Hjörleifur Guttormsson 28. september 2001

Norðlingaölduveita - matsáætlun

Landsvirkjun ætti að hætta öllum frekari áformum um framkvæmdir í Þjórsárverum og draga tillögu sína að matsáætlun vegna Norðlingaölduveitu til baka segir m. a. í eftirfarandi athugasemdum til Skipulagsstofnunar.

  1. Undirritaður mótmælir því að Landsvirkjun áformar að ráðast í gerð miðlunarlóns í Þjórsárverum sem skerða myndi friðland Þjórsárvera. Fátt sýnir skýrar hversu langt fyrirtækið virðist reiðubúið að ganga í að storka almenningsáliti í landinu og ganga gegn umhverfisverndarsjónarmiðum.

  2. Í tillögu að matsáætlun er engin frambærileg rök að finna fyrir því að Landsvirkjun skuli nú ætla að hefja miðlunarframkvæmdir í Þjórsárverum, einu viðkvæmasta og verðmætasta náttúruverndarsvæði hérlendis.

  3. Yfir stendur á vegum stjórnvalda svonefnd Rammaáætlun undir kjörorðunum Maður - Nýting - Náttúra. Óréttlætanlegt er að ætla að knýja fram mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu áður en lokið er vinnu að nefndri áætlun og hún fengið fullnægjandi umfjöllun á vegum stjórnvalda.

  4. Náttúruverndaráætlun, sú fyrsta sinnar tegundar, er í mótun á vegum umhverfisráðuneytis lögum samkvæmt. Er eðlilegt að bíða með allar meiriháttar framkvæmdir á hálendi Íslands á meðan hún er í mótun og umfjöllun á vegum stjórnvalda.

  5. Nýting Þjórsárvera til orkuframleiðslu - og í þágu mengandi stóriðju - er í hrópandi ósamræmi við stefnu og markmið margra alþjóðasamþykkta og yfirlýsinga sem Ísland er aðili að. Nægir þar að vísa til Ríó-yfirlýsingarinnar, Alþjóðasamningsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Þess utan ganga þessi áform þvert á skuldbindingar sem Ísland hefur á sig tekið með því að lýsa Þjórsárver verndarsvæði samkvæmt Ramsarsamþykktinni um verndun votlendis.

  6. Staðhæfing í tillögu að matsáætlun þar sem segir: "Fyrirhuguð Norðlingaölduveita er í samræmi við svæðisskipulagsáætlun" (bls. 10) er röng og villandi. Í Svæðisskipulagi Miðhálendisins 2015 er Norðlingaölduveita nefnd með fyrirhuguðum orkuvinnslusvæðum og í greinargerð (bls. 78 og 180) settir fyrirvarar um hugsanlega framkvæmd, bæði stífluhæð og aðra útfærslu mannvirkja. Samsvarandi útfærsla, hliðstæð þeirri sem gerð var í skipulaginu um Eyjabakkasvæðið, er á gildandi skipulagsuppdrætti. Það er því ljóst að engin endanleg afstaða er tekin í Svæðisskipulagi miðhálendis 2015 til hugsanlegrar mannvirkjagerðar á þessum stað. Hlýtur málið að þurfa umfjöllun að skipulagslögum í ljósi þess, að líkindum með breytingu á svæðisskipulagi, ef ráðast ætti í framkvæmdina.

  7. Í tölulið 2 í tillögunni (framkvæmdalýsing) segir m.a. "Í matsskýrslu verður fjallað um hagkvæmni framkvæmdar". Í tölulið 3 (valkostir) er einnig talað um samanburð á hagkvæmni miðað við mismunandi lónhæð og núll-kost. Af því tilefni bendir undirritaður á að mat á hagkvæmni og efnahagsáhrifum framkvæmda er ekki hluti af mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000.

  8. Þjórsárver eru hluti af stærri heild og ætti að fella þau að Hofsjökulsþjóðgarði, sbr. tillögu undirritaðs á Alþingi um þjóðgarða á miðhálendinu (406. mál á 122. löggjafarþingi) þar sem segir m.a. í greinargerð:
    "Hofsjökulsþjóðgarður.
    Stærð hans er áætluð 2.230 ferkílómetrar. Innan þjóðgarðs kæmi allur Hofsjökull með skriðjöklum. Friðland í Þjórsárverum yrði hluti af þjóðgarðinum, sem og Kerlingafjöll sem nú eru á náttúruminjaskrá (732).
    Að öðru leyti fylgdu þjóðgarðsmörkin í aðalatriðum markalínu sem hugsast dregin sem hér segir. Sunnan jökuls við mörk dökkgræns svæðis á skipulagsuppdrætti 2015 (tillaga að svæðisskipulagi) þannig að innan þjóðgarðs yrðu Kerlingafjöll og Þjórsárver. Austan jökuls lína við austurmörk ljósgræns svæðis á skipulagsuppdrætti 2015 að Laugafelli (879 m). Norðan jökuls lína frá Laugafelli í Sátu (941 m) og þaðan í Bláfell (826 m) norðvestan Hofsjökuls. Vestan Hofsjökuls lína frá Bláfelli (826 m) um Hrygg (685 m), Fjórðungsöldu (653 m) og í Hnappöldu (764 m)."
  9. Fyrir utan áhrif á lífríki og vatnsbúskap Þjórsárvera hefði Norðlingaölduveita stórfelld áhrif á landslag, ekki síst sjónræn áhrif, sem alltof lítið hefur verið gert úr í umfjöllun um þessa hugmynd Landsvirkjunar. Veitan með miðlunarlóni væri mjög til lýta fyrir þá landslagsheild sem hér um ræðir, bæði í grennd lónsins en einnig frá nálægum fjöllum og ofan frá Hofsjökli.

  10. Í stað þess að vera að ýta fram þessi fráleitu hugmynd Landsvirkjunar væri nærtækt að fram færi heildarúttekt á áhrifum Kvíslaveitna á Þjórsárver, jafnhliða því sem náttúruverndaryfirvöld undirbyggi stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

  11. Tímaáætlun í tillögunni ber með sér að framlagning tillögu að matsáætlun er einber sýndarmennska til að uppfylla formkröfur. Boðuð er matsskýrsla af hálfu framkvæmdaraðila í nóvember 2001 og því ljóst að skýrslan er nánast fullbúin af hálfu Landsvirkjunar.

  12. Mikið er lagt á einn tiltekinn vistfræðing hjá VSÓ (Ragnhildi Sigurðardóttur), sem "tekur saman niðurstöður allra náttúrufarsrannsóknanna á svæðinu í þeim tilgangi að meta heildaráhrif framkvæmdar á vistkerfi svæðisins." (bls. 16).

Undirritaður hvetur til þess með vísan til ofanritaðs að tillaga að matsáætlun og framkvæmdum við Norðlingaölduveitu verði dregin til baka og náttúra Þjórsárvera fái frið fyrir frekari hervirkjum.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim