Hjörleifur Guttormsson | 1. október 2002 |
Bandaríkin á villigötum Framganga Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi veldur æ fleirum undrun og áhyggjum. Ofurveldið undir forystu Bush, sem fyrir tæpum tveimur árum var kjörinn forseti með minnihluta atkvæða, snýr baki við hverjum alþjóðasamningnum á fætur öðrum og hótar nú að brjóta alþjóðalög með stríði gegn Írak, hvað sem líður afstöðu Öryggisráðsins. Stuðningur Blairs hins breska við stríðsáformin sætir sívaxandi gagnrýni heima fyrir sem m. a. birtist mönnum síðustu helgina í september í mestu mótmælagöngu sem sést hefur um langt skeið í Lundúnum. Ritstjóri Der Spiegel, Rudolf Augstein, vitnar í grein 26. september í svissneska sagnfræðinginn Jörg Fish sem telur árás á Írak andstæða alþjóðalögum og “alþjóðlegan glæp”. Jafnvel Henry Kissinger fordæmir áform Bandaríkjastjórnar um að blanda sér með hótunum og jafnvel hervaldi í innanríkismál í Írak þar eð slíkt sé í andstöðu við alþjóðahefðir allt frá friðarsamningunum í lok þrjátíu ára stríðsins 1648! Olíuhagsmunir undirrótin Tvöfeldni bandarískra stjórnvalda í samskiptum við Írak, ekki síst í forsetatíð Repúblikana, sýnir ótvírætt að það eru olíuhagsmunir en ekki hernaðarógn frá Bagdad sem er bakgrunnur núverandi árásarstefnu. Donald Rumsfeld hermálaráðherra, sem nú hefur stærst orð uppi um hættuna sem stafi af Saddam Hussein, var sendimaður Reagans forseta á níunda áratugnum og leitaði sem slíkur eftir einkaviðræðum við einvaldinn. Frá 1983 studdu Bandaríkin Írakstjórn með ráðum og dáð í árásarstríði hennar gegn Íran, seldu Írökum vopn og miðluðu þeim hernaðarupplýsingum sem aflað var með gervihnöttum. Alla götu síðan hafa Bandaríkin, sem nú gera mikið úr hættunni sem stafi frá Írak, unnið gegn viðleitni alþjóðasamfélagsins til að takmarka útbreiðslu gereyðingarvopna. Á síðustu mánuðum hafa bandarísk stjórnvöld ítrekað gefið til kynna að þau hafi ekki áhuga á að herða eftirlit með efna- og sýklavopnum með frágangi á bókun við alþjóðasáttmála á þessu sviði. Styður Ísland árás á Írak? Bandaríkin og Bretland reyna nú með öllum ráðum
að fá Öryggisráðið til að fallast á
ályktun sem réttlæti hernaðarárás
á Írak. Halldór Ásgrímsson kvað
upp úr um það í viðtali við Ríkisútvarpið
27. september að hann styddi kröfu Bandaríkjanna um nýja
ályktun og sagði mjög nauðsynlegt að leggja meiri
pressu á Írak. Með því væri gengið
gegn því samkomulagi sem Kofi Annan aðalritari Sameinuðu
þjóðanna hefur gert við stjórnvöld í
Bagdad um endurkomu vopnaeftirlitsmanna til Írak án skilyrða.
Stuðningur íslenska utanríkisráðherrans við
stríðshótun Bandaríkjanna sætir vissulega
tíðindum og er í engu samræmi við afstöðu
yfirgnæfandi meirihluta Íslendinga eins og hún birtist
í nýlengum Gallup-könnunum. Í hinu orðinu
segir Halldór að stríð við Íraka “...
væri afskapalega slæmt fyrir heimsfriðinn og alla heimsbyggðina
...”. Það leyfa greinilega fleiri en bandarísk
stjórnvöld sér að leika tveimur skjöldum þegar
um stríð eða frið er að tefla. Hjörleifur Guttormsson |