Hjörleifur Guttormsson 31. október 2001

Viðbótargögn um Kárahnjúkavirkjun

Breyta efnislega engu frá matsskýrslu Landsvirkjunar.
Úrskurður Skipulagsstofnunar á að standa óhaggaður.

Þetta er niðurstaða undirritaðs eftir að hafa kynnt sér kærugögn Landsvirkjunar til umhverfisráðherra frá 4. september og 12. október 2001. Í niðurstöðu athugasemda sem ég hef sent umhverfisráðherra stendur eftirfarandi:

Þrátt fyrir allmikið umfang þessara gagna bætir innihald þeirra efnislega litlu við þá mynd af umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar sem dregin var upp í matsskýrslu Landsvirkjunar í maí 2001.

Vakin er athygli á líklegu vanhæfi umhverfisráðherra til að úrskurða í kærumálum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Þá staðfesta framlögð gögn Lansdvirkjunar það sem undirritaður hefur áður vakið athygli á, að efnahagsleg áhrif framkvæmdar eru ekki hluti af mati á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Með því er fallinn helsti burðarás í matsskýrslu Landsvirkjunar sem réttlæta átti öll náttúruspjöllin.

Eftir stendur óhaggað að Kárahnjúkavirkjun er óafturkræf framkvæmd sem hefði í för með sér gífurlega umhverfisröskun á Fljótsdalshéraði og hálendinu suður undir Vatnajökul. Á mælikvarða laga nr. 106/2000 myndi virkjunin valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og það meiri en nokkur önnur framkvæmd sem hugmyndir hafa komið fram um hérlendis. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 þar sem lagst er gegn virkjuninni hlýtur því að standa óhaggaður.

Athugasemdir mínar til umhverfisráðherra fara hér á eftir í heild sinni:


Umhverfisráðuneytið
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra
Vonarstræti 4
150 Reykjavík

Efni: Athugasemdir "vegna gagna sem hafa að geyma nýjar upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, allt að 750 MW", sbr. auglýsingu ráðneytisins 3. október 2001.

Efnisyfirlit:

  1. Nýtt matsferli á vegum umhverfisráðuneytis
  2. Óðagotið í mati á Kárahnjúkavirkjun
  3. Kárahnjúkavirkjun óháð orkukaupanda
  4. Vogarskála-aðferð Landsvirkjunar og umsögn VBB-VIAK
  5. Vanhæfi umhverfisráðherra
  6. Óafturkræf framkvæmd - ekki vistvæn orka
  7. Engar mótvægisaðgerðir við Hálslón duga
  8. Samveita jökulánna óréttlætanleg
  9. Vistkerfi og umhverfi Lagarfljóts og Jöklu
  10. Óvistvænar uppgræðsluhugmyndir
  11. Landslag og víðerni
  12. Skerðing fossa og straumvatna
  13. Vatnalíf og gróður
  14. Þjóðgarður og ferðaþjónusta
  15. Núllkostur
  16. Rammaáætlun og framferði stjórnvalda
  17. Samfélagsleg áhrif
  18. Efnahagsleg og þjóðhagsleg áhrif
  19. "Þættir sem hafa litla þýðingu"
  20. Vistgerðir á ofanverðum Múla og Hraunum
  21. Niðurstaða

Fylgiskjal: Athugasemdir undirritaðs til Skipulagsstofnunar, dags. 14. júní 2001, vegna matsskýrslu Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun

1. Nýtt matsferli á vegum umhverfisráðuneytis

Ástæða er til að gagnrýna þá málsmeðferð umhverfisráðherra að efna til nýs matsferlis um Kárahnjúkavirkjun á vegum ráðuneytisins með því að taka við nýjum gögnum frá framkvæmdaraðila og veita honum ítrekað fresti til að skila inn viðbótargögnum. Ekki er gert ráð fyrir slíkri málsmeðferð í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og hún setur lögformlega málsmeðferð úr skorðum. Í stað þess að hefja nýtt matsferli hefði umhverfisráðherra, eða annar tilkvaddur teldi ráðherra sig vanhæfan, átt að taka efnislega á fyrirliggjandi kærum. Málsmeðferð sem hér er efnt til er ekki síst tvísýn þegar litið er til umfangs málsins en einnig vegna fordæmisgildis og réttarstöðu framvegis í hliðstæðum málum. Teldi ráðherra þörf á nýju matsferli var honum í lófa lagið að úrskurða þannig að framkvæmdaraðila væri gert, ef honum svo sýndist, að leggja fram nýja matsskýrslu sem farið hefði í markaðan farveg samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

2. Óðagotið í mati á Kárahnjúkavirkjun

Matsferli vegna Kárahnjúkavirkjunar hefur frá upphafi einskennst af óðagoti og tímaþröng sem bitnað hefur á eðlilegri málsmeðferð og umfjöllun um þetta stórmál. Tímaáætlun Landsvirkjunar var þegar við mótun matsáætlunar gagnrýnd af undirrituðum og mörgum öðrum. Sú staða sem nú liggur fyrir hefur staðfest réttmæti þessarar gagnrýni, ekki síst sá reytingur af "ítarlegri gögnum" sem Landsvirkjun hefur verið að senda ráðuneytinu í framhaldi af kæru sinni. Fyrirtækið ber ásamt stjórnvöldum alla ábyrgð á því að tími til undirbúnings mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar skuli hafa verið metinn algjörlega óraunsætt og gefur það ekki tilefni til sérmeðferðar eftir á eins og ráðuneytið er nú að efna til. Það breytir hins vegar ekki þeirri niðurstöðu sem Skipulagsstofnun hefur komist að í úrskurði sínum.

3. Kárahnjúkavirkjun óháð orkukaupanda

Tvískinningur hefur verið í málafylgju framkvæmdaraðila frá upphafi. Óskað hefur verið formlega eftir mati á Kárahnjúkavirkjun óháð því hvaða fyrirtæki yrði kaupandi raforku frá virkjuninni og hvar slíkur kaupandi yrði staðsettur. Jafnhliða hefur málið verið rekið undir formerki NORAL-verkefnisins, sem gerir ráð fyrir að orka frá Kárahnjúkavirkjun verði seld álverksmiðju á Reyðarfirði í eigu Reyðaráls hf. Síðartalda samhengið fléttast inn í matsskýrslu Landsvirkjunar og viðbótargögn, m. a. "minnisblöð" nr. 16. og 17. með stjórnsýslukæru "Greinargerð um efnislega þætti" frá 4. september 2001. Óvíst er að nokkurntíma verði reis álverksmiðja á Reyðarfirði. Hins vegar eru stjórnvöld um þessar mundir að plægja akurinn fyrir álverksmiðjur annars staðar á landinu, nú síðast við Eyjafjörð. Landsvirkjun vill geta ráðstafað raforku frá Kárahnjúkavirkjun hvert á land sem er að fengnum tilskyldum leyfum. Margir Austfirðingar hafa stutt undirbúning Kárahnjúkavirkjunar í samhengi NORAL-verkefnisins þrátt fyrir miklar umhverfisfórnir. Ólíklegt verður að telja að þeir hinir sömu myndu styðja framkvæmdina ef selja ætti orku frá virkjuninni út fyrir fjórðunginn. Málatilbúnaður Landsvirkjunar og stjórnvalda er að þessu leyti ósiðlegur og ótækur.

4. Vogarskála-aðferð Landsvirkjunar og umsögn VBB-VIAK

Vísað er til töluliðar 3 í athugasemdum undirritaðs til Skipulagsstofnunar dags. 14. júní 2001. Þar bendi ég á að aðferðafræði og niðurstaða Landsvirkjunar í matsskýrslu sé andstæð lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ekki sé lagastoð fyrir að meta meintan efnahagslegan ávinning af Kárahnjúkavirkjun á móti umhverfisspjöllum af framkvæmdinni. Undir þetta sjónarmið er í raun tekið í minnisblaði 21 frá VBB-VIAK: Comments regarding EIA Report Requirements - overall Content, Economic Assessment and Alternatives. Þar segir m.a. í íslenskri þýðingu Einars S. Arnalds, í kafla 5 Efnahagslegt mat á umhverfisáhrifum:

"Vegna [þessara] athugasemda var það tekið til athugunar að fella efnahagslegt mat inn í matið á umhverfisáhrifum en niðurstaðan varð sú að slíkt mat væri utan þess sviðs sem tekur til mats á umhverfisáhrifum. Í viðauka 24 við skýrsluna um mat á umhverfisáhrifum er nánar greint frá þeim rökum sem lágu að baki þessari ákvörðun. Eftirfarandi texti er úr þessum viðauka: " ... Því er það álit margra hagfræðinga og umhverfisverndarsinna að efnahagslegt mat á umhverfisáhrifum (t.d. skilyrt verðmætamat) innan kostnaðar-nytjagreiningar hafi ekkert gildi, og að ef vega eigi umhverfisáhrif á móti hagfélagslegum áhrifum ætti að gera það á öðrum forsendum en tölulegum

Að því er varðar lög um umhverfismat ber að geta þess að engin ákvæði eru um efnahagslegt mat á umhverfisáhrifum í Evrópurétti né í evrópskum reglum um góð vinnubrögð við gerð umhverfismats ... Niðurstaðan er því sú að mat á umhverfisáhrifum á fjárhagslegum grunni sé utan við svið umhverfismatsins í tengslum við Kárahnjúkavirkjun, bæði með hliðsjón af lögum og góðum vinnubrögðum við mat á umhverfisáhrifum"." [s. 5-6 í minnisblaði 21] ...
Síðar segir (s. 7-8):
"... Það ber að ítreka það að fjárhagslegt mat hefur ekki tíðkast á Íslandi og annars staðar í Evrópu við mat á umhverfisáhrifum og athugasemdir Skipulagsstofnunar [við tillögu að matsáætlun og í febrúar 2001] gáfu til kynna að ekki væri krafist fjárhagslegs mats ... Á grundvelli góðra vinnubragða við mat á umhverfisáhrifum, bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu, og með samráðsskjöl frá Skipulagsstofnun í huga, var komist að þeirri niðurstöðu að efnahagslegt mat á umhverfisáhrifum lægi utan sviðs mats á umhverfisáhrifum."
Ekki er hægt að orða það skýrar en hér er gert af þessum erlenda aðalráðgjafa Landsvirkjunar Helenu Dahlgren-Craig, að lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og Evrópuréttur sem þau eru í einu og öllu reist á gerir ekki ráð fyrir að meintur efnahagslegur ávinningur sé hluti af mati á umhverfisáhrifum eða sé notaður til að vega á móti umhverfisáhrifum í skilningi laganna. Það gerir þó Landsvirkjun að burðarási í sinni matsskýrslu.

5. Vanhæfi umhverfisráðherra

Það blasir við að umhverfisráðherra sem aðili að ríkisstjórn sem hefur gert NORAL-verkefnið að sínu hjartans máli er vanhæfur til að úrskurða í kærumáli því sem hér um ræðir. Ætti því fyrr en seinna að leita annarra réttarúrræða. Því fyrr sem ráðherrann gerir sér grein fyrir þessu þeim mun betra fyrir alla málsaðila.

6. Óafturkræf framkvæmd - ekki vistvæn orka

Þau gögn og greinargerðir sem Landsvirkjun hefur lagt inn í tengslum við stjórnsýslukæru breyta engu um það meginatriði að Kárahnjúkavirkjun er óafturkræf og ósjálfbær framkvæmd. Afleiðing þess er meðal annars að orka frá virkjuninni getur ekki fallið undir skilgreiningar sem sjálfbær eða endurnýjanleg vistvæn orka og Kárahnjúkavirkjun uppfyllir því engan veginn þá fyrirvara sem ætlað er að fylgji "íslenska ákvæðinu" sem stjórnvöld vænta að fá samþykkt sem hluta af Kyótóbókuninni. Af því leiðir að öll losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjum sem gengju fyrir orku frá Kárahnjúkavirkjun yrði að skrifast á almennar losunarheimildir Íslands.
Flokkun höfunda greinargerðar Landsvirkunar á umhverfisáhrifum í þrennt (Mikilvægustu þættir matsins. Aðrir þættir matsins. Þættir sem hafa litla þýðingu) er afar misvísandi og gagnrýniverð. Sést það meðal annars ef litið er á efnisyfirlit á síðu 1 og hvað talið er upp undir "Aðrir þættir matsins" en þar eru undirfyrirsagnir m.a.: Sjónræn áhrif og ósnortin víðerni; Ferðamál, útivist og þjóðgarðshugmyndir; Hreindýr; Fossar; Sethjallar í Hálslóni. Ef eitthvað er undirstrikar þessi upptalning þau gífurlegu og fjölþættu áhrif sem leiða af þessari virkjunarhugmynd. Sjá einnig tölulið 19, "Þættir sem hafa litla þýðingu".

7. Engar mótvægisaðgerðir við Hálslón duga

Hálslón sem uppistaða í virkjunarhugmyndinni er óafturkræf framkvæmd. Það yfirklór sem birtist í framsettum hugmyndum um mótvægisaðgerðir undirstrikar enn frekar en áður þá gífurlegu umhverfisröskun sem lónið leiðir af sér og hversu vonlaust er að ætla með tæknilegum aðgerðum að fyrirbyggja áfok, uppblástur og gróðurskemmdir út frá bökkum þess. Samanburður við önnur miðlunarlón hérlendis eins og t.d. Blöndulón er ekki marktækur þar eð um allt aðra og meiri vatnsborðssveifu yrði að ræða, auk þess sem samsetning og þykkt jarðvegs er önnur við Hálslón en á Eyvindarstaðaheiði. Þar við bætast aðrar veðurfarsaðstæður með langtum minni úrkomu á Vesturöræfum/Kringilsárrana en á heiðum í Húnavatnssýslum eða á Miðhálendinu sunnan jökla. Því er ekki hægt að yfirfæra "reynsluniðurstöður frá eldri lónum Landsvirkjunar" yfir á Kárahnjúkavirkjun. Framlagðar skýrslur sérfræðinga um þessi efni undirstrika ef eitthvað er óvissuna um hvort takast megi með miklum tilkostnaði og tæknibúnaði að komast hjá stórfelldum gróðurskemmdum í grennd við lónið og á Vesturöræfum. Fram kemur að ekki er á erlendri reynslu að byggja í þessu efni og reynslan hér á landi er stutt að því er Blöndulón varðar og aðstæður ekki sambærilegar. Fullyrt er að vandamálin verði mun minni þegar síðari áfanga Kárahnjúkavirkjunar væri lokið. Hafa ber í huga að engar ákveðnar tímasetningar eru um þá framkvæmd og raunar óvissa um hvort í síðari áfanga verði ráðist svo margt sem gegn honum mælir, bæði að því er varðar umhverfisáhrif og litla viðbót í orkuvinnslu.

Um óvissu og áhættu því samfara að ætla að treysta á "líffræðilegar" mótvægisaðgerðir til viðbótar við "varnargarð fyrir sandfok" sem hugmyndir eru um að byggja, þarf ekki annað en lesa minnisblað umhverfissviðs RALA um það efni. Þar koma fram fjölmargir óvissuþættir og fyrirvarar, m. a. þörf á umfangsmiklum rannsóknum og óvissa um óæskilegar gróðurbreytingar í kjölfar áburðargjafar.

"Því er hætta á að áburðargjöf skili ekki tilskyldum árangri og hafi jafnvel neikvæð áhrif ef ekki er rétt að henni staðið."
Hvernig rétt sé að standa að áburðargjöf til að minnka hættu á að hún hafi neikvæð áhrif er að mati RALA háð niðurstöðu rannsókna sem ekki eru hafnar og taka langan tíma. Þá er bent á að
"áburðargjöf getur dregið að sér sauðfé og aukið beit og þar með haft neikvæð áhrif. Því er mikilvægt að kanna leiðir til friðunar þess svæðis sem næst er lóninu. Einnig verður að kanna betur tengsl áburðar við beit hreindýra og gæsa."
Ekki er ljóst hvernig friða ætti uppgræðslusvæði fyrir fuglum og hreindýrum.

Vegna sauðfjárbeitar segir:
"Slík friðun er flókið og tímafrekt ferli sem vinna þarf að í góðri sátt við landeigendur. Kanna þarf möguleika til að friða stór samfelld svæði, m.a. Vesturöræfi í heild, sem væri mikilvægt fyrir þessi vistkerfi sem standa svo hátt. Kanna þarf samspil slíkra aðgerða og beitar hreindýra og atferlis þeirra"
... o.s.frv.! Settar eru fram í 9 liðum "Tillögur um rannsóknir til að styrkja forsendur líffræðilegra varnaraðgerða" og sérstaklega tekið fram að um langtímarannsóknir sé að ræða sem miðað sé við að standi að lágmarki í 15 ár. Hafa ber í huga að áætlun framkvæmdaraðila gerir ráð fyrir að virkjun með Hálslóni sé komin í gagnið árið 2006! Ekki er fjallað um áhrif af veðurfarssveiflum á "líffræðilegar varnaraðgerðir" en augljóst er að köld ár geta gert ræktunaraðgerðir eins og þarna eru til umræðu að engu.

Undirritaður telur sig þekkja allvel það svæði sem hér um ræðir, gróðurfar og vaxtarskilyrði. Að mínu mati eru hugmyndirnar um mótvægisaðgerðir gegn áfoki við Hálslón á heildina litið svo langsóttar að fátt ef nokkuð er til samjöfnuðar og auk þess líklegar til að skapa fleiri vandamál en þeim er ætlað að leysa. Eitt slíkt er stöðug umferð af vöktun og skark og hávaði af tækja- og vélbúnaði meðfram strandlengju lónsins og það einkum að vori og fyrripart sumars þegar lífríki, hreindýr og fuglar eru viðkvæmastir fyrir truflun. Tillögur framkvæmdaraðila í matsskýrslu og framlögðum viðbótargögnum geta engan veginn talist frambærilegar sem mótvægisaðgerðir gegn augljósri vá sem stafar af áfoki og uppblæstri við Hálslón.

8. Samveita jökulánna óréttlætanleg

Vatnaflutningarnir miklu sem felast í að veita Jöklu austur í Fljótsdal og Lagarfljót og Jökulsá í Fljótsdal vestur í Hálslón eru óréttlætanlega aðgerð hvernig sem á hana er litið. Siðferðilega geta menn ekki tekið sér þann rétt að breyta náttúrulegu vatnafari eins og hér er að stefnt með þeirri fjölþættu og sumpart ófyrirsjáanlegu röskun á náttúrufari sem því fylgdi. Jafna má slíku við umhverfisglæp sem ekkert stjórnvald hefur rétt til að fremja. Fallið hafa hörð orð um slíkar aðgerðir á fyrri tíð erlendis, meðal annars samveitur stórfljóta í Síberíu á sovéttímanum sem nú eru almennt fordæmdar. Íslendingar ættu að varast að feta í þau fótspor og til þess standa engin rök að níðast þannig á náttúru landsins.

9. Vistkerfi og umhverfi Lagarfljóts og Jöklu

Landsvirkjun staðhæfir sem fyrr að vegna fyrri áfanga virkjunar yrði meðalvatnshæð yfir sumarmánuðina um 15-20 cm hærri eftir fyrri áfanga virkjunar en fyrir virkjun en svipuð eða lægri að loknum síðari áfanga. Hér er um meðaltöl að ræða sem segja ekki hálfa sögu. Þess utan er aðeins fjallað um áhrif "yfir sumartímann" rétt eins og aukið rennsli að vetrarlagi skipti ekki máli. Undirritaður hefur áður bent á þau vandamál sem skapast geta með ströndum Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts vegna ísrasta að vetrarlagi við hækkaða vatnsstöðu. Áhrif af breyttri grunnvatnsstöðu eru nú sem áður talin geta náð um 500 metra út frá farvegi beggja vegna með tilheyrandi gróðurfars- og lífríkisbreytingum.

Áhrifin á Jöklu verða einnig geysimikil neðan stíflu til ósa og birtast í takmörkuðu og mjög ójöfnu rennsli. Sú Jökla sem nú setur mestan svip á Jökuldal með þeysingi sínum að sumarlagi myndi heyra sögunni til. Hugmyndir um að þetta korgugasta jökulfljót landsins breytist í bergvatnsá, jafnvel með fiskræktarskilyrðum, eru hins vegar úr lausu lofti gripnar og ekki frá framkvæmdaraðila komnar.

Ótalið er þá það sem mestu skiptir en það eru áhrifin á vistkerfi Lagarfljóts og ásýnd Fljótsins. Í matsgögnum er, eins og ég hef áður gert athugasemdir við (töluliður 18, 14. júní til Skipulagsstofnunar), lítið gert úr þessum áhrifum og því sem í húfi er, m. a. veiði í Lagarfljóti. Ekkert nýtt er um þetta að finna í "ítarlegri gögnum", nema ef telja ætti þar til "aurskolun úr Ufsarlóni" sem flokkað er með "Þáttum sem hafa litla þýðingu"! Þar er þó um að ræða síendurtekna aðgerð á 1-2ja ára fresti , sem valda mun jafnvel vikum saman mikilli framburðarmengun í Fljótinu, draga úr gegnsæi og gera Fljótið enn korgugra á meðan á aurskolun stendur en hlytist af veitunni frá Jöklu einni saman.

"Rétt er að leggja áherslu á að ekki verður um aurflóð að ræða þegar skolað verður út úr lóninu heldur er um að ræða rennsli vatns með háum styrk af aur ..."
lesum við í minnisblaði 9 "Aurskolun úr Ufsarlóni". Ekki er ónýtt að fá slíkar "ítarlegri upplýsingar" en tveir doktorar eru skrifaðir fyrir plagginu.

Undirritaður er ósammála því sjónarmiði sem fram kemur í minnisblaði 13 frá Náttúrufræðistofnun Íslands að ekki hafi verið eðlilegt að ráðast í rannsóknir á frumframleiðslu Lagarfljóts fyrr en "... í tengslum við vöktun á lífríki fljótsins ef ákvörðun verður tekin um framkvæmdir." Með þessu er verið að afskrifa þýðingarmikinn þátt sem auðvitað átti að liggja fyrir við mat á umhverfisáhrifum en ekki eftir á. Um þetta segir í umræddu minnisblaði m.a.:
" ... vill Náttúrufræðistofnun Íslands benda á að með sýnatöku á nokkrum stöðum í Lagarfljóti sem stæði frá vori fram á haust væri hægt að fá góða nálgun á hversu mikil frumframleiðsla er í fljótinu. Jafnframt mætti fá góða hugmynd um hver magnbundin áhrif Kárahnjúkavirkjunar yrðu á framleiðsluna. Þær rannsóknir sem hér er drepið á eru dýrar og umfang þeirra kynni að vera álíka og allar þær rannsóknir á vatnalífi sem framkvæmdar voru í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar sumarið 2000. Þær eru hins vegar ein helsta forsenda þess að hægt sé að meta með meiri vissu áhrif virkjunar á vatnalíf í lagarfljóti, þar með talda fugla...".
Það ber nýrra við ef sparnaðarhugmyndir eru farnar að ráða ferðinni í nafni Landsvirkjunar í tengslum við Kárarhnjúkavirkjun!

10. Óvistvænar uppgræðsluhugmyndir

Fram kemur í viðbótargögnum, sbr. 4. 3 Uppgræðsluaðgerðir og landbætur, að "Landsvirkjun telur sanngjarnt að fyrirtækið komi að almennum aðgerðum í landbótum á svæðinu til að vega á móti áhrifum Hálslóns á gróður og vistgerðir". Í því sambandi er talað um áburðargjöf m.a. á aura Jökulsár á Dal í Jökulsárhlíð og Hróarstungu, áreyrar sama vatnsfalls milli Hvannár og Hjarðarhaga, áreyrar neðan Hnitasporðs og að bera á rofjaðra, moldir og mela ofan við samfelldan gróður í dölum og daladrögum á Vesturöræfum og í Brúardölum og ofan við Brú. - Hér eru á ferðinni fyrirætlanir sem óvíst er að skili því sem menn kunna að hafa í huga. Áburðargjöf á úthaga og mela getur ekki talist vistvæn aðgerð og spurning um hvert er markmiðið með slíku. Uppgræðsla með árlegri áburðargjöf á heiðalönd í Húnavatnssýslu ættu að vera mönnum víti til varnaðar. Sé um ofbeit að ræða og afleiðingar hennar þarf að bregðast við með því fyrst og fremst að takmarka beitarálag.

11. Landslag, víðerni og jarðmyndanir

Í matsskýrslu Landsvirkjunar kemur fram afar lítill skilningur á gildi óraskaðs landslags og víðerna og áhrif virkjunarframkvæmda á landslag og jarðfræðiminjar. Kom fyrir ekki að í sérfræðiskýrslu S30 með matsskýrslu eftir Sigmund Einarsson (Jarðfræðilegar náttúruminjar á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, 52 bls., útdráttur í V14) voru þessir þættir dregnir skýrt fram en rötuðu í litlum mæli inn í sjálfa matsskýrsluna. Að mati undirritaðs bíður ímynd alls svæðisins frá Hraunum vestur undir Kverká og Kreppu stórfelldan hnekki og takmarkast það ekki við bein mannvirkjasvæði og næsta nágrenni þeirra heldur tekur til svæðisins sem heild. Viðhorf til jarðfræðiminja kemur m. a. fram í þeirri "huggun" í viðbótagögnum að rannsaka megi sethjallana í lónstæði Hálslóns, áður en þeim verði sökkt. Rannsóknir á slíkum nátúrufyrirbærum og því sem þau hafa að geyma fara ekki fram í eitt skipti fyrir öll, en sethjallarnir eru taldir búa yfir merkri sögu m. a. um loftslagsbreytingar auk þess sem þeir búa yfir stórkostlegum formum, þar sem sjón er sögu ríkari.

Gagnlegt er yfirlit frá Náttúrufræðistofnun í minnisblaði 13 (s. 13) um áhrif á landslag og verndargildi og dregur það yfirlit) vart úr niðurstöðu Skipulagsstofnunar í úrskurði hennar frá 1. ágúst 2001 um Kárahnjúkavirkjun.

12. Skerðing fossa og straumvatna

Framkvæmdaraðila er ekki ljóst hvað Skipuagsstofnun finnist vanta á upplýsingar um áhrif virkjunarinnar á fossa. Til að bæta úr þessu "... fylgir hér á eftir yfirlit yfir umfjöllun ofangreindrar sérfræðiskýrslu um fossa og breytingar á rennsli í þeim. Einnig er til glöggvunar sett fram tafla með yfirliti fossa, helstu breytingar sem verða á rennsli í þeim og möguleika á að stýra rennsli um fossana þegar séð verður að Hálslón muni fyllast." - Hér er að finna lýsandi dæmi um þau "ítarlegu gögn" sem fylla tvær þykkar möppur, en eru þegar innihaldið er skoðað harla lítil viðbót við efni matsskýrslu. Reynt er að draga fjöður yfir gífurlega skerðingu á fossasafni Austurlands en virkjunin skerðir eða tekur fyrir rennsli í á annað hundrað fossum. Þannig eru t.d. Keldurárfossar hátt í 20 talsins sameinaðir undir einu heiti í töflu, sleppt að minnast á fossa í mörgum ám á Hraunum og Jónsfoss einn nefndur úr Bessastaðaá. - Þá er það umhugsunarefni að hér eru menn komnir út í hugmyndafræði "túristabununnar", þ.e. ræða möguleika á að stýra rennsli um fossa eftir virkjun. Slíkt var rætt að því er Gullfoss varðar fyrir 20-30 árum en slík umræða hefur hljóðnað nokkuð síðan.

13. Vatnalíf og gróður

Áður hefur verið minnst á vanmetið vistkerfi Lagarfljóts. Í yfirliti með "ítarlegri gögnum" framkvæmdaraðila (6.4) eru áhrif á lífríki í vötnum tekin sem dæmi um "staðbundin áhrif sem verða að teljast lítil í víðara samhengi" miðað við vægi þeirra í umfjöllun Skipulagsstofnunar og úrskurð. Um vatnasvið Jöklu segir Landsvirkjun m. a.:

"Þessi áhrif eru staðbundin, en geta að mati Landsvirkjunar engan veginn talist tiltökumál í víðara samhengi, t. d. á landsvísu."
Annað dæmi úr viðbótarefni Landsvirkjunar (6.4) þar sem segir:
"Ef hafður er í huga sá fjöldi vatna, áa og lækja sem er að finna á Fljótsdalsheiði verður ekki hjá því komist að álykta að þó að staðbundin áhrif á veituvötnin sjálf geti verið mikil, þá séu þessi áhrif lítil á héraðsvísu og óveruleg á landsvísu." -
Spyrja má hvaða tilgangi þjóni að setja svona rugl á blað sem í "greinargerð um efnislega þætti". Viðkomandi hafa ekki haft fyrir því að setja sig inn í eigin skýrslur um vatnalíf, m.a. ágætt verk Hilmars J. Malmquist sem fylgdi upphaflegri matsskýrslu eða umfjöllum Skúla Skúlasonar skólastjóra á Hólum um sama efni á vettvangi Landsverndar (sjá heimsíðu) síðastliðið vor. - Sparðatíningur framkvæmdaraðila úr minnisblaði 13 frá Náttúrufræðistofnun Íslands virðist þjóna þeim tilgangi einum í þessum viðbótargögnum að draga fjöður yfir stórfelld áhrif virkjunarframkvæmdanna á lífríki, ekki síst gróður.

14. Þjóðgarður og ferðaþjónusta

Umfjöllun matsskýrslu Landsvirkjunar um þjóðgarð og ferðaþjónustu var afar visin og beindist öll í þá átt að saman gæti farið virkjun og stofnun þjóðgarðs. Viðbótargögn bæta hér engu við ef frá er talið minnisblað 18, athugasmdir Landmótunar vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar. Efni þess er lítið annað en ítrekun á fyrri sjónarmiðum í sérfræðiskýrslu með matsskýrslu Landsvirkjunar. Ekkert er þar minnst á áhrif Kárahnjúkavirkjunar á fyrirhugaðan Vatnajökulsþjóðgarð og liggja þó fyrir tillögur um að víðernin norðan Vatnajökuls, frá Lónsöræfafriðlandi vestur í Vonarskarð verði hluti hans. Fjallað er nokkuð um tillögu NAUST um Snæfellsþjóðgarð en horft fram hjá þeirri staðreynd að sú tillaga gerði ráð fyrir að Hafrahvammagljúfur yrðu á vesturmörkum þjóðgarðsins og þar með hluti hans frá byrjun, hliðstætt Jökulsárgljúfrum í þjóðgarði sem við þau er kenndur.

Viðbótargögnin nú bæta engu við um áhrifin á framtíðarmöguleika ferðaþjónustu, þótt í minnisblaði 20 frá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sé vikið að því máli. Þar segir m. a. : "Umhverfismat Kárahnjúkavirkunar snýst nefnilega um þá lykilspurningu með hvaða hætti landsvæðið norðan Vatnajökuls skuli nýtt. Fallist Skipulagsstofnun á þá röksemdafærslu að virkjanir og ferðamennska séu sú nýting sem helst kemur til greina á umræddu svæði þarf stofnunin að taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti þetta tvennt geti farið saman.... Ef svo er ekki þarf að taka afstöðu til þess hvor skuli víkja fyrir hinum." - Þetta eru dálítið sérkennileg málafylgja í ljósi þess að úrskurður Skipulagsstofnunar fól í sér höfnun á Kárahnjúkavirkjun.

Í greinargerð framkvæmdaraðila (s. 18) frá 4. september 2001 segir:

"Hafa ber í huga að svæðið stendur mjög hátt og opnast þess vegna seint á sumrin fyrir ferðamenn vegna snjóa og aurbleytu. Segja má að tími hefðbundinnar ferðamennsku á áhrifasvæði Kárarhnjúkavirkjunar geti varla talist lengri en 6 vikur á ári, en veiðitími hreindýra stendur nokkuð lengur fram á haustið." -
Hér er hallað máli, því að virkjunarsvæðið sjálft getur ekki talist sérstaklega snjóþungt og ekki torsótt inn á það umfram það sem gerist um hálendissvæði hérlendis. Á vesturhluta svæðisins, þar á meðal við Hafrahvammagljúfur er fremur snjólétt. Nýtingartími fyrir ferðamennsku getur út frá veðurfarsaðstæðum talist allt að 3 mánuðir (frá miðjum júní fram í miðjan september) en ekki 6 vikur eins og þarna stendur.

Hljótt hefur verið um vinnu Náttúruverndar ríkisins fyrir verkefnisstjórn Rammaáætlunar um stofnun þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls en tillögur þar að lútandi hefðu eðlilega átt að vera til umfjöllunar á sama tíma og matið á hugmyndum um Kárahnjúkavirkjun.

15. Núllkostur

Framkvæmdaraðili ber af sér það mat Skipulagsstofnunar að umfjöllun hans um svonefndan núllkost hafi verið ábótavant í matsskýrslu. Þvert á móti sé hún "... algerlega fullnægjandi miðað við þær kröfur sem eðlilegt og sanngjarnt sé að gera til framkvæmdaraðila við gerð mats á umhverfisáhrifum." - Í ljósi þess að engin marktæk umfjöllun var um þróun á svæðinu án virkjunar (og álvers) heldur látnar nægja staðhæfingar um að allt stefndi norður og niður ef ekki yrði í stóriðjuframkvæmdir ráðist, verður ekki sagt að framkvæmdaraðili hafi sýnt mikinn metnað við að uppfylla þá kvöð sem á hann er lagður lögum samkvæmt að þessu leyti.

16. Rammaáætlun og framferði stjórnvalda

Í athugasemdum undirritaðs til Skipulagsstofnunar 14. júní 2001 var ítarlega fjallað um Rammaáætlun með tilliti til Kárahnjúkavirkjunar og hvernig stjórnvöld eru að gera eigin verkefni "Maður - Nýting - Náttúrua" að markleysu. Frá því í júní sl. hefur orðið ljósara en áður að stjórnvöld ætla að hafa Rammaáætlun að engu. Plantað er niður hverri álvershugmyndinni á fætur annarri, nú síðast á Dysnesi við Eyjafjörð, og iðnaðarráðherra nafngreinir virkjanakosti til að sjá slíkri verksmiðju fyrir raforku (Stafnsvötn, Skjálfandafljót og Þeistareykir)! Betur verður ekki lýst þeim leiktjöldum sem dregin voru upp með vinnu að Rammaátlun og má segja að nú sé tjaldið fallið. Í greinargerð 4. september segir Landsvirkjun m.a.:

"Það hefur verið ljóst af hálfu stjórnvalda að slík vinna [að undirbúningi virkjana] eigi ekki að bíða eða tefjast þar til niðurstöður liggja fyrir úr vinnu við rammaáætlun."
- Þá vita menn það.

17. Samfélagsleg áhrif

Lítið sem ekkert nýtt kemur fram í viðbótargögnum framkvæmdaraðila um samfélagsþætti umfram það sem fram kom í matsskýrslu. Þar var fyrst og fremst byggt á skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, sem fékk harða dóma af rýnum á vettvangi Landverndar sl. vor. Í minnisblaði 20 er umrædd stofnun (RHA) að verja sitt framlag frá því fyrr á árinu og undirstrikar m. a. mikla óvissu þegar um slíkt mat sé að ræða.

"Skipulagsstofnun tekur því ekki undir ábendingar RHA í skýrslu og ítrekanir í minnisblaði rannsóknastofnunarinnar um himinhá skekkumörk slíkra úrteikninga. Til stuðnings þessu áliti sérfræðinga HA má nefna að séu margfeldisáhrif af byggingu Kárahnjúkavirkjunar reiknuð miðað við þær forsendur að 15% starfsmanna séu svokallaðir heimamenn má fá út að við framkvæmdirnar verði til 680 ársverk á Austurlandi í afleiddum störfum. Sé hlutfall heimamanna lækkað í 10% og í stað þeirra notað erlent vinnuafl hverfa við það um 80 ársverk....Sé miðað við sýn RHA á samfélagsáhrif sem tækifæri eða möguleika til breytinga er ljóst að réttlæting virkjanaframkvæmda á þeim forsendum að þar sé um að ræða tryggan fjárhagslegan ávinning, hlýtur að vera erfið einfaldlega vegna hversu breytilegt samfélag manna er í eðli sínu og því örðugt að spá fyrir um þróun þess með óyggjandi hætti."
- Þessi texti eykur varla traust á spám um uppgang í kjölfar stóriðjuframkvæmda.

18. Efnahagsleg og þjóðhagsleg áhrif

Framkvæmdaraðili fjallar í minnisblaði 16 um arðsemi samninga Landsvirkjunar við Reyðarál og í minnisblaði 17 er að finna greinargerð frá Þjóðhagsstofnun um þjóðhagsleg áhrif. Fram kemur í minnisblaði 16 að fjárfesting Landsvirkjunar vegna orkuafhendingar til Reyðaráls að fjárfestingum í Kröflu og Bjarnarflagi meðtöldum nemi ríflega 100 miljörðum miðað við verðlag í mars 2001. Landsvirkjun staðhæfir að orkusamningar við Reyðarál og þar með arðsemi Kárahnjúkavirkjunar séu mjög hagstæðir. Landsvirkjun sýnir ekki hér frekar en áður á spilin að því er varðar orkuverð og ber við viðskiptaleynd en fjallar almennt um forsendur sem liggja eigi orkuverði til grundvallar. Lengra verði ekki gengið í svörum um efnahagslega þætti virkjunarinnar sjálfrar og arðsemi hennar en með þegar framlögðum gögnum.

Um síðara minnisblaðið segir Landsvirkjun m.a. í greinargerð 4. september 2001:

"Í minnisblaði 17 er staðfest og skýrt það sem áður hafði komið fram um þjóðhagsleg áhrif. Í lok kafla um ruðningsáhrif segir: "Niðurstöður matsins gefa til kynna að varanlegur árlegur þjóðar- og landsframleiðsuávinningur af Noral verkefninu verði um 10 miljarðar króna." Framkvæmdaraðili telur að ekki verði lengra gengið í svörum um þjóðhagsleg áhrif framkvæmdarinnar en gert hefur verið með framlögðum gögnum frá Þjóðhagsstofnun, þar með talið minnisblaði 17."
Í athugasemdum undirritaðs verður ekki fjallað frekar um þessa þætti þar eð þeir snerta að mínu mati ekki það efni sem hér er til umfjöllunar, mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, sbr.tölulið 4. Vekja verður athygli á að um þessi atriði er í minnisblöðum beggja, Landsvirkjunar og Þjóðhagsstofnunar, rætt um málið undir hatti NORAL-verkefnisins en ekki út frá þeirri staðreynd að Landsvirkjun fer fram á að fá grænt ljós á Kárahnjúkavirkjun óháð því hvert raforku frá henni yrði ráðstafað. Einnig að þessu leyti eru þessi málsgögn ómarktæk inn í það samhengi sem hér um ræðir. Jafnframt er rétt að minna enn einu sinni á að þjóðhagsstjóri og þar með Þjóðhagsstofnun er vanhæf í málinu, þar eð Þórður Friðjónsson er formaður viðræðunefndar stjórnvalda um NORAL-verkefnið!

19. "Þættir sem hafa litla þýðingu"

Millifyrirsögnin er sótt í "greinargerð um efnislega þætti" frá 4. september 2001. Undir þetta flokkar Landsvirkjun og vinnumenn hennar atriði eins og aurskolun úr Ufsarlóni og áhrif á lífríki í vötnum. Telja þeir að viðkomandi þættir "... hafi litla þýðingu vegna ákvarðana um framkvæmdina á grundvelli umhverfisáhrifa ..." (s. 5). Um aurskolun úr Ufsarlóni var fjallað hér á undan (tl. 9) og um vatnalíf (tl. 13). Undirritaður er ósammála þeirri hugsun sem hér er lögð til grundvallar. Hvert svæði á landinu er sérstætt og einstakt í sinni röð. Aurskolunin varðar vistkerfi Lagarfljóts sem hvergi á sinn líka. Hið sama gildir um vatnalíf, þar sem hvert vatn geymir sérstætt vistkerfi, þar á meðal lífverur sem geta verið einstæðar í stofnerfðafræðilegu tilliti. Skúli Skúlason vatnalíffræðingur, rektor Hólaskóla hafði sem rýnir hjá Landvernd sl. vor eftirfarandi orð um áhrif Kárahnjúkavirkjunar (fyrirlestur á heimsíðu Landverndar, dags. 19. júní 2001):

Nánast ekkert vatnakerfi á svæðinu verður óraskað. Áhrif af virkjuninni verða mjög mikil frá upptökum vatnakerfa til ósa.-Breytt rennsli jökulánna mun gjörbreyta því litla lífi sem í þeim er.

  • Lífríki nær allra áa svæðisins mun breytast með auknu eða minnkuðu rennsli.
  • Einangruðum stofnum lífvera verður útrýmt, eða þeir blandast öðrum stofnum.
  • Vistkerfi fisklausra vatna munu gjörbreytast vegna þess að fiskur mun berast í þau.
  • Ákaflega sérstöku lífríki Folavatns verður eytt með lónagerð.
  • Votlendi munu ýmist blotna eða þorna
  • Hið nýmyndaða Hálsalón mun verða nánast óbyggilegt lífverum vegna gífurlegra sveiflna í vatnsmagni, mikils aurburðar og engrar frumframleiðslu.
Menn ættu að varast að gera lítið úr stórum þáttum eins og hér um ræðir. Hins vegar sýnir tilraun Landsvirkjunar til flokkunar vel hvílíkt ógnarfyrirbæri Kárahnjúkavirkjun er í heild sinni.

20. Vistgerðir á ofanverðum Múla og Hraunum

Jákvætt er að skilað hefur verið skýrslu um Vistgerðir á ofanverðum Múla og Hraunum (Frekari gögn: B). Vistgerðakortið er unnið úr fyrirliggjandi gróðurkostlagningu og þannig ekki um nýjar rannsóknir að ræða. Niðurstaða Náttúrufræðistofnunar er að ráðgerð lón á svæðinu "...munu skerða töluvert nokkrar vistgerðir á ofanverðum Múla og hraunum ... Verndargildi þessa svæðis mun rýrna nokkuð þegar tekið er tillit til þeirra vistgerða sem munu raskast." (s. 15). Hins vegar telja höfundar ekki líklegt að sérstæðar eða fágætar vistgerðir raskist.

Undirritaður telur almennt verndargildi Hrauna vera hátt þegar litið er til svæðisins í heild, landslags, jarðfræði og lífríkis, og það hafi verið verulega vanmetið. Inngrip í svæðið eins og ráðgerð eru með Hraunaveitu eru afar neikvæð og á það m. a. við um ráðgert Kelduárlón sem sökkva myndi Folavatni. Framsetning í umræddri skýrslu þar sem segir að ekki sé líklegt að fágætar eða sérstæðar vistgerðir raskist við tilkomu Kelduárlóns o.s.frv. er verulega villandi fyrir almennan lesanda og í raun ótæk. Höfundar draga ekki fram þannig að skýrt sé að í Kelduárlón myndi tapast Folavatn, sem fjallað er um í skýrslunni Vatnalífríki á virkjanaslóð, höfundur Hilmar J. Malmquist, en hún fylgdi matsskýrslu Kárahnjúkavirkjunar (s. 2-3, ágrip; s. 174, verndargildi). Telur Hilmar Folavatn eitt frjósamasta stöðuvatnið á Hraunum og sérstætt m.a. að því leyti

"... að það er meðal örfárra stöðuvatna á Íslandi, jafnt á láglendi sem hálendi, sem ætti vegna dýpis, stærðar og frjósemi vel að geta hýst fisk en er samt fisklaust. Þannig vistkerfi eru mjög forvitnileg í vísindalegu tilliti ..."
Gefur hann vatninu samtölueinkunnina 13,0, sem er hátt gildi. Telur hann vísbendingar liggja fyrir um að vatnið gegni mikilvægu hlutverki sem matarkista og búsvæði fyrir ýmsar tegundir vatnafugla.

Stöðuvatn og umhverfi mynda ætíð ákveðna heild þar sem gróður umhverfis hefur grundvallaþýðingu fyrir vatnið. Ástæðan fyrir að í umræddri skýrslu virðist horft framhjá vatninu er trúlega sú að hún fjallar um vistgerðir gróðurs. Í kafla 5.2 stendur:
"Flokkun í vistgerðir tekur enn sem komið er ekki til ferskvatnsvisat en líklega mun Kelduárlón hafa veruleg áhrif á þá vatnafugla sem nýta hið lífríka Folavatn. Þetta á m. a. við um hávellu, sem skv. takmörkuðum gögnum er algeng við vatnið..."
Þessar takmarkanir skýrslunnar hefði átt að fella inn í ágrip og lokaorð samhengis vegna og til að fyrirbyggja misskilning.

Þá verður ekki komist hjá að gagnrýna að ekki skuli af hálfu Náttúrufræðistofnunar vera gerð krafa um að fuglalíf í lónstæði fyrirhugaðs Kelduárlóns og flóra við lónstæði og önnur svæði sem fyrirsjáanlega myndu raskast af Hraunaveitu austan Kelduár yrðu rannsökuð vegna matsskýrslu eða a.m.k. áður en ákvörðun verði hugsanlega tekin um að ráðast í framkvæmdir.

21. Niðurstaða

Undirritaður hefur kynnt sér fylgiskjöl með stjórnsýslukæru Landsvirkjunar (Greinargerð um efnislega þætti" dags. 4. september 2001 og "frekari gögn" dags. 12. október 2001) vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þrátt fyrir allmikið umfang þessara gagna bætir innihald þeirra efnislega litlu við þá mynd af umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar sem dregin var upp í matsskýrslu Landsvirkjunar í maí 2001, sbr. ofanskráðar athugasemdir.

Vakin er athygli á líklegu vanhæfi umhverfisráðherra til að úrskurða í kærumálum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Þá staðfesta framlögð gögn Lansdvirkjunar það sem undirritaður hefur áður vakið athygli á, að efnahagsleg áhrif framkvæmdar eru ekki hluti af mati á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Með því er fallinn helsti burðarás í matsskýrslu Landsvirkjunar sem réttlæta átti öll náttúruspjöllin.

Eftir stendur óhaggað að Kárahnjúkavirkjun er óafturkræf framkvæmd sem hefði í för með sér gífurlega umhverfisröskun á Fljótsdalshéraði og hálendinu suður undir Vatnajökul. Á mælikvarða laga nr. 106/2000 myndi virkjunin valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og það meiri en nokkur önnur framkvæmd sem hugmyndir hafa komið fram um hérlendis. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 þar sem lagst er gegn virkjuninni hlýtur því að standa óhaggaður.

Að öðru leyti vísast til hjálagðra athugasemda undirritaðs til Skipulagsstofnunar vegna matsskýrslu um Kárahnjúkavirkjun, dags. 14. júní 2001.

Virðingarfyllst
Hjörleifur Guttormsson

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim