Hjörleifur Guttormsson 29. ágúst 2001

Kárahnjúkar og NORAL - hvert stefnir?

Miklar líkur eru á að niðurstaða frestist um minnst eitt ár

  1. Úrskurður Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun 1. ágúst 2001 markaði þáttaskil. Hann er afdráttarlaus og vel rökstuddur og byggir m.a. á umsögnum margra opinberra stofnana og frá fjölda einstaklinga, lærðra og leikra.
  2. Framkvæmdaundirbúningur og frekari rannsóknir af hálfu Landsvirkjunar. Þrátt fyrir úrskurðinn hefur Landsvirkjun haldið áfram rannsóknum á virkjunarsvæðinu, m.a. vegna útboðs, svo og rannsóknum til öflunar frekari gagna til að leggja fyrir umhverfisráðuneytið í kærumeðferð (hafrannsóknir o.fl.). Ekki verður séð að Landsvirkjun sem framkvæmdaaðili geti á kærustigi styrkt stöðu sína með því að leggja fram frekari rannsóknaniðurstöður sem aflað hefði verið eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar féll. Ný grundvallargögn er varða mat á umhverfisáhrifum yrðu að koma fram í nýrri matsskýrslu sem leita þyrfti athugasemda við og færi síðan í úrskurð hjá Skipulagsstofnun.
  3. Afstaða ríkisstjórnar. Þrír ráðherrar (forsætisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra) svo og formaður iðnaðarnefndar Alþingis (Hjálmar Árnason) hafa gagnrýnt úrskurð Skipulagsstofnunar, talið hann ganga gegn lögum og vera illa unninn. - Skipulagsstofnun hefur andmælt þessari gagnrýni sem tilhæfulausri og órökstuddri.
  4. Kærumeðferð - umhverfisráðherra vanhæfur?. Nokkrir aðilar hafa lýst því yfir að þeir muni kæra úrskurðinn, þeirra á meðal forstjóri Landsvirkjunar, stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) og Verkalýðsfélagið Afl á Mið-Austurlandi. Forstjóri Landsvirkjunar nefnir að úrskurðurinn kunni að stangast á við lög og auk þess muni Landsvirkjun reiða fram nýjar rannsóknaniðurstöður og upplýsingar um þætti þar sem Skipulagsstofnun taldi að óvissa ríkti um áhrif framkvæmda. Kærufrestur er til 5. september og hefur umhverfisráðherra síðan 8 vikur (til októberloka) til að kveða upp úrskurð um kærur. Vegna viðbragða oddvita ríkisstjórnarinnar (sbr. 3. tölulið) og fyrri ummæla umhverfisráðherra um að hún fylgi stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum gæti ráðherrann verið orðinn vanhæfur til að úrskurða í málinu.
  5. Gagnrýni á úrskurð Skipulagsstofnunar. Ráðherrar hafa engin efnisleg rök fært fram til stuðnings ásökunum um að úrskurðurinn gangi gegn lögum. Hins vegar hefur Hreinn Loftsson lögmaður, í senn handgenginn forsætisráðherra og Landsvirkjun, ritað grein í Morgunblaðið (25. ágúst 2001) um úrskurðinn. Heldur hann því fram að Skipulagsstofnun sé ekki heimilt lögum samkvæmt að leggjast gegn framkvæmd á þeirri forsendu að upplýsingar eða gögn skorti. Þeir sem kynnt hafa sér úrskurðinn sjá hins vegar að vöntun á upplýsingum ræður engum úrslitum um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun. Nokkrir sem viðrað hafa kærur vísa til almennra þátta svo sem byggðasjónarmiða og atvinnustigs. Ekki verður séð að slíkt skapi forsendur til ógildingar úrskurðinum. Fljótlega mun liggja fyrir á hvaða forsendum kært verður.
  6. Lagafrumvarp á Alþingi? Ráðherrar vísa til þess að mál Kárahnjúkavirkjunar ráðist á Alþingi. Flutt verði frumvarp til að afla þar lagaheimilda fyrir virkjun, sem hægt verði að nýta eftir að umhverfisráðherra hefði fellt úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar. Vel má vera að ríkisstjórnin reyni þessa leið, en hún mun valda hörðum deilum, bæði á þingi og í samfélaginu, og með öllu óvíst að hún greiði fyrir niðurstöðu.
  7. Stefnir í málaferli. Nú þegar stefnir í að matsferlið vegna Kárahnjúkavirkjunar sigli hraðbyri til dómstóla, hver svo sem yrði niðurstaða umhverfisráðherra. Forstjóri Landsvirkjunar hefur ítrekað gefið til kynna að reyna hljóti fyrir dómstólum á túlkun laga um mat á umhverfisáhrifum. Héraðsdómar í máli sem þessu enda að líkindum í Hæstarétti. Tími sem slíkur málarekstur tæki er óviss en eitt ár er trúlega lágmark frá því mál væru þingfest, sem vísar á niðurstöðu árið 2003. Þá gæti líka legið fyrir bráðabirgðaálit verkefnisstjórnar Rammaáætlunar sem haft gæti áhrif á frekari framvindu.
  8. Áhrif á NORAL-verkefnið. Áhrif úrskurðar Skipulagsstofnunar og málareksturs fyrir dómstólum á NORAL-verkefnið gætu orðið víðtæk. Norsk Hydro sem aðili að NORAL og Reyðaráli hf mun eiga erfitt með að líta framhjá úrskurði Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun, þótt svo færi að umhverfisráðherra úrskurði á annan veg. Ólíklegt verður að telja að aðilar að NORAL-verkefninu komist að endanlegri niðurstöðu um framkvæmdir á meðan mál er varða orkuöflun væru óútkljáð, m.a. fyrir dómstólum. Svipað á við um hugsanlega innlenda fjárfesta á Reyðaráli hf, þar á meðal lífeyrissjóði.
  9. Markmið Landsvirkjunar. Landsvirkjun ætlar sér að komast eins langt með öflun heimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun og frekast er unnt, bæði að því er snertir mat á umhverfisáhrifum, heimild frá Alþingi og framkvæmdaleyfi, óháð því hvað verður um álverksmiðju á Reyðarfirði. Landsvirkjun hefur frá upphafi matsferils lagt áherslu á að verið sé að meta virkjunina óháð kaupanda að orkunni. Stuðningur við Kárahnjúkavirkjun eina og sér, þ.e. án álvers á Reyðarfirði, væri hverfandi á Austurlandi. Því leggur Landsvirkjun allt kapp á að afla sér virkjunarheimilda áður en fjara kynni undan Reyðaráli hf. Orka frá Kárahnjúkavirkjun yrði þá boðin öðrum og nógir virðast um hituna nú þegar, svo sem Norðurál og ÍSAL. Inn í þetta spilar líka endurskoðun raforkulaga og breyting á stöðu Landsvirkjunar í kjölfarið.
  10. Líkleg framvinda NORAL með tilliti til orkuöflunar, - óháð væntanlegum úrskurði um mat á álverksmiðju Reyðaráls hf. Undirritaður telur líklegt að dragast muni í að minnsta kosti eitt ár, þ.e. frá 1. febrúar 2002 fram á árið 2003, að fyrir liggi niðurstaða samstarfsaðila að NORAL-verkefninu um það, hvort í framkvæmdir verði ráðist. Norsk Hydro mun ekki telja það þjóna sínum hagsmunum að stíga endanlega út úr verkefninu fyrr en í lengstu lög. Fjölmargt getur haft áhrif á frekari framvindu stóriðjumála hérlendis svo sem almenningsálitið á Íslandi, afstaða eigenda Landsvirkjunar, Kyótó-bókunin og útfærsla hennar, Rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma, útfærsla þjóðgarðshugmynda, stjórnmálaþróunin og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi.

Deilurnar um stóriðjustefnuna og verndun hálendisins eru rétt að byrja.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim