Hjörleifur Guttormsson | 5. september 2002 |
Við lok heimsþings í Jóhannesarborg Starfsömu og fjölmennu heimsþingi um sjálfbæra
þróun er að ljúka. Búið er að
ganga frá samkomulagi um framkvæmdaáætlun
og nú fyrir dagslok þann 4. september verður væntanlega
gengið frá sameiginlegri pólitískri yfirlýsingu
þátttökuríkja að ráðstefnunni.
Með þessu hefur alþjóðasamfélaginu
tekist að bjarga eigin skinni, þótt eflaust verði
umdeilt hvort það hafi verið þess virði í
ljósi fjölmargra tilslakana og málamiðlana til
að ná sameiginlegri niðurstöðu. Jákvæðu þættirnir Þrátt fyrir að niðurstaða þess heimsþings
valdi um margt vonbrigðum er engan veginn rétt að horfa
fram hjá ávinningum og jákvæðum þáttum
sem hér hafa náðst fram. Með lokaafgreiðslu
framkvæmdaáætlunar og pólitískri yfirlýsingu
þingsins er fengin viðspyrna til að stöðva það
undanhald frá markmiðum sjálfbærrar þróunar
sem einkennt hefur síðustu ár. Þannig felst
í niðurstöðu þingsins varnarsigur fyrir þau
öfl sem beita vilja alþjóðasamfélaginu
undir merkjum Sameinuðu þjóðanna til að bregðast
við stórfelldum sameiginlegum vanda alls mannkyns. Þau
ríki sem í raun vilja Ríóferlið feigt
eða reynt hafa að draga úr slagkrafti þess náðu
ekki sínu óskorað fram. Skref til baka og margir veikleikar Hnattvæðing á forsendum óheftrar markaðshyggju
og leikreglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO)
eru sá bakgrunnur sem öðru fremur hefur veikt Ríó-ferlið
á liðnum áratug. Fátt ef nokkuð í
samþykktum heimsþingsins breytir þeirri stöðu.
Varnarbarátta fyrir sjálfbærri þróun
hefur hér snúist um að meginreglurnar frá Ríó
yrðu ekki færðar til baka eða veiktar, þar á
meðal varúðarreglan. Á þessari stundu er
ekki fullljóst hver heildarniðurstaðan verður að
þessu leyti, en þó virðist sem samþykktir
þingsins feli ekki í sér formlegar breytingar á
Ríó-samþykktunum. Átök milli harðra
viðskiptasjónarmiða með stuðningi af WTO-ferlinu
og umhverfis- og auðlindaverndar með fótfestu í
Ríó-yfirlýsingunum munu halda áfram. Engar
tímasetningar náðust fram er varða auðlindavernd
eða líffræðilega fjölbreytni, né heldur
um hækkandi hlutfall endurnýjanlegrar orku. Bandaríkin
og OPEC komu í veg fyrir tímamörk þar að
lútandi. Nú reynir á um framkvæmd Ákall þingsins og þeirra sem álengdar stóðu
hér í Jóhannesarborg á framkvæmd gefinna
fyrirheita verða vart misskilin. Alþjóðasamfélagið
hefur ekki efni á að endurtaka brigðurnar eftir Ríó.
Heimsþingið hefur í raun sett Dagskrá 21 á
spor á nýjan leik og framkvæmdaáætlunin
vísar til hennar og bætir við tímasetningum
á nokkrum sviðum. Tilvísanir í Þúsaldaryfirlýsingu
SÞ (Millenium Declaration) er einnig víða að finna
í skjölunum. Samhliða heimsþinginu var hér
haldin ráðstefna um Staðardagskrá 21 og sendi
hún frá sér ferskt ákall um aðgerðir.
Aðvaranir Nelsons Mandela Ráðstefnur eru ekki haldnar í tómarúmi og heimsmál eins og átökin í Palestínu og stríðshótanir Bandaríkjanna í garð Írak hafa borist inn í sali í Jóhannesarborg. Það minnir á hversu veikt alþjóðasamfélagið og Sameinuðu þjóðirnar standa gagnvart valdi og ofbeldi. Aðvaranir Nelsons Mandela um að ekkert ríki megi ætla sér að gerast heimslögregla, hversu voldugt sem það telji sig vera, hafa vakið verðskuldaða athygli. Slíkt færir heimsbyggðina í glötun (kaos) að mati þessa þrautreynda stjórnmálamanns. Mikið er undir því komið að á slík skilaboð verði hlustað áður það er um seinan. Án friðar og réttlætis sem borið er uppi af siðferðiskennd mun þess langt að bíða að draumurinn um sjálfbæra þróun rætist. Hjörleifur Guttormsson |