Hjörleifur Guttormsson | 31. desember 2001 |
Ótrúverðugur úrskurður Úrskurður umhverfisráðherra um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar fær að vonum misjafnar viðtökur. Fjölmörgum mun þykja úrskurðurinn ótrúverðugur og ganga gegn eigin réttarvitund, aðrir fagna honum á þeirri forsendu að með honum sé hindrun rutt úr vegi stóriðju á Austurlandi. Breyttar forsendur fyrir mati Með úrskurðinum gengur ráðherra þvert gegn niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem m. a. byggði á mjög samhljóma umsögnum sérfræðistofnana. Í matsskýrslu sinni dró Landsvirkjun ekki dul á gífurlega náttúrufarsröskun af völdum fyrirhugaðrar virkjunar en lagði framkvæmdina í mat með þeim rökstuðningi " ... að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir." Þessa niðurstöðu sína útfærði Landsvirkjun nánar, bæði í orðum og myndrænt, þar sem óbætt náttúruspjöll voru látin vegast á við meint jákvæð efnahags- og samfélagsáhrif. Skipulagsstofnun féllst á þessa málsmeðferð sem örlað hefur á í matsskýrslum framkvæmdaaðila upp á síðkastið. Undirritaður og Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) hafa hins vegar ítrekað gert athugasemdir við þennan málatilbúnað, síðast í kæru til staðfestingar á úrskurði Skipulagsstofnunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í úrskurði sínum fellst ráðherra á það sjónarmið að efnahagslegt og þjóðhagslegt mat sé ekki hluti af umhverfismati að lögum. Hins vegar dregur ráðherra ekki af því þá eðlilegu ályktun að með þessu sé enn styrkari stoðum skotið undir þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að hafna beri Kárahnjúkavirkjun heldur hið gagnstæða! Þannig kippir ráðherrann burt helstu lagastoð sem Landsvirkjun hugðist nýta til að réttlæta umhverfisröskun af völdum Kárahnjúkavirkjunar. Hins vegar tekur sami ráðherra í úrskurði sínum ekkert tillit til þessara breyttu forsendna og ber því við að Alþingi þurfi að geta fjallað um málið án þess að lagst hafi verið gegn framkvæmdinni í mati á umhverfisáhrifum. Slík málafylgja fær augljóslega ekki staðist. Efnislega röng niðurstaða Niðurstaða ráðherra þar sem snúið er við úrskurði Skipulagsstofnunar og fallist á Kárahnjúkavirkjun er efnislega illa rökstudd og hangir á bláþræði sem óvíst er að haldi fyrir dómstólum. Í aðfararorðum úrskurðarins kemur fram að ráðherra telji, ekki ósvipað og Skipulagsstofnun, líkur á umtalsverðum og neikvæðum áhrifum Kárahnjúkavirkjunar á umhverfið, enda annað erfitt þegar við blasa gífurleg umhverfisspjöll af framkvæmdunum. Það er helst þegar kemur að áfokshættunni frá Hálslóni að ráðherrann telur möguleika Landsvirkjunar til mótvægisaðgerða meiri en Skipulagsstofnun í ljósi nýrra hugmynda frá Landsvirkjun. Það er þó sýnd veiði en ekki gefin eins og ljóst má vera af úrskurðinum. Í stað þess hins vegar að hafna framkvæmdinni vegna verulegra óafturkræfra umhverfisáhrifa fer ráðherra krókaleiðir að þeirri niðurstöðu að heimila virkjunina með skilyrðum sem breyta litlu sem engu um meginþætti hennar þar á meðal þá sem mestum spjöllum valda. Það er því pólitískur vilji ráðherrans en ekki faglegt mat sem ráðið hefur niðurstöðu í úrskurðinum. Ráðuneytið sem matsaðili Það tiltæki umhverfisráðherra að hefja nýtt matsferli innan ráðuneytisins í stað þess að úrskurða um innsendar kærur og láta Skipulagsstofnun um að meta viðbótarupplýsingar orkar mjög tvímælis og hlýtur að vekja tortryggni. Ekki er gert ráð fyrir slíku í lögum heldur að Skipulagsstofnun framkvæmi slíkt mat sem síðan megi kæra til ráðherra. Af hálfu ráðuneytisins hefði verið rökrétt að vísa meintum nýjum upplýsingum Landsvirkjunar til Skipulagsstofnunar sem fjallað hefði um þær og fellt sinn úrskurð, eftir atvikum með hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins um lagatúlkun af tilefni kærumála. Þess í stað lagði ráðherra með vísan til lögfræðiálits enn eina lykkju á leið sína með það að markmiði að halda allri frekari málsmeðferð innan ráðuneytisins. Slíkt á sér enga hliðstæðu og verður að teljast afar hæpið og varhugavert, einnig sem fordæmi. Niðurstaðan úr nýju mati ráðherrans er tíunduð lið fyrir lið í úrskurðinum og þarfnast gaumgæfilegrar athugunar og samanburðar við úrskurð Skipulagsstofnunar. Mörg álitaefni fyrir dómstóla Mikilvægt ætti að vera fyrir alla aðila að álitamál sem eftir standa að felldum úrskurði ráðherra verði til lykta leidd. Úr því sem komið er gerist það aðeins á vettvangi dómstóla. Hér hafa verið nefnd örfá dæmi af mörgum sem þar gætu átt heima, fyrir svo utan augljósa spurningu sem svara þarf um hæfi ráðherrans til að úrskurða í máli sem þessu. Sjálf hefur Siv Friðleifsdóttir gefið ærið tilefni til að óhlutdrægni hennar sé dregin í efa, síðast í viðtali við Morgunblaðið daginn sem hún kynnti niðurstöðu sína. "Fari svo að þessi framkvæmd verði að veruleika sýnist mér hún geti haft gífurlega góð áhrif á íslenskt samfélag" segir þar umhverfisráðherra sem áður hafði vísað á bug athugasemd um eigið vanhæfi. Skyldi ekki vera ástæða til að fleiri líti á málavöxtu áður upp er staðið? Hjörleifur Guttormsson |