Hjörleifur Guttormsson 23. febrúar 2001

Skipt um forrit í varaformanni

"Ég er hlynnt því að við sækjum um aðild að ESB ef að staða okkar er með þeim hætti að það er eina leiðin til þess að hafa áhrif ef ekki nást fram breytingar á [EES]samningnum." - Margrét Frímannsdóttir í "Ísland í bítið" 20. febrúar 2001.

Samfylkingin hefur átt í nokkrum erfiðleikum með að fóta sig á stjórnmálasvellinu allt frá upphafi. Margir hafa kennt um óskýrri og fálmkenndri stefnu í mörgum stærstu málum íslensks samfélags og feluleik forystumanna, ekki síst þeirra sem lögðu Alþýðubandalagið inn í púkkið. Þeim var legið á hálsi fyrir að hverfa frá helstu málum sem Alþýðubandalagið stóð fyrir, þar á meðal andstöðunni við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Slíkum áburði var vísað frá sem ómerkilegum getsökum, ekki síst af þáverandi flokksformani Margréti Frímannsdóttur. Ekkert væri fjarlægara en að fella ætti merkin þótt gengið yrði í bandalag við þá Sighvat og Össur. Sem kunnugt er hafði Alþýðuflokkurinn um áratugi einn flokka á stefnuskrá sinni að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið. Það var reyndar áður en Halldór Ásgrímsson stal glæpnum.

Á námskeiði hjá Framsókn

Formann Framsóknarflokksins hefur lengi dreymt um Evrópusambandsaðild. Um slíkar hugrenningar mátti hins vegar ekki hafa hátt á því heimili og því fann Halldór upp þá aðferð að lýsa yfir miklum áhyggjum vegna stöðu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sá samningur hefur hins vegar ekkert breyst frá því sem við blasti þegar hann var gerður. Hann tryggði Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum hvorki sæti við háborðið í Brussel né afgerandi áhrif í nefndum Evrópusambandsins. Þau tíðindi sem utanríkisráðherra hefur reynt að segja þjóðinni undanfarið, þ.e. að dofnað hafi yfir áhuga ESB á samningnum við Ísland, Noreg og Lichtenstein eru dæmigerðar ekki-fréttir. Sú framsetning á hins vegar að gera þjóðina og flokksmenn í Framsóknarflokknum móttækilega fyrir þeim boðskap að nú sé ekkert annað að gera en að sækja um aðild. Eitthvað fer þetta þó illa í Framsóknarmenn en þeim mun meiri aðdáunar gætir hjá Samfylkingunni á aðferðafræði utanríkisráðherrans.

Varaformaður úr felum

Flestir höfðu gleymt því að Samfylkingin ætti sér varaformann. Nú hafa fjölmiðlar hins vegar minnt rækilega á það af tilefni flokksþings Framsóknar að varaformanna er ríkið um síðir. Þennan óvænta byr hefur Margrét varaformaður Samfylkingarinnar nýtt sér og nýverið minnt á sig svo eftir er tekið. Á Alþingi á dögunum tók hún utanríkisráðherra á eigin bragði og spurði utan dagskrár hvort hann ætlaði virkilega að una því að ekkert mark væri á Íslendingum tekið í Brussel, jafnvel ekki þegar öryggi fiskiskipa bæri á góma. Ráðherrann reyndi að hugga þennan áður eindregna andstæðing EES-samningsins og sagði allt lið utanríkisþjónustunnar lagt í víking til að verja nefndasætin. Úrslitin væru þó ekki ráðin og áhyggjunum deildi hann með Samfylkingunni.

Mega fara að vara sig

Umræðan á Alþingi um nefndasætin í Brussel endaði í hálfgerðri útideyfu. Þá var það að snjöllum fréttamanni datt í hug að spyrja: Hvað svo? Og nú stóð ekki á svörum hjá Margréti varaformanni: Takist ekki að blása lífi í EES-samninginn verður Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hér var ekki töluð nein tæpitunga og væntanlega öllum ljóst að bæði formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra geta ekki verið vissir um að halda sætum sínum mikið lengur úr þessu.

Hitt er síðan rannsóknarefni, hvort búið er að skipta um forrit að því er varðar aðild að Evrópusambandinu í öllum þeim fyrrum flokkssystkinum Margrétar sem nú sitja á Alþingi fyrir Samfylkinguna.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim