Hjörleifur Guttormsson 5. febrúar 2002

Enn steypir Samfylkingin sér kollhnís

Það er erfitt að spá fyrir um afstöðu Samfylkingarinnar. Í hverju stórmálinu á fætur öðru birtist flokkurinn sem stefnulaust rekald, nú síðast í afstöðu til Kárahnjúkavirkjunar.

Það eru ekki stórtíðindi að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi leggist gegn tillögu Vintri-grænna um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls. Hitt kom nokkuð á óvart að talsmenn Samfylkingarinnar með Össur formann og Jóhönnu í fararbroddi skyldu þjappa sér upp að stjórnarflokkunum og fallast í leiðinni á náttúruspjöllin og úrskurð umhverfisráðherra um Kárahnjúkavirkjun. Kollhnísarnir sem formaður Samfylkingarinnar hefur tekið í umræðum um þessa virkjun bæta enn við þann langa lista vandræðagangs og stefnuleysis sem ætlar að verða banabiti þessa stjórnmálaflokks.

Tylliástæður gegn þjóðaratkvæði

Fimleikaæfingar Samfylkingarinnar í umræðunni á Alþingi um tillögu VG tóku á sig næsta ótrúlegar myndir. Talsmenn flokksins höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þrátt fyrir það að Samfylkingin hefur sett "beint lýðræði" sem eitt helsta baráttumál í stefnuskrá flokksins. Í þessu skyni voru settar fram tylliástæður og m. a. borið við að kostir samkvæmt tillögunni, virkjun eða frestun ákvarðana, væru ekki nógu skýrir. Gagnrýnendur Kárahnjúkavirkjunar hafa talið óverjandi að tekin sé ákvörðun um þessa risavirkjun á meðan ekki liggur fyrir niðurstaða úr Rammaáætlun um virkjunarkosti og tillögur um stofnun þjóðgarðs og aðrar verndaraðgerðir hafa ekki verið kynntar og metnar af þar til bærum aðilum. Eftir umræðuna dylst engum að Samfylkingin ætlar ásamt þingmönnum stjórnarflokkanna að taka á sig ábyrgð á náttúrfarslegum afleiðingum virkjunarinnar.

"Verkfræðilausnir" við Hálslón

Formaður Samfylkingarinnar upplýsti í umræðunni að mestu hafi ráðið um síðustu kúvendingu sína í afstöðu til Kárahnjúkavirkjunar þær "verkfræðilausnir" sem kynntar hefðu verið til varnar áfoki frá Hálslóni og hann teldi fullnægjandi. Öllu seinheppnari gat þingmaðurinn ekki verið, því að nákvæmlega ekkert er fast í hendi um þessar "lausnir". Jafnvel umhverfisráðherra gerir sér það ljóst eins og lesa má um í úrskurði Sivjar. Lausatökin á þessum þætti í úrskurði hennar eru eitt af stóru óvissuatriðunum um afleiðingar Kárahnjúkavirkjunar, m. a. er eftir að skilgreina þann "50-100 ára hönnunarstorm" sem varnaraðgerðir eigi að miðast við. Kínamúrinn 15 km langi sem Landsvirkjun hefur boðist til að reisa með austurströnd lónsins er mannvirki sem eftir er að meta lögum samkvæmt og 20 m breið virkisgröfin lónmegin við hann til að fanga sandburð er ekki gerð að skilyrði af hálfu ráðuneytisins vegna "meðalhófsreglu"!

Jóhanna bætti um betur

Ekki hallaði á í málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur og formannsins. Vegna ónógra undirtekta við tillögur Samfylkingarinnar um þjóðaratkvæði á undanförnum þingum getur hún ekki stutt framkomna tillögu VG! Hugleiðingar hennar um þjóðgarð þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun voru ekki frumlegar í ljósi ályktunar Alþingis um Vatnajökulsþjóðgarð 10. mars 1999. Lökust var þó sú hugmynd hennar að láta Landvirkjun standa undir kostnaði við þjóðgarð norðan jökla eins og ekki sé nóg komið af aflátsgreiðslum frá því fyrirtæki.

Ekki sér fyrir endann á lánleysi og stefnuleysi Samfylkingarinnar ef marka má afstöðuna til Kárahnjúkavirkjunar. Getur verið að einhverjum hafi komið í hug skoffín í þessu sambandi?

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim