Hjörleifur Guttormsson | 22. október 2001 |
Sameinuð gegn stóriðjustefnunni Ávarp á landsfundi VG 19. október 2001 Söguleg þrjú ár Flokkurinn sem hér fundar hefur þegar sett mark sitt á Íslandssöguna. Fyrir aðeins þremur árum stóðu mörg okkar frammi fyrir því, hvort við ættum að ganga áttavitalaus inn í þoku með mörgu ágætu fólki, hætta afskiptum af þjóðmálum eða reisa merki - á nýjum grunni. Haustið 1998 var ekkert sjálfgefið í þessum efnum, síst af öllu hvaða hljómgrunn flokkur um hefðbundin vinstrigildi, um óháð Ísland og með umhverfisvernd og sjálfbæra þróun að leiðarljósi myndi hljóta meðal þjóðarinnar. Svartsýnisspár bárust víða að, frá lærðum stjórnmálafræðingum og pólitískum andstæðingum. Þær megnuðu hins vegar ekki að fæla fólk frá málstað sem það hafði trú á og studdi í hjarta sínum. Margir sem ekki höfðu áður verið þátttakendur í stjórnmálastarfi gáfu sig fram. Stuðningur 15 þúsund kjósenda í alþingiskosningunum vorið 1999 var svarið og það dugði fyrir 6 fulltrúum inn á Alþingi Íslendinga. Sá hópur hefur skilað ótrúlega góðu verki - án undantekninga. Fyrir þau störf er ástæða að þakka á þessum fundi og öðrum sem plægt hafa akurinn. - Nú, að hálfu kjörtímabili liðnu, er hollt að spyrja, hvar værum við án þessa flokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, hvar væri málstaður okkur og rödd í samfélaginu án hans? Árásin á íslenska náttúru Á verkefni hefur ekki skort, sviptingar og viðfangsefni allt í kring, bæði heima og erlendis. Fyrst af heimavettvangi. Ríkisstjórnin gengur nú sameinuð undir stóriðjumerki sem Framsóknarflokkrinn hannaði fyrir samstarfsflokkinn. Efnahagsmál í landinu og hagþróun næsta áratugar er sett á eitt spil, álverksmiðjur og aftur álverksmiðjur með tilheyrandi umhverfisfórnum. Hér er ekki fjölbreytninni fyrir að fara. Í öllu frjálsræðistalinu hefur ríkisstjórnin sett saman tvær fimmára áætlanir sem sómt hefðu sér vel í Sovétríkjunum sálugu. Í þeim tvinnast saman ríkisforsjá í stóriðjuuppbyggingu og þröngir flokkshagsmunir. Inn í þetta samhengi fléttast Landsvirkjun og stórverktakar og allt minnir þetta gangverk með sláandi hætti á hergagnaiðnað í útlöndum, þar sem saman fer pólitísk íhlutun og leynd í nafni þjóðaröryggis, hér haldið uppi í nafni viðskiptaleyndar. Ríkisstjórnin talar nú í alvöru um að afla þurfi viðbótarorku fyrir 800 þúsund tonna álframleiðslu næstu 10 árin. Í þetta færu 12 teravattstundir af raforku sem væri 150% aukning frá þeim 8 teravattstundum sem nú eru samtals framleiddar í landinu. Hér er verið að undirbúa árás á náttúru Íslands í áður óþekktum mæli, og kannski engin tilviljun að utanríkisráðherra hefur kallað til hersveitir Norðurvíkings til þess meðal annars að hafa auga með virkjunum á hálendinu. Í herkostnaðinn er lagður orðstír Íslands í umhverfismálum. Losun gróðurhúsalofttegunda frá þessum álverksmiðjum myndi nokkurn veginn upp á punkt og prik éta upp mengunarheimildir samkvæmt "íslenska ákvæðinu" margnefnda. Á nýafstöðnu Orkuþingi sagði gestafyrirlesari, Baldur Elíasson, ráðgjafi í orkumálum hjá ABB í Sviss, að aldrei hefði hann skammast sín fyrir að vera Íslendingur eins og þegar hann frétti af frammistöðu stjórnvalda í loftslagsmálum og Kyótóferlinu. Vinstrihreyfingin grænt framboð er eina stjórnmálaaflið í landinu sem hefur markað skýra stefnu gegn þessum hervirkjum og í þessum stórmáli sem öðrum talar flokkurinn einni röddu hvar sem er á landinu. Náttúrufarsröskun og mengun er hins vegar ekki eina ástæðan fyrir gagnrýni okkar. Samfélagslegu áhrifin, efnahagslegar afleiðingar, stóraukin skuldsetning og áhætta fyrir þjóðarbúið eru ekki síður varhugaverð. Þessi mál verða áfram í brennidepli stjórnmálanna og þar á flokkur okkar samleið með samtökum náttúruverndarfólks hérlendis og fjölda fólks, karla og kvenna, utan og innan stjórnmálaflokka. Enn er ráðrúm til að aftengja þá samfélagslegu sprengju sem tifar yfir Austurlandi og svipuð áform eru víðar á döfinni, allt frá Langasjó til Straumsvíkur. Viðbrögð við hnattvæðingu Í alþjóðaumhverfinu hafa um skeið gengið yfir breytingar sem setja stöðu og framtíð heimsbyggðar í mikla óvissu. Hnattvæðingin margumrædda hefur verið innleidd á hálfum öðrum áratug með samspili tækniþróunar og pólitískra ákvarðana. Hnattvæðingin setur mark sitt á viðskipta- og fjármálalíf heimsins. Samtenging fjármálamarkaða og óheftir fjármagnsflutningar eru undirstaða þessa kerfis á efnahagssviði, þar sem fjölþjóðafyrirtæki eru gerendurnir og hafa að miklu leyti tekið við hlutverki þjóðríkja og kjörinna stjórnmálamanna. Átrúnaðurinn á óheftan markað á flestum sviðum, meðal annars í líftækni, er að gera mannleg og siðræn gildi að hornrekum og fulltrúalýðræðið að skrípamynd. Sýnishorn af því sáum við í forsetakosningum í Bandaríkjunum síðastliðinn vetur. Vantrú almennings á hefðbundnum stjórnmálum birtist í æ minni þátttöku fólks í kosningum. Athyglin beinist að fundum þar sem raunverulegar ákvarðanir eru teknar eins og dæmi sanna frá Seattle til Genúa. Fjöldamótmælin þar og víðar hafa ekki síst beinst að neikvæðum þáttum hnattvæðingar. Sjálfsprottin samtök almennings hafa með aðgerðum sínum haft jákvæð áhrif, en líka orðið til þess að oddvitar stórveldanna eru farnir að svipast um eftir afviknum stöðum til fundahalda. Sprengjuregn ekki rétta svarið Skelfingar þær sem nú ganga yfir og birtast í svonefndum hryðjuverkum eru skilgetið afkvæmi tækniþróunar og allsherjar markaðsvæðingar. Enginn véfengir að ofurvald fjölþjóðafyrirtækja og óheft fjármagnsflæði heimshorna á milli hefur þegar stóraukið misskiptingu milli þjóða og innan samfélaga. Örbirgðin sem Vesturlönd halda beint og óbeint hlífiskildi yfir eru gróðrarstía fyrir biturð og vonleysi sem fær menn til að grípa til örþrifaráða. Rafræn boðskipti og viðkvæm hátækni í nútímasamfélögum gerir harðsnúnum hópum og einstaklingum kleift að setja allt á annan endann. Það sem við höfum verið að upplifa síðustu vikur er aðeins veikt forspil þess sem gæti verið í vændum. Olíulindir Miðausturlanda eru nálægt hjarta átakanna og á bak við blundar kjarnorkan, bæði í formi vopna og orkuvera. Svarið við 11. september hefði átt að vera allt annað en sprengjuregn risaveldis yfir eitt af fátækustu löndum veraldar, jafnvel þótt það hýsi meintan höfuðpaur í helli. Undirrótin er misskiptingin, stuðningur við ógnarstjórnir og hroki og yfirlæti gagnvart hugarheimi annarra, höfnun á fjölbreytni og oftrú á vopnavaldi. Það er skelfilegt að sjá hvernig Sameinuðu þjóðirnar hafa verið sniðgengnar að undanförnu, hvernig reynt er að þagga niðri í fjölmiðlum, þrengja að persónufrelsi og auka valdheimildir framhjá lýðræðislegu eftirliti. Víðtækar aðgerðir gegn hryðjuverkum skila ekki árangri nema fram komi jafnhliða áþreifanlegur vilji til stefnubreytingar hjá þeim sem sitja að auði og völdum. Um leið og við fordæmum valdbeitingu og voðaverk sem bitna á samfélögum og saklausu fólki hljótum við að vara sterklega við að láta vopnin tala eins og nú er gert. "Biðhetjur kjallaranna" Í ógleymanlegu kvæði sínu, London, orti norska skáldið og baráttumaðurinn Nordal Grieg [þýðing Magnúsar Ásgeirssonar] upp úr 1940 um "morðdrekaflugsins gný" og "helspunavélar" nasistanna sem stráðu "feigð yfir þök og hvirfla". Það var auðvelt að finna til samkenndar í því stríði gegn árásaraðilanum og með "bráfölum börnum" Lundúna, "biðhetjum kjallaranna" sem skriðu að morgni upp úr loftvarnarbirgjunum. Slíka samkennd vantar í þeim hildarleik sem nú er skollinn á og málstaðurinn er tvísýnni svo ekki sé meira sagt. Einnig margir Bandaríkjamenn átta sig á þessu, þeirra á meðal Chalmer Johnson, fyrrum ráðgjafi CIA sem Der Spiegel vitnaði í um síðustu helgi undir fyrirsögninni: "Engin uppskrift að friði" en hann segir þar meðal annars: "Bandaríkin verða að skilja ástæðurnar [að baki 11. september] og breyta í samræmi við nýtt innsæi - en ekki bregðast við eins og heimsvaldasinnaður slagsmálahundur." Ný sýn til borgarskipulags Vinir eru ekki síst þeir sem segja til vamms. Almenningur í þessu stórkostlega landi, Bandaríkjum Norður-Ameríku, á skilið að lifa óáreittur af hermdarverkum ekki síður en bráföl börnin í London, Palestínu eða Afganistan. Bandaríkjamenn hefðu af nógu að taka til að miðla heimsbyggðinni af reynslu sinni, þekkingu og visku, einnig um það sem aflaga fer í nútímanum. Einn slíkur fulltrúi, arkitektinn Anton C. Nelessen kom nýlega hingað til lands og tjáði sig um sína reynslu og sýn til skipulags borga og byggða, eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu í gær, 18. október. Þegar ég leit yfir þá frásögn varð mér hugsað til væntanlegs fundar sem hér er hafinn undir yfirskriftinni fjölbreytni. Skilaboð þessa bandaríska fræðimanns voru meðal annars: "Burt með stór skrifstofuhverfi og stóra verslunarkjarna og burt með svefnbæina". Fjölbreytni í minni einingum, þátttaka almennings í ákvörðunum og sveigjanleiki voru lykilorð að hans mati. Mörg erfið próf framundan Flokk okkar skortir ekki viðfangsefni og rödd okkar þarf að hljóma í lýðræðislegum þjóðkór á Íslandi. Við getum verið ánægð með hljómbotninn, þann ríka og vaxandi stuðning sem við vinstri-grænir höfum fengið til þessa. En fyllumst ekki sjálfumgleði. Sem gildir þátttakendur í stjórnmálum eigum við eftir að ganga undir mörg próf og sum vafalaust erfið. Einurð og heiðarleiki eru þá gott vegarnesti en einnig virðing fyrir öðrum sjónarmiðum og gildum. Aðeins þannig hlúum við að fjölbreytni í samfélagi okkar og umhverfi. Berum málstað okkar sókndjörf fram svo að börn heimsbyggðar, biðhetjur morgundagsins, megi sjá sól rísa yfir iðjagrænum völlum. Hjörleifur Guttormsson |