Hjörleifur Guttormsson 21. ágúst 2001

Ríkisstjórnin hellir olíu á stóriðjueldinn

Kærufrestur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun rennur út 5. september næstkomandi. Stofnunin taldi mikið vanta á að virkjunin kæmist gegnum mat og staðfesti með því sjónarmið lögboðinna umsagnaraðila, félagasamtaka og fjölmargra einstaklinga sem athugasemdir gerðu við matsskýrslu Landsvirkjunar. Varla var úrskurðurinn fallinn þegar liðsoddar ríkisstjórnarinnar og formenn beggja stjórnarflokkanna stigu fram og lýstu úrskurðinn ómerkan og að engu hafandi. Umhverfisráðherra og Alþingi hefðu síðasta orðið og varla þyrfti að velkjast í vafa um niðurstöðu. Forsætisráðherrann hnykkti síðan á þessu sjónarmiði í fréttaviðtali sunnudaginn 19. ágúst og bætti við að úrskurður Skipulagsstofnunar gengi gegn lögum.

Umhverfisráðherra gerður vanhæfur

Svo er að sjá sem ríkisstjórnin viti ekki sitt rjúkandi ráð í þessari stöðu, sem virðist hafa komið ráðherrunum í opna skjöldu. Með fleipri sínu og yfirlýsingum eru oddvitar ríkisstjórnarinnar að gera umhverfisráðherra ómerkan og vanhæfan til að sinna lögboðnu hlutverki sínu að úrskurða í hugsanlegum kærumálum vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hverjum dettur í hug að halda að umhverfisráðuneytið muni við þessar aðstæður kveða upp hlutlægan úrskurð vegna boðaðra kærumála þar sem þess yrði krafist af Landsvirkjun eða öðrum fyrir hennar hönd að úrskurður Skipulagsstofnunar verði úr gildi felldur? Hafa ber í huga fyrri yfirlýsingar umhverfisráðherra, þegar hún á árinu 1999 lagðist gegn kröfunni um lögformlegt mat á Fljótsdalsvirkjun, og bar því við að hún væri bundin af stefnu ríkisstjórnarinnar.

Landsvirkjun rannsakar upp á nýtt

Viðbrögð Landsvirkjunar við úrskurði Skipulagsstofnunar eru hófstilltari en hjá ráðherrunum en engu að síður fumkennd og ómarkviss. Rokið er til að efna í nýjar rannsóknir, að sagt er til að fylla í eyður sem Skipulagsstofnun benti á í úrskurði sínum. Svo virðist sem Landsvirkjun telji að nú sé rétti tíminn til að efna í nýtt mat, að þessu sinni til að sannfæra umhverfisráðherra um ágæti Kárahnjúkavirkjunar. Það virðist gleymast að hugsanlegar kærur yrðu að beinast að úrskurði Skipulagsstofnunar og þeim grunni sem hann var reistur á. Upplýsingar frá Landsvirkjun, byggðar á rannsóknum eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar féll 1. ágúst síðastliðinn, geta í besta falli nýst í nýrri matsskýrslu frá fyrirtækinu. Eftir er að sjá hvort stjórn Landsvirkjunar nær saman um kæruefni innan tilskilins frests eða hvort byggt verði á meirihlutaákvörðun stjórnar fyrirtækisins til að þókknast ríkisstjórninni.

Stefnir í víðtæk málaferli

Forsætisráðherra reynir að bera sig vel og staðhæfir að landi verði náð eins og til stóð með NORAL-verkefnið í byrjun næsta árs. Ekki þarf spámenn til að sjá að afar ólíklegt er að það gangi eftir, nema þá til að slá striki yfir stóriðjuáformin. Þótt ríkisstjórnin ráðgeri að knýja fram niðurstöðu sér í hag í krafti meirihluta á Alþingi er ólíklegt að fjárfestar að Norsk Hydro meðtöldu dansi eftir þeirri sekkjapípu. Margir lögspekingar hafa þegar tjáð sig um málavöxtu og með afar ólíkum hætti. Því er líklegt að í vetrarbyrjun upphefjist víðtæk málaferli sem vart geta endað fyrr en á æðsta dómsstigi. Með ótímabærri íhlutun sinni eru forkólfar ríkisstjórnarinnar að eyðileggja eðlilegan framgang lögboðins ferlis um mat á umhverfisáhrifum og þar með að stefna stóriðju á Austurlandi sem og annars staðar í enn meiri óvissu og ófrið en ella.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim