Hjörleifur Guttormsson 5. nóvember 2002

Heimsveldi undirbýr árásarstríð

Ögrun við Sameinuðu þjóðirnar

Störf Sameinuðu þjóðanna hafa oft verið umdeild. Á dögum kalda stríðsins höfðu risaveldin tilhneigingu til að sniðganga samtökin og beittu neitunarvaldi sínu óspart. Eftir hrun Sovétríkjanna hafa Bandaríkin sem eina risaveldið reynt að draga úr áhrifum Sameinuðu þjóðanna þegar þær ekki hafa farið að vilja þeirra. Nú stendur heimurinn frammi fyrir hótunum af hálfu Bandaríkjanna um að ráðast á Írak hvort sem Öryggisráðið veiti til þess heimild eða ekki. Þessi leikur að eldi bætist við afstöðu Bandaríkjanna á mörgum öðrum sviðum þar sem þau haga sér eins og væru þau ein í heiminum. Ýmist hundsa þau eða sniðganga alþjóðasáttmála, nú síðast á sviði efna- og sýklavopna. Það er kaldhæðnislegt að slíkt verður opinbert á sama tíma og Bush sakar Íraka um að hafa komið sér upp gereyðingarvopnum. Heimsveldistilburðir Bandaríkjanna eru bein ögrun við grunnhugmyndina að Sameinuðu þjóðunum og störf þeirra til þessa.

Sjálfbær þróun og hnattvæðing

Í þrjátíu ár hafa Sameinuðu þjóðirnar verið vettvangur umræðu og aðgerða á sviði umhverfismála. Allt frá Stokkhólmsráðstefnunni 1972 hefur á þeirra vettvangi verið leitað úrræða gegn vaxandi vistkreppu, misskiptingu og fátækt. Af því starfi hafa sprottið fjölmargir alþjóðlegir sáttmálar sem haft hafa mikla þýðingu við að hamla gegn umhverfiseyðingu og til stuðnings félagslegu réttlæti. Á heimsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna á tíunda áratugnum, ekki síst um umhverfi og þróun í Ríó 1992 og félagsmálaþinginu í Kaupmannahöfn 1995 var lagður grunnur að hugmyndinni um sjálfbæra þróun. Sjálfbær þróun stendur þremur fótum í umhverfisvernd, félagsmálum og efnahagsstefnu. Á sama tíma og sjálfbær þróun var að skjóta rótum geystist nýfrjálshyggjan fram og fékk stuðning af upplýsingatækninni við að hrinda af stað þeirri hnattvæðingu fjármála- og efnahagslífs sem nú setur svip sinn á veröldina. Kerfislega fótfestu fékk þessi hnattvæðing í Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO sem sett var á fót 1995 á grunni fjölþjóðasáttmálans um GATT. Það gerðist án beins atbeina Sameinuðu þjóðanna. Milli stefnumiðanna um sjálfbæra þróun og viðskiptareglna WTO hefur skapast mikil og vaxandi spenna, sem m. a. endurspeglast í miklum mótmælum kringum ársfundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Stríð um olíulindir

Andstæður eru óðum að skerpast á alþjóðavettvangi eftir upprof og vonir um betri tíð við lok kalda stríðsins. Vaxandi tök fjölþjóðafyrirtækja á framleiðslu og viðskiptum þrengja að ríkisstjórnum, kjörnum fulltrúum og fjölmiðlum. Mútur og bókhaldssvik eru daglegt brauð og minnst af því kemst upp á yfirborðið. Gjáin milli ríkra og fátækra fer ört breikkandi, mest áberandi milli norður- og suðurhvels en einnig í iðnvæddum ríkjum. Krafan um félagslegt réttlæti sem forsendu sjálfbærrar þróunar á erfitt uppdráttar. Bandarísk stjórnvöld skelltu hurðum á margar umbótatillögur í umhverfismálum á nýafstöðnu heimsþingi í Jóhannesarborg. Heimsveldið notar nú baráttu gegn hryðjuverkum sem yfirvarp til að tryggja sér sjálfsafgreiðslu í olíulindum Mið-Austurlanda og hótar vopnavaldi til að komast að dælunum. Viðbrögð Öryggisráðsins við stríðsstefnu Bush-stjórnarinnar verður eitt afdrifaríkasta próf sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gengist undir til þessa.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim