokksins farin að mæla með aðild en komst ekki lönd né strönd, enda Íslendingar þá í úlfakreppu með landhelgina og þurftu að heyja stríð við Breta til að ná rétti sínum. Þráðurinn var tekinn upp á ný 1988 í aðdraganda EES-samningsins. Sá gjörningur var af norrænum krataforingjum hugsaður sem aðferð til að brjóta niður andstöðu heima fyrir við fulla ESB-aðild. Herbragðið gekk eftir í Finnlandi og Svíþjóð en mistókst í Noregi, þar sem aðildarsamningur var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í nóvember 1994. Hérlendis mætti EES-samningurinn harðri andstöðu, meðal annars vegna fullveldisafsals sem í honum fólst. Margir áttuðu sig jafnframt á að nota ætti EES sem vogarstöng til að koma í kring fullri aðild að Evrópusambandinu. Nú hefur það sannast rækilega. Halldór og Össur í einni lest Framsóknarflokkurinn reyndist þverklofinn í afstöðu til EES-samningsins, þar sem Steingrímur formaður og Halldór varaformaður voru á öndverðum meiði. Annað og meira lá að baki eins og fljótlega kom á daginn. Halldór Ásgrímsson vildi þá þegar stefna á fulla aðild að Evrópusambandinu og utanríkisráðherratíð sína hefur hann notað til að þoka því máli fram í eigin flokki. Í ásetningi sínum er hann dyggilega studdur af þeim hluta stjórnarráðsins sem búið er að koma fyrir í Brussel. Diplómatar hafa löngum kunnað illa við að teljast utangarðsmenn. Heimatrúboðið hefur síðan staðið kerfisbundið fyrir boðsferðum til Brussel fyrir alla mögulega hópa: Atvinnurekendur, verkalýðsrekendur og sveitarstjórnaforkólfa. Það er auðvelt að tapa áttum í rangölum Evrópusambandsins. Það sögulega hefur nú gerst að formaður Framsóknarflokksins hefur hirt glæpinn af krötunum og gerst þeim fremri í sókninni fyrir ESB-aðild. Össur Samfylkingarformaður unir þessu eðlilega illa, telur sig hafa séð ljósið á undan og ætlar nú að kveða andstöðuna í eigin flokki í kútinn í póstkosningu. Það verður gaman að fylgast með afdrifum þessa aðalmáls Samfylkingarinnar í aðdraganda alþingiskosninga. Rökleysurnar á færibandi Aðferðafræði utanríkisráðherra er ekki ýkja frumleg. Enn og aftur á að nota EES-samninginn sem vogarstöng. Kvartað er undan því að ákvæði hans fylgi ekki þróuninni í ESB, íslenskum sendimönnum í Brussel sé meinaður aðgangur að ESB-nefndum og við séum utangarðs. Ljóst er að Norðmenn taka ekki þátt í þessum æfingum Halldórs, enda eru þær fyrst og fremst til innanhússbrúks í Framsóknarflokknum. Utanríkisráðherra hefur ekki frekar en Össuri tekist að sannfæra sitt fólk um ágæti ESB-aðildar. - Rökleysurnar fyrir nauðsyn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið eru hins vegar víða reiddar fram um þessar mundir. Fullyrt er að 80% af íslenskri löggjöf fari eftir forskrift frá Brussel og fer sú tala síhækkandi eftir áróðursþörfum. Í þessu felist skelfilegt fullveldisafsal sem ákaft var þrætt fyrir þegar samningurinn var á döfinni fyrir áratug síðan. Í sama orðinu er staðhæft að í flestu hafi EES-samningurinn skilað hér rosalegum ávinningi, ekki síst á löggjafarsviði. ESB-trúboðinu virðist ekki detta í hug að Íslendingar geti staðið óstuddir að lagabótum með hliðsjón af alþjóðlegri réttarþróun. Sjálfstæði er nú reynt að gera að skammaryrði, að ekki sé talað um þjóðerni. Aðeins stórveldin mega flíka slíku. Ó hve bágt er að vera Íslendingur og finna sig utangarðs í salkynnum Evrópu. Tvö efnisleg andsvör Síðustu daga hafa birst í Morgunblaðinu tvær greinar þar sem brugðist er efnislega við áróðrinum fyrir ESB-aðild. Ég á þar við grein Páls Vilhjálmssonar "11. sept., ESB og Ísland" laugardaginn 15. desember og "Evrópusambandið" eftir Atla Harðarson í rabbþætti Lesbókar sama dag. Báðir þessir höfundar leggja fram þungvæg sjónarmið gegn því að Ísland eigi að sækja um aðild að ESB. Páll vekur m. a. athygli á því hversu vel Íslendingum hefur vegnað sem smáþjóð frá lýðveldisstofnun og að rökin fyrir inngöngu Íslands í ESB séu enn langsóttari en áður í ljósi fyrirhugaðrar stækkunar þess í austurátt. Atli telur rökin fyrir aðild léttvæg. "Það eru rökin gegn aðild hins vegar ekki. Hún mundi kosta okkur fleiri miljarða á ári, það yrði erfitt að verjast ásókn í veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar og við gætum ekki lengur samið sjálf um viðskiptakjör við Japan, Bandaríkin og fleiri þjóðir." Andstæðingar aðildar hafa gild rök fram að færa. Þeir mættu hins vegar láta meiri til sín heyra til að vega upp á móti síbyljuáróðri þeirra sem virðast halda að innganga Íslands í Evrópustórríki sé flestra meina bót. Hjörleifur Guttormsson |