Hjörleifur Guttormsson | 7. janúar 2002 |
Ávarp í hljóðnema RÚV á Egilsstöðum 4. janúar 2002 Góðir Austfirðingar, Skaftfellingar og aðrir hlustendur. Gleðilegt ár og þökk fyrir liðnu árin. Hvert liðið ár vekur ákveðinn hugblæ. Árið 2001 mun hljóta sæmileg eftirmæli hvað varðar árgæsku til lands og sjávar. Sumarið var þó óvenju svalt og sólarlítið hér eystra og hefði sennilega orðið annálað óþurrkasumar ef ekki kæmi til nútímatækni við heyskap. Sunnanþeyrinn nú í skammdeginu hefur síðan bætt þetta upp en flest myndum við þó kjósa að landátt með blíðviðri skili sér í ríkari mæli til okkar að sumarlagi en verið hefur síðustu árin. Snögg veðrabrigði Veðrabrigðin á alþjóðvettvangi frá í haust hafa orðið snögg og óvænt. Hryðjuverkin 11. september voru langtum magnaðri atburður en ella hefði orðið vegna myndrænnar upplifunar fólks í sjónvarpi. Um fáa atburði á síðari tímum hefur verið jafn mikið skrifað og sýnist sitt hverjum um eftirleikinn. Sumir, eins og Theo Sommer hjá þýska vikuritinu Die Zeit, telja að áhrifin af 11. september séu mjög ofmetin og muni brátt víkja fyrir hversdagslegri áhyggjum svo sem af þrengingum í efnahagslífi Vesturlanda. Ótvírætt hafa þó atburðirnir vakið ótta og óhug meðal almennings. Rudolf Augstein, stofnandi og útgefandi Der Spiegel í meira en hálfa öld, er harðorður í garð Bandaríkjanna vegna stríðsrekstursins í Afganistan og telur sprengjuregnið yfir þetta hrjáða og sárfátæka land í engu samræmi við yfirlýst markmið. Nú eftir að Talibanar hafa verið hraktir frá völdum fáum við fréttir af árásum Bandaríkjamanna á sveitaþorp þar sem yfir 100 manns, konur og börn, eru sprengd í tætlur. Bandaríkin hafa kosið að fara sínu fram hernaðarlega í Afganistan án teljandi samráðs við aðra en ætla nú Sameinuðu þjóðunum að bera hita og þunga af uppbyggingarstarfinu. Hætt er við því að alþjóðleg samstaða gegn hryðjuverkum endist skammt ef Bandaríkjamenn halda áfram að styðja ofbeldismennina á valdastóli í Ísrael, hvað þá ef þeir taka sér sjálfdæmi til að ráðast á fleiri ríki eins og Írak, Sómalíu og jafnvel Kúbu. Atburðir haustsins hafa leitt til þess að borgaraleg réttindi hafa verið skert í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar eins og um stríðstíma sé að ræða. Einnig á því sviði virðist gengið lengra en tilefni er til og hætt við að kynþáttahatur og fordómar í garð ólíkra siða og menningar aukist í kjölfarið. Miklu skiptir að frjáls félagasamtök sem berjast fyrir mannréttindum óháð uppruna fólks og litarafti haldi vöku sinni og veiti aðhald þeim sem með völdin fara. Kárahnjúkaúrskurður umhverfisráðherra Jólalesninguna að þessu sinni fékk ég senda frá umhverfisráðuneytinu þar sem var úrskurður ráðherra um mat á Kárahnjúkavirkjun. Ég hefði kosið mér skemmtilegra og uppbyggilegra lesefni. Úrskurðurinn felur í sér dapurleg tíðindi fyrir umhverfisvernd á Íslandi og næsta ótrúleg miðað við forsögu málsins. Eftir að hafa lesið rökstuðning ráðherrans og borið hann saman við úrskurð Skipulagsstofnunar og önnur fyrirliggjandi gögn er ljóst að niðurstaðan á lítið skilt við hlutlægt mat eða fagleg vinnubrögð. Hér er á ferðinni pólitískur úrskurður sem ekki verður jafnað við annað en valdníðslu. Á lögmæti þessa gjörnings hlýtur því að reyna fyrir dómstólum innan tíðar. Í þá átt hnigu líka viðbrögð formanna níu náttúru- og umhverfisverndarsamtaka sem mótmæltu úrskurðinum 20. desember. Þau sem þar töluðu verða ekki sökuð um einsýni eða flokkspólitíska hlutdrægni, því að í hópnum var m.a. Steingrímur Hermannsson fyrrum forsætisráðherra og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir formaður Landverndar sem jafnframt er varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Vestfjarðakjördæmi. Formenn þessara mörgu umhverfis- og náttúruverndarsamtaka telja úrskurðinn alvarlegt áfall fyrir náttúruvernd hérlendis og niðurstöðu umhverfisráðherrans óskiljanlega í ljósi þeirra gífurlegu náttúrspjalla sem hljótast myndu af Kárahnjúkavirkjun. Vatnaflutningarnir einir og sér með veitu á Jöklu yfir í Lagarfljót ættu að mínu mati að nægja til að framkvæmdinni sé hafnað. Vert er líka að hafa í huga að Hálslón sem aðalmiðlunarlón virkjunarinnar myndi smám saman fyllast af aurframburði undan Brúarjökli og hér er því í raun ekki um endurnýjanlega orku að ræða eins og gefið er í skyn. Menn ættu líka að minnast þess að Landsvirkjun óskar eftir leyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun alveg óháð því hvort orka þaðan rennur til stóriðju á Reyðarfirði eða eitthvað annað. Háspennulínur frá virkjuninni yrðu af stærstu gerð og umhverfislýtin af þeim yrðu gífurleg og settu mark sitt á dali og heiðar. Raflínur sem við nú búum við blikna í samanburði við þessa fyrirhuguðu gálga. Mikil er ábyrgð þeirra sem knýja á um slík hervirki eða hliðstæðar framkvæmdir annars staðar á landinu. Erfitt er að finna sannfærandi rök fyrir þessum málstað og gildir þá einu hvort ræður skammsýni, örþrifaráð vegna fólksflótta eða fjárhagslegir hagsmunir af ýmsum toga. Fólk á ekki að láta hræða sig til fylgis við óhæfuverk sem ekki verða aftur tekin en fylkja sér þess í stað að baki kröfunni um verndun hálendisins og sjálfbæra nýtingu á náttúru þess sem verður æ verðmætari sem tímar líða. Vegið að umhverfisverndarfólki Það er víða vegið að umhverfisverndarfólki um þessar mundir og öðrum þeim sem sem setja spurningarmerki við tröllaukin stóriðjuáform og virkjanir sem þeim fylgja. Öll munum við eftir aðförinni að Náttúruverndarsamtökum Austurlands við Snæfell fyrir hálfu öðru ári. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins dundu höggin á Ólafi F. Magnússyni. Ritstjóri DV í áratugi, Jónas Kristjánsson, fékk reisupassann frá nýjum eigendum rétt fyrir jólin. Sá sem flutti honum skilaboðin, Ágúst Einarsson, skrifar á aðfangadag um það sem hann kallar "faglega og lýðræðislega niðurstöðu við Kárahnjúka". - Þann sama dag tilkynnti Ari Edwalds, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að þessi félagsskapur atvinnurekenda væri hættur stuðningi við Landvernd. Þetta eru viðbrögð manna með slæma samvisku og lélegan málstað. Gegn aðförum af þessu tagi þarf almenningur að rísa og fylgja eftir sannfæringu sinni. Á nýbyrjuðu ári mun reyna á þolrif margra, bæði á alþjóðvettvangi og hér heima fyrir. Fyrir góðan málstað er ljúft að vinna, eins þótt á móti blási. Þrátt fyrir úrskurð umhverfisráðherra er alls óvíst að áformin um stóriðjuframkvæmdir hér eystra verði að veruleika. Á meðan nýtur náttúran vafans en lóð okkar hvers og eins getur í því máli sem öðrum ráðið úrslitum. Góðir tilheyrendur. Öll berum við ábyrgð á lífi í okkar landi, og líf er fleira en mannlíf og hvað öðru háð. Hlustendum óska ég árs og friðar og sendi hljóðnemann til Þorsteins Gústafssonar viðskiptafræðings á Egilsstöðum. Hjörleifur Guttormsson |