Hjörleifur Guttormsson 21. mars 2001

Framsókn, Stóribróðir og Schengen

Það hlýtur að verða mörgum Íslendingum ráðgáta nú og framvegis, hvernig það mátti verða að eyríkið í Norður-Atlantshafi skyldi innlimað í þann sérkennilega óskapnað sem gengur undir nafninu Schengen og greiði háan aðgangseyri í þokkabót. Pólitíska röksemdin hefur verið að með Schengen væri verið að bjarga því ferðafrelsi sem fram að þessu hefur gilt á milli Norðurlanda. Samlíkingin er þó langsótt, því að Schengenkerfið á fátt ef nokkuð sameiginlegt með því frjálsræði sem komið var á milli norrænu ríkjanna á 6. áratugnum. Kjarninn í Schengen er hins vegar að ná fram mikilvægu skrefi í þróun Evrópusambandsins í átt að ríkisheild, þ.e. afnám landmæraeftirlits milli aðildarlanda en hærri og þéttari girðingar út á við.

Halldór í fótspor krata

Kratar sem lengi hafa látið sig dreyma um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru auðvitað himinlifandi yfir Schengen. Málið var á fullri ferð þegar Halldór Ásgrímsson tók við af Jóni Hannibalssyni sem húsbóndi í utanríkisráðuneytinu 1995. Formaður Framsóknarflokksins var þá þegar engu minni áhugamaður um aðild Íslands að ESB en núverandi sendiherra í Washington. Aðeins þurfti Halldór að ganga varlegar um gáttir vegna baklands í eigin flokki og stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Schengen var tækifæri til að tengja Ísland fastari böndum við Brussel og það eftirlét Davíð leikbræðrum sínum í ríkisstjórn. Aðeins örfáir þingmenn nenntu að setja sig inn í málið og koma nú af fjöllum rétt eins og almúginn þegar Schengennetið steypist yfir okkur.

Stóri bróðir inn á gafl

Schengen hefur lítið með frelsi að gera þótt svo sé látið í veðri vaka. Í stað eftirlits á innri landamærum kemur margeflt eftirlit gagnvart öllum sem hreyfa sig inn og út af svæðinu og gífurleg söfnun upplýsinga um einstaklinga inn í risatölvukerfi Schengen þar sem engin trygging er fyrir lýðræðislegu eftirliti. Þegar hafa um 10 milljón manns verið skráðir inn í móðurtölvu SIS (Schengen Information System) í Strasburg, sumpart vegna þess að HUGSANLEGT er talið að þeir ÆTLI AÐ fremja afbrot eða beita sér gegn allsherjarreglu. Stóri bróðir hefur með Schengen heldur betur sótt í sig veðrið. Fjölmargir, þar á meðal norska Persónuverndin og lögmannasamtökin í Noregi, hafa varað við afleiðingum af Schengenkerfinu fyrir réttaröryggi almennings.

Landamæravarsla fyrir Evrópusambandið

Með skilyrtri Schengenaðild eru Íslendingar að taka að sér landamæravörslu fyrir Evrópusambandið og borga sjálfir háar fúlgur fyrir! Við skuldbindum okkur til að hækka hér girðingar gagnvart ferðamönnum frá öðrum heimshlutum, í raun sérstaklega til og frá Norður-Ameríku, einnig að því er Íslendinga varðar. Það vegabréfaeftirlit sem við hefðum þurft að fara í gegnum við komu inn á Schengensvæðið breytist nú í framvísun persónuskilríkja í langtum meira mæli en áður af alls konar tilefni, svo sem við gistingu og lyfjakaup. Eftirlit sem farangri Schengenfarþega við komu til landsins, meðal annars vegna fíkniefna, á eftir að verða erfiðara en áður þótt tolleftirlit sé áfram að nafninu til. Um breytingu á Schengenreglum höfum við engin úrslitaáhrif og verður kastað út úr samstarfinu umyrðalaust, ef við höfnum þeim. Í vandræðum sínum vegna yfirþyrmandi kostnaðar af Schengen hefur ríkisstjórnin nú falið Dönum að annast vegabréfaáritanir fyrir Íslands hönd á 70 stöðum víða um heim, því að kjörræðismenn Íslands mega ekki lengur sinna slíku! Er ekki ástæða til að óska Framsóknarflokknum til hamingju með afrekið?

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim