Hjörleifur Guttormsson 20. júní 2001

Alþingi þarf að verða sjálfbjarga

Fátt er brýnna fyrir Íslendinga en að þannig sé búið að þjóðþingi okkar að það geti risið undir hlutverki sínu sem löggjafarsamkoma en sé ekki háð framkvæmdavaldinu um mótun löggjafar í þeim mæli sem nú er. Jafnframt þarf að tryggja með sanngjörnum fjárframlögum úr almannasjóðum að stjórnmálaflokkar geti rækt hlutverk sitt án fjárframlaga fyrirtækja eða annarra utanaðkomandi þrýstihópa. Löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka þar sem settar séu reglur um framlög til þeirra, opið bókhald og eftirlit með fjárreiðum er löngu tímabær og myndi auka traust almennings á stjórnmálastarfi. Þá þyrfti að bæta sem fyrst úr þeim miklu mistökum sem gerð voru með kjördæmabreytingu fyrir fáum árum og gera Ísland að einu kjördæmi samhliða reglum sem auki rétt kjósenda um fulltrúaval en tryggi jafnframt jafnræði milli kynja.

Bættur aðbúnaður þingsins

Góð viðleitni hefur verið til þess mörg undanfarin ár að bæta starfsaðstöðu þingmanna og þingflokka en þó langt frá því fullnægjandi. Sérstaklega þarf að styrkja aðstöðu þingflokka og einstakra þingmanna til sjálfstæðrar vinnu við mótun og athugun löggjafar, bæði eigin tillagna og tillagna frá öðrum þingflokkum, ráðuneytum eða með uppruna í tilskipunum og tilmælum erlendis frá. Launa þarf starfsfólk Alþingis og þingflokka þannig að von sé til sæmilegs stöðugleika í mannahaldi, en eins og nú er má segja að þingið sé einskonar þjálfunarstöð fyrir ráðuneyti og hagsmunasamtök sem bjóða mun hærri laun. Þátttaka Aþingis í alþjóðlegu samstarfi þyrfti einnig að verða burðugri en nú er, ekki síst upplýsingagjöf til þingmanna og þingflokka almennt um það sem fram fer í alþjóðastofnunum.

Ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt

Mikilvægur liður í því að skilja á milli framkvæmda- og löggjafarvalds væri að ráðherrar hefðu aðeins seturétt en ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Varamaður tæki sæti þingmanns sem yrði ráðherra en jafnframt mætti leita út fyrir raðir þingmanna við val á ráðherrum eins og víða tíðkast. Þessi breyting myndi meira en flest annað lyfta Alþingi sem handhafa löggjafarvalds, bæði táknrænt en einnig að innihaldi þar sem það yrði sjálfstæðara gagnvart ríkisstjórnum og réði meira um starfshætti sína en nú er. Ráðherrar bæru að sjálfsögðu eftir sem áður upp mál sín fyrir þinginu og hefðu þar viðveruskyldu þegar þau væru til umræðu.

Landið allt eitt kjördæmi

Kjördæmaskipanin sem kosið verður eftir vorið 2003 er ótrúlegur óskapnaður. Stíga þarf skrefið til fulls og gera landið að einu kjördæmi til Alþingis hið fyrsta en jafnframt ætti að setja upp millistig í stjórnsýslunni byggt á landsfjórðungum sem einingum að viðbættu höfuðborgarsvæði. Ekkert vit er í því að þenja sveitarstjórnarstigið út með þeim hætti sem sumir mæla fyrir. Með landið sem eitt kjördæmi yrði úr sögunni allt karp um misvægi atkvæða og kjördæmapot og stjórnmálaflokkar og þingmenn væru knúðir til að líta heildstæðara en nú er á landsins gagn og nauðsynjar. Ég er sannfærður um að landsbyggðin myndi síður en svo tapa á slíkri skipan á vali fulltrúa til setu á Alþingi og meginatriði er varða málefni landsins alls verða sýnilegri. Átak til að efla Alþingi ætti að vera inntak í þjóðhátíð 17. júní.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim