Hjörleifur Guttormsson | 21. desember 2001 |
Tvær eindregnar yfirlýsingar góð jólagjöf Á sama tíma og stóriðjusinnar og Landsvirkjun fagna úrskurði Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra um Kárahnjúkavirkjun kveður við annan tón hjá talsmönnum náttúruverndarsamtaka hérlendis og hjá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þessir aðilar hafa sent frá sér skorinorðar yfirlýsingar í kjölfar úrskurðar ráðherra og eru þær birtar orðrétt hér á eftir. Báðar þessar yfirlýsingar eru góð jólagjöf til þjóðar sem býr við skammsýna ráðamenn. Máli þessu er langt frá því að vera lokið og þeir sem nú ætla að ráðast gegn náttúru Íslands á grófari hátt en nokkru sinni fyrr mættu minnast þess að skamma stund verður hönd höggi fegin. Undirritaður tekur undir efni eftirfarandi yfirlýsinga um leið og hann óskar lesendum þessarar heimasíðu gleðilegra jóla og farsæls nýárs og þakkar hlýjar kveðjur og heimsóknir á árinu sem er að kveðja. Hjörleifur Guttormsson Formenn níu umhverfis- og náttúruverndarsamtaka 20. desember 2001: Úrskurður umhverfisráðherra alvarlegt áfall fyrir náttúruvernd á Íslandi Formenn neðangreindra umhverfis- og náttúruverndarsamtaka hafa á fundi sínum í dag fjallað um úrskurð umhverfisráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun myndi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra óskiljanleg. Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins. Í þessu sambandi er minnt á eftirfarandi:
Standi úrskurður umhverfisráðherra mun hann hafa fordæmisgildi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og stefnir í hættu þeim miklu verðmætum sem felast í íslenskri náttúru og landslagi. Undirritaðir formenn mótmæla úrskurði umhverfisráðherra og munu beita sér fyrir því að málsmeðferð og forsendur fyrir úrskurðinum verði athugaðar vandlega og metið hvort ástæða sé til að fara með málið fyrir dómstóla. Anna Guðrún Þórhallsdóttir, SÓL í Hvalfirði, Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í yfirlýsingu 21. desember 2001: Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mótmælir harðlega úrskurði umhverfisráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar. Með úrskurði sínum gengur ráðherra þvert gegn faglegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem gaf Kárahnjúkavirkjun algjöra falleinkunn, enda ljóst að virkjunin ein og sér hefði í för með sér meiri umhverfisspjöll, jarðrask og óafturkræfar breytingar á landslagi og náttúrufari en nokkru sinni hefur verið efnt til hér á landi og þó víðar væri leitað. Með framkvæmdunum er stærsta ósnortna víðerni Evrópu raskað og möguleikum til annars konar nýtingar spillt. Verði ráðist í framkvæmdirnar verður sú ákvörðun aldrei aftur tekin, svæðið norðan Vatnajökuls verður aldrei samt. Skilyrðin sem ráðherra setur fyrir framkvæmdinni draga aðeins að mjög litlu leyti úr þeim óbætanlega skaða sem virkjunin hefði í för með sér. Þau eru yfirleitt því marki brennd að útlátalítið er fyrir Landsvirkjun að fallast á þau. Skilyrðin skerða fyrirhugað afl virkjunarinnar aðeins um 4% og í mörgum tilvikum er verið að fjalla um sjálfsagða hluti eins og að hanna mannvirki með tilliti til aðstæðna. Annað sem Landsvirkjun er gert að falla frá, eins og að eltast við smálæki upp að rótum Snæfells, var fyrst og fremst til marks um ótrúlega ósvífin áform sem e.t.v. var hvort sem er aldrei mikil alvara á bak við. Úrskurður umhverfisráðherra er hrein pólitísk valdbeiting. Sá tími sem liðinn er síðan Skipulagsstofnun kvað upp sinn úrskurð 1. ágúst sl. virðist fyrst og fremst hafa farið í að leita leiða til að láta fyrirfram ákveðna niðurstöðu líta skár út. Nýr farvegur var búinn til fyrir málið utan laga, einhvers konar málamynda-viðbótarmat á vegum ráðuneytisins, og er það eitt út af fyrir sig dæmafár gjörningur. Þrátt fyrir þetta tekst ekki að sýna fram á neitt nýtt sem réttlæti úrskurð umhverfisráðherra. Með honum er ráðherrann augljóslega að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar um að Kárahnjúkavirkjun skuli byggð hvað sem umhverfisspjöllum líði. Ráðherrann er því vanhæfur til að úrskurða í málinu sem hlutlægur aðili og hefði borið að víkja sæti. Með þessum úrskurði og framgöngu sinni hefur Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra brugðist þeim málaflokki sem hún ber ábyrgð á. Alger trúnaðarbrestur er þar með orðinn milli náttúruverndarsjónarmiða, -fólks og -samtaka og núverandi valdhafa. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mun taka málið upp á Alþingi strax og þing kemur saman. Jafnframt skorar þingflokkurinn á almenning og alla náttúruunnendur að halda vöku sinni gagnvart þeirri grímulausu pólitísku valdbeitingu sem umhverfisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar beitir í þessu máli. Hjörleifur Guttormsson |