Hjörleifur Guttormsson 23. júlí 2001

Lúpínuplágan og stefnuleysi stjórnvalda

Þeir sem ferðast um landið að sumarlagi komast ekki hjá því að veita eftirtekt sístækkandi svæðum sem alaskalúpína hefur lagt undir sig fyrir beinan eða óbeinan tilverknað manna. Þau byggðarlög eru fá sem laus eru undan þessari plágu sem er á leið með að verða eitt stærsta umhverfisvandamál hérlendis. Holtin austan við höfuðborgina eru að verða einn allsherjar lúpínuakur og við flesta þéttbýlisstaði setur þessi dugmikla planta mark sitt á umhverfið. Á Austfjörðum þar sem undirritaður hefur fylgst með gróðurfari um árartugi er að verða sprenging í útbreiðslu lúpínu í grennd þéttbýlisstaða. Verði ekki brugðist hart við mun þessi planta innan fárra áratuga verða orðin allsráðandi víða í fjörðum, þar sem hún breiðist ekki aðeins út um mela og hálfgróið land heldur um grónar brekkur og lyngmóa. Menn þurfa að svara því hver á sínum stað hvort þeir telji það æskilega þróun að fá einsleitar lúpínubreiður í stað fjölgresis, blómjurta og berjalyngs.

Stjórnvöld bera ábyrgðina

Um lúpínu gildir það sama og með minkinn að ræktun hennar og losun í umhverfið hefur orðið vegna andvaraleysis og skammsýni stjórnvalda, þótt einstaklingar komi þar vissulega við sögu. Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins bera höfuðábyrgð á lúpínuplágunni þar eð talsmenn þessara stofnana hafa rekið einhliða áróður fyrir lúpínu sem landgræðsluplöntu og hvatt auk þess almenning til að sáldra henni sem víðast. Enn neita forsvarsmenn þessara stofnana að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna, þótt þeim fjölgi óðum sem sjá í hvert óefni stefnir. Pólitíska ábyrgð bera viðkomandi ráðherrar með þögn og aðgerðaleysi, bæði landbúnaðar- og umhverfisráðherra. Lög um landgræðslu frá 1965 eru einhver mesti forngripur í íslensku lagasafni og hafa ekki fengist endurskoðuð þrátt fyrir hátíðleg loforð viðkomandi ráðherra í heilan áratug. Í lög um náttúruvernd nr. 44/1999 fengust inn ákvæði um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera (41. gr) en lítið hefur heyrst um aðgerðir á grundvelli þeirra. Hvorki lúpína eða minkur eru sökudólgar heldur þeir menn sem ekki sýna tilskilda varúð þegar íslensk náttúra á í hlut.

Rannsóknir og ótvíræð reynsla

Margir hafa á undanförnum árum varað við hættu sem gróðurríki landsins stafar af innflutningi og dreifingu öflugra framandi tegunda. Af dugnaði og framsýni hafa einstaklingar staðið fyrir rannsóknum á útbreiðslu og framvindu slíkra tegunda, oft í lítilli þökk opinberra aðila. Í byrjun þessa árs birtist á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins rit þriggja vísindamanna undir heitinu Gróðurframvinda í lúpínubreiðum (fjölrit Rala nr. 207). Þar eru dregnar saman niðurstöður út 12 ára rannsóknum sem staðfesta í meginatriðum þau varnaðarorð sem uppi hafa verið höfð um þessa öflugu landgræðslutegund. "Hún getur einnig numið land og breiðst yfir algróin svæði með lágvöxnum mólendisgróðri þar sem hún gerbreytir gróðurfari" segja vísindamennirnir Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni Diðrik Sigurðsson í nefndri ritgerð. "Köfnunarefnisbinding, ör vöxtur, stærð og breiðumyndun eru allt eiginleikar sem gera henni þetta kleift. Víðáttumikil svæði hér á landi standa lúpínunni opin berist hún inn á þau....Niðurstöðurnar benda til að við landgræðslu með lúpínu þurfi að sýna mikla aðgát." - Engan tíma má missa vilji menn bregðast við annars auðsæjum ófarnaði. Ella blánar hér land af lúpínu ár hvert í stað berja.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim