Hjörleifur Guttormsson | 6. júní 2002 |
Í tilefni árbókar um sunnanverða Austfirði 1 Í sumar eru 36 ár liðin frá því ég fór mína fyrstu ferð landleiðis um sögusvið þeirrar árbókar Ferðafélagsins sem hér er verið að kynna. Ég hafði sammælst við Helga Hallgrímsson náttúrufræðing, þá forstöðumann Náttúrugripasafnsins á Akureyri um sameiginlega ferð um þetta svæði með söfnun náttúrugripa fyrir augum, en uppbygging náttúrugripasafns í Neskaupstað var þá nýkomin á dagskrá. Við komum víða við og fórum hægt yfir og það sem fyrir augu bar var okkur báðum talsverð opinberun. Við álpuðumst m. a. inn fyrir girðingu herstöðvarinnar á Stokksnesi eftir að hafa heyrt að þar hefði við sprengingu komið upp gabbrógrjót með glópagulli. Ekki veit ég hvorir urðu smeikari yfirmenn herstöðvarinar eða við er upp komst um ferðir okkar, en allt endaði þetta þó vel og við vorum ekki settir í járn. Tvær myndir, frá Lónsheiði og Djúpavogi teknar í þessari ferð, hafa ratað inn á síður fyrirliggjandi árbókar. Fljótlega fjölgaði ferðum mínum um þessar slóðir til rannsókna og í erindrekstri fyrir Náttúruverndarsamtök Austurlands og Náttúruverndarráð. Fyrstu árbókina fyrir Ferðafélagið skrifaði ég um Austfjarðafjöll 1974 og þar voru Stafafellsfjöll eða Lónsöræfi nokkur þungamiðja. Þetta var þó aðeins upphafið, því að sem þingmaður frá 1978 átti ég í röska tvo áratugi ótal erindi um þennan landshluta, en eyddi þar einnig sumarleyfum í gönguferðum með góðu fólki. Þegar sammæli varð um það við ritnefnd árbókar á árinu 1999 að ég efndi í rit um suðurhluta Austfjarða gekk ég glaður til þess verks. Þá nægðu mér þó ekki fyrri kynni. Í margar eyður þurfti að fylla, kanna fjölda heimilda, skoða króka og kima í landi sem orðið höfðu útundan og líta á allt svæðið, sögu, mannlíf og náttúru með samfellda frásögn fyrir augum. Fjöldi manns hefur með einum og öðrum hætti aðstoðað mig við þetta verk og það hefur ekki síst verið ánægjulegt að stofna til tengsla við heimafólk og ýmsa sérfróða og ylja upp gömul kynni í nýju samhengi. Prófarkalesarar og valinkunn prentsmiðja eiga líka sinn þátt í útkomunni að ógleymdum ritstjóranum. 2 Austfirðir hafa fyrr og síðar legið allfjarri hringiðu átaka og stórviðburða í landsmálum. Þó bar sæfarendur að vonum einna fyrst upp að sunnanverðum Austfjörðum og skildu sumir þar eftir sig nokkur spor: Rómverjar að talið er snemma á öldum, síðar ef til vill Papar, þá norrænir menn eins og Naddoddur og fóstbræðurnir Ingólfur og Hjörleifur, síðar landnámsmenn, í könnunarferð. Þangbrandur kristniboði átti hér sögulega viðdvöl og ótrúlega mörg minni og örnefni tengjast komu þessa vígaklerks. Röskum sex öldum síðar létu þrælasalar frá Algeirsborg greipar sópa á Austfjörðum sunnan Reyðarfjarðar og að vonum gaf heimsókn þeirra efni í mörg sagnaminni og örnefni, allt sveipað nokkrum reyfarablæ en þó einnig stutt gildum heimildum. En á milli slíkra fátíðra heimsókna og hervirkja þraukaði alþýða manna og studdist við land og sjó eftir föngum. Hún lagði til aðalefnið í sögu þessa landshluta í ellefuhundruð ár og það er fjölbreyttur efniviður, að miklu leyti óskráður. 3 Náttúra þessa svæðis er að sönnu stórbrotin, eins og myndir í árbók eiga að bera einhvern vott um. Inn í Austfjarðablágrýtið fléttast óregla og litauðgi jarðmyndana frá mörgum fornum eldfjöllum og steinaríki er þar að sama skapi fjölskrúðugt. Inn úr syðstu fjörðunum, Álftafirði og Hamarsfirði, ganga firnalangir og nú óbyggðir dalir vestur undir Lónsöræfi og renna að lokum saman við hásléttuna miklu sem kölluð er Hraun. Svonefndar dalbætur taka við innarlega þar sem dalir hækka og þrengjast og styttist að stafni. Ramminn um búsetuna var og er enn tilkomumikill og jafnvel tröllslegur. Í sumum dalanna, eins og á Flugustaðadal og Fossárdal, var byggð fram eftir öldum en í eyði frá svartadauða eða síðar. Allt er þetta lítið kannað af fornleifafræðingum og blasa við rannsóknaverkefni nánast við hvert fótmál og sumt þolir enga bið vegna eyðingarafla. Með ströndum fram eru enn víða menjar um útræði og sjósókn eins og Styrmishöfn í Álftafirði er gott dæmi um. Síðast var þar ýtt árabáti úr vör 1949, formaður Guðmundur Eyjólfsson á Þvottá og eftirtekjan 130 vænir þorskar. Heil eilífð sýnist skilja okkur nútímafólk frá slíkri lífsbjörg. Seljabúskapur var nánast regla á stórbýlum fram eftir öldum eins og örnefni og rústir bera vott um, en hefur lítill gaumur verið gefinn til þessa. Sum selin gætu hafa byggst upp á fornbýlum, eins og selið á Búlandsdal þar sem í árdaga gæti hafa staðið jörðin Búland sunnan undir Goðaborg í Búlandstindi. Kaupstaðurinn forni í Gautavík með aðalhöfn fyrir þetta svæði frá landnámstíð fram um 1500 að verslun færðist í Fýluvog og til Djúpavogs bíður rýnenda. Frumkönnun gerð sumarið 1979 bendir til mikilla minja á þessum stað. Væri ekki forvitnilegt að gera þær sýnilegar gestum og gangandi? Hvers kyns minjar um búsetu fyrri alda á kotum, hjáleigum og stórbýlum, liggja óskráðar og tilviljun ræður hvenær umturnað verður því sem eftir er óraskað og bjargast hefur undan jarðýtu og gröfu til þessa. Hvar er komið virðingu okkar og umhyggju fyrir þessum arfi? 4 Skráning örnefna hefur komist á rekspöl síðustu hálfa öldina, þótt engan veginn sé lokið, hvað þá að úr þeim fjársjóði hafi verið unnið að ráði. Dr. Stefán Einarsson sem skrifaði tvær árbækur um Austfirði fyrir hartnær hálfri öld var brautryðjandi í örnefnaskráningu eystra, en margir hafa síðar lagt þar hönd að verki. Úr þessum brunni hefur skrásetjari árbókar nú ausið, kannski of ótæpilega á stundum, og í samvinnu við Guðmund Ó. Ingvarsson landfræðing sem teiknað hefur kortin í árbók, reynt að halda helstu örnefnum til haga og leiðrétta misfærslur sem víða er að finna á landabréfum af þessu svæði. Þótt miklu hafi verið bjargað í hús Örnefnastofnunar er skrásetningu örnefna engan veginn lokið og staðsetning þeirra ótrygg uns fest hefur verið í hnitakerfi. Álitaefni tengd örnefnum eru mörg. Sama fjall eða fjallstindur hefur mismunandi heiti eftir því hvaðan á er litið, eins og alþekkt er af Bakranga, öðru nafni Ógöngufjalli eða Galta [Skuggabjörgum] í Köldukinn. Erfitt er að halda slíkum margnefnum til haga á uppdráttum og af þeim spretta deilur og stundum miskilningur. Framburður og ritháttur örnefna er víða á reiki, jafnvel innan sama byggðarlags. Dýrhundstindur og Þórusfjall í Breiðdal og Kyrrvíkurskriður í Fáskrúðsfirði eru dæmi um þetta. Miðstýrð málvöndunarstefna og forskrift um réttritun er ekki alltaf hallkvæm menningarlegri fjölbreytni og fyrir geymd staðbundinna sérkenna. Flámæli lifði góðu lífi sunnan til á Austfjörðum á síðustu öld, en er mjög á undanhaldi eða horfið að mestu. Eigum við að sakna þess? Menn spurðu hvort rita ætti opið eða lokað e, - e átti að rita lokað og með punkti í orðum eins og venur og selungur. Enn finnst fólk á árbókarsvæðinu sem kannast við eða er munntamur gamli framburðurinn með r í víði-örnefnum eins og Víðirnes og Víðirdalur. Af hellra-örnefnum er mýgrútur og r-ið skýrt í framburði eldra fólks. Ég held meira mætti huga að málfarsþáttum og staðbundnum sérkennum en hingað til og koma niðurstöðum rannsókna á framfæri við alþýðu manna eins og bryddað hefur verið upp á nýlega með skaftfellskan framburð, en hans gætir reyndar einnig austur eftir fjörðum. Svo er einnig um atviksorðið "fram" í merkingunni út til sjávar og "hnúkur" í stað hnjúkur, en hnjúkur verður ráðandi er austar dregur. Þessa upptalningu mætti lengja með ábendingum um eyktamörk, lýrita og völvuleiði, en nóg er víst komið af fyrnsku í þessu spjalli og skammt í ég dragi fram sauðskinnsskóna. 5 Jón Finnbogason vegaverkstjóri og ljósfaðir bjó í Höskuldsstaðaseli. Hann var fjölhæfur og dulvís 19. aldarmaður og er getið í árbók eins og vera ber. "Greyið mitt" var orðtak hans í samræðum við háa sem lága. Vegaframkvæmdir voru lengi vel á forræði sýslna og sýsluvegir fyrst nýlega aflagðir ásamt sýslum sem lögsagnarumdæmum. Sýslumaður Sunnmýlinga átti leið um Breiðdalsheiði og var Jón þar í vegavinnueð m sínu liði. Sýslumaður hafði orð á því að mennirnir héldu illa áfram við vinnuna. Jón svaraði að bragði: "Þeir eru að horfa á þig, greyið". - Nú hafið þið mátt hlusta og horfa óþarflega lengi á mig garminn, og mál að beina sjónum annað. Hafið heila þökk fyrir komuna á þessa árbókarkynningu og þolinmæði ykkar og aðstoð við þann skrásetjara sem hér skilar verki. Ferðafélaginu óska ég heilla á tímamótum. Það félag verðskuldar stuðning sem flestra landsmanna. Hjörleifur Guttormsson |