Hjörleifur Guttormsson 30. apríl 2001

Skammsýn orkupólitík stjórnvalda

Ummæli umhverfisráðherra

Í plaggi sem umhverfisráðherra lagði fram á Umhverfisþingi í janúar síðastliðnum og ber yfirskriftina Sjálfbær þróun á nýrri öld segir í kafla um endurnýjanlega orkugjafa:

"Ísland býr yfir gífurlegum orkuauðlindum, einkum í formi jarðhita og vatnsorku...Við nánari skoðun telur Orkustofnun líklegt að til lengdar megi virkja 35-40 TWs/ári [terawattstundir á ári] á hagkvæman hátt. Í þessu mati hefur ekki verið tekið tillit til brottfalls vegna náttúruverndar, og því hefur oft verið talað um 30TWs/ári sem líkleg efri mörk fyrir nýtanlega vatnsorku. Sjálfbær orkuvinnsla úr háhita hefur verið metin um 20 TWs/ári miðað við núverandi tækni og reynslu."

Röng skilaboð

Við ofangreind ummæli umhverfisráðherra er margt að athuga. Tölurnar sem ráðherrann ber Orkustofnun fyrir eru að vísu kunnuglegar. Stofnunin hefur hækkað dálítið mat sitt á vatnsaflinu á síðustu áratugum þannig að heildartala frá henni er 55-60 terawattstundir á ári. Að mínu mati gefur þessi tala ekki tilefni til fyrirsagna eins og "gífurlegar orkuauðlindir" en slíkar upphrópanir hafa lengi verið á sveimi í stjórnmálaumræðu hérlendis. Í alþjóðlegu samhengi er hér aðeins um dropa í hafið að ræða, sem litlu sem engu máli skiptir. Öðru máli gegnir um gildi íslenskra orkulinda fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga. Innlend orkuframleiðsla er þegar gildur þáttur í lífskjörum þjóðarinnar og orkulindirnar ákveðin trygging og auðlind til framtíðar litið. Öllu skiptir hins vegar að mat á nýtingarmöguleikum sé raunsætt og taki tillit til heildarhagsmuna, þar á meðal náttúruverndar og annarrar landnýtingar.

Gjörbreytt staða

Lengi vel voru verkfræðilegar athuganir á vatnsafli hérlendis nær einráðar og lítið hugsað um áhrif virkjana á náttúrufar og aðra landnýtingu. Staðan fyrir aldarfjórðungi var lýsandi fyrir einhliða nálgun en þá voru meðal nýtingarkosta sem haldið var fram í fullri alvöru virkjun Gullfoss, Dettifoss og Þjórsárvera svo dæmi séu nefnd. Fyrirsagnir um gífurlegar orkuauðlindir og hugmyndir um stóriðju í krafti þeirra urðu til við þessar aðstæður. Síðan hefur margt breyst. Mat á áhrifum stórframkvæmda á náttúru og umhverfi hefur þróast stig af stigi. Stórkostleg breyting hefur orðið í viðhorfum almennings til óbyggðanna og á nauðsyn náttúru- og umhverfisverndar. Ýmsir stjórnmálamenn og framkvæmdaaðilar eru hins vegar enn fastir í gömlu fari og hamra á stóriðju líkt og fyrir aldarfjórðungi.

Náttúruvernd og hægfara nýting

Vegna sívaxandi þunga umhverfisverndarsjónarmiða er óskynsamlegt að leggja mikið upp úr ofangreindum tölum um stærð "hagkvæmra" orkulinda hérlendis. Við áætlanir um raforkuframleiðslu á 21. öldinni ætti að minnsta kosti að deila í þær tölur með tveimur, sem þýddi að svigrúm væri til að framleiða hér 25-30 teravattstundir af raforku í krafti vatnsafls og jarðvarma í aldarlok. Þess utan kunna aðrir orkugjafar eins og vindorka smám saman að koma við sögu í auknum mæli. Nú eru framleiddar tæpar 8 terawattstundir raforku hérlendis árlega, þannig að eftir stæðu þá nálægt 20 teravattstundir sem hægt væri að nýta til viðbótar, m.a. til að sinna vexti almenns raforkumarkaðar og til að stuðla að vetnissamfélagi og útrýmingu á innfluttu jarðefnaeldsneyti. Í ljósi þessa eru stóriðjuhugmyndirnar sem verið hafa til umræðu undanfarið óðs manns æði. Lágmarkskrafa hlýtur að vera að tími gefist til víðtæks og vandaðs mats á því hvert skynsamlegt sé að stefna, meðal annars að ljúka vinnu við þá rammaáætlun sem stjórnvöld hafa kynnt sem sína leið til að sætta andstæð sjónarmið og forgangsraða sókn í vatnsafl og jarðvarma til framtíðar litið.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim