Hjörleifur Guttormsson 7.ágúst 2002

Tvær greinar:
Heimsþingið um sjálfbæra þróun
Umhverfismál á Austurlandi


Heimsþingið um sjálfbæra þróun

Nú styttist í ráðastefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, en hún verður haldin í Jóhannesarborg 26. ágúst til 4. september 2002. Jafnhliða koma þar saman tugþúsundir fulltrúa frá frjálsum félagasamtökum og ber samkoma þeirra sem hefst 19. ágúst yfirskriftina Global Peoples Forum. Undirritaður mun sem fulltrúi NAUST (Náttúruverndarsamtaka Austurlands) fylgjast með báðum þessum atburðum og munu fréttir og hugleiðingar frá Jóhannesarborg birtast hér á heimasíðunni.

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem nú er skammt undan í Jóhannesarborg er framhald af ferli sem hófst með Stokkhólmsráðstefnunni um umhverfi mannsins 1972. Sá fundur var fyrsta stóra þemaráðstefnan á vegum alþjóðasamfélagsins um viðfangsefni sem snerta heimsbyggðina alla og margar ráðstefnur hafa fylgt á eftir um málefni eins og mannfjölgun, félagsleg réttindi, húsnæðismál og stöðu kvenna. Umhverfismál eru eins konar samnefnari fyrir allt þetta ferli. Ríó-ráðstefnan um umhverfi og þróun 1992 markaði þáttaskil þar sem ekki færri en 118 þjóðarleiðtogar undirrituðu yfirlýsingu og lögðu drög að framkvæmdaáætlun, sem síðan er oft vitnað til. Grunnhugtök umhverfisréttar voru þar fest í þessi, m. a. varúðar- og mengunarbótareglan, og hugtakið sjálfbær þróun hefur síðan víða skotið rótum.

Hvernig hefur miðað?

Uppgjörið að áratug liðnum frá Ríó-ráðstefnunni sýnir heldur bága niðurstöðu. Að mati Kofi Annans aðalritara SÞ skortir mikið á að staðið hafi verið við Dagskrá 21, eins og framkvæmdaáætlunin frá Ríó er kölluð. Á flestum sviðum hefur miðað hægar en áætlunin gerir ráð fyrir og í sumum efnum er staðan mun verri en fyrir áratug:

  • Alþjóðasamfélagið og aðildarríki SÞ hafa ekki tekið samþætt á efnahagslegum, félagslegum og umhverfilegum vandamálum, sem þó er lykillinn að farsælli lausn.
  • Á heimsvísu hafa menn gengið langtum meira á auðlindir en vistkerfin þola og jafnframt hefur misskipting í lífskjörum vaxið hröðum skrefum.
  • Samræmda og langsæja stefnu vantar á sviði fjármála, viðskipta, fjárfestinga og tækni.
  • Fjárveitingar hafa verið allsendis ónógar til að unnt væri að standa við Dagskrá 21, opinber þróunaraðstoð hefur minnkað og stór hluti þróunarríkja ekki náð að halda í horfinu.
Ný og erfið viðfangsefni hafa bæst við eins og afleiðingar hnattvæðingar, upplýsinga- og samgöngubyltingin og útbreiðsla sjúkdóma eins og eyðni. Hnignun hefur orðið á stórum svæðum, ekki síst í Afríku og Rússlandi. Loftslagsbreytingar af mannavöldum skapa ný og ófyrirséð vandamál. Afstaða Bush-stjórnarinnar í Bandaríkjunum til umhverfismála og alþjóðasamstarfs varpar nú dimmum skugga á viðleitni til úrbóta.

Sjálfbær þróun meginþema

Heimsþing um sjálfbæra þróun (World summit on sustainable development, skammstafað WSSD) er yfirskrift ráðstefnunnar í Jóhannesarborg. Hugtakið sjálfbær þróun sem mótaðist fyrir um tveimur áratugum fékk sinn sess í samþykktum Ríó-ráðstefnunnar. Það felur í sér að ákvarðanir og aðgerðir á hverjum tíma megi hvorki valda tjóni fyrir óbornar kynslóðir né skerða möguleika þeirra til lífsafkomu. Umhverfisvernd er þar lykilatriði. Dagskrá 21 er ætlað að skila mannkyni öllu, þjóðríkjum og byggðarlögum, á rétta leið í þessum efnum. Sem flestum er ætluð þátttaka í þessari stefnumörkun með virkri aðild að Staðardagskrá 21, þar á meðal sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum. Það jákvæða við skilgreininguna á sjálbærri þróun er að erfitt er að setja sig á móti markmiðinu og að leiðin til að ná því höfðar til þátttöku sem flestra. Reyndin hefur líka orðið sú að fjöldi stjórnmálamanna og ríkisstjórna keppist við að lýsa yfir fylgi við sjálfbæra þróun, þótt nánari skoðun leiði oftar en ekki í ljós að holt sé undir slíkum yfirlýsingum. Miklu skiptir því að almenningur sé vakandi, öðlist skilning á inntaki sjálfbærrar þróunar og geti veitt öflugt lýðræðislegt aðhald.

Átök í aðdraganda ráðstefnunnar

Sem vænta má hafa orðið átök á fundum sem haldnir hafa verið til undirbúnings þinginu í Jóhannesarborg. Unnið hefur verið að texta yfirlýsingar sem þjóðarleiðtogum er ætlað að taka afstöðu til fyrir þinglok. Þótt byggja eigi á samþykktunum frá Ríó og yfirlýsingum frá síðari ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna, leynir sér ekki djúpstæður ágreiningur og tortryggni á mörgum sviðum. Varðar það ekki síst mat á afleiðingum hnattvæðingar og ríkjandi reglum um heimsviðskipti. Eftir síðasta undirbúningsfund ríkisstjórna á Bali í Indónesíu í júníbyrjun er fjölmargt í yfirlýsingunni ófrágengið og innan hornklofa. Það á meðal annars við um leiðir til að tryggja betur en hingað til framkvæmd Dagskrár 21, viðskipta- og fjárhagsþætti og þróunaraðstoð frá alþjóðlegum stofnunum og einstökum ríkjum. Með því að halda þingið í Suður-Afríku er verið að minna á ástand mála í þriðja heiminum og Afríku sérstaklega.

Samkoma frjálsra samtaka

Eins og tíðkast hefur undanfarið á stórfundum í nafni Sameinuðu þjóðanna koma frjáls félagasamtök mjög við sögu við undirbúning og á sérstökum samkomum við hlið ríkjaráðstefnunnar. Jóhannesarborg verður að þessu leyti engin undantekning og er gert ráð fyrir að tugþúsundir fulltrúa frjálsra félagasamtaka (NGO) safnist þar saman á samkomu sem kallast Global Peoples Forum. Gildi þess að hlúa að slíkum fjölradda vettvangi er löngu viðurkennt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hjá svæðasamtökum, eins og endurspeglast í svonefndri Árósayfirlýsingu Evrópuríkja frá 1998. Íslensk stjórnvöld hafa verið mjög hikandi við að fylgja eftir þeirri stefnumörkun og kemur það meðal annars fram í því að á síðasta Alþingi var stjórnartillaga um staðfestingu Árósasamningsins dregin til baka.

Hlutur Íslands óljós

Lítið hefur frést af undirbúningi íslenskra stjórnvalda fyrir heimsþingið í Jóhannesarborg og er þar ólíku saman að jafna við aðdraganda Ríóráðstefnunnar 1992. Skýrsla Íslands til ráðstefnunnar liggur enn ekki fyrir og samvinna hefur lítil sem engin verið við frjáls félagasamtök í aðdraganda ráðstefnunnar. Hér er þó um að ræða atburð og málefni sem miklu skiptir fyrir velferð alls mannskyns.


Umhverfismál á Austurlandi

Austfirðingar fengu sumarið seint en með hundadögum skipti um og síðan hefur ríkt veðurblíða sem marga hafði dreymt um lengi. Logn hefur verið í fjörðum dögum saman, hafgola haft hægt um sig og þoka sjaldan gert meira en gægjast inn fyrir annesin. Við fréttir af slíkri blíðu taka íslenskir ferðalangar við sér og blanda sér í hóp útlendinga sem halda sínu striki hvernig sem viðrar. Austfirsk náttúra svíkur engan sem hingað kemur, fái hún að njóta sín óspillt. En margt er öðruvísi en skyldi í þeim efnum og fleira að varast en umturnun af stóriðjubrölti.

Peningalykt og mengunarský

Það hefur aflast blessunarlega vel af loðnu á sumarvertíð og þar við bætist sú kynjaskepna kolmunninn sem gefist hefur í meira mæli en áður. Fiskimjölsverksmiðjur hafa vart haft undan og verið keyrðar til hins ítrasta. Þessu hefur fylgt fnykur og ódaunn öðru hvoru, kallað peningalykt upp á gamlan máta, og yfir firði og kauptún hafa lagst bláleit mengunarský frá reyk sem stöðugt stígur upp frá verksmiðjunum. Fyrir nokkrum árum þegar flestar verksmiðjurnar voru að endurnýja sinn búnað var því heitið að peningalykt og reykur heyrðu brátt sögunni til. Það hefur ekki gengið eftir. Starfsleyfi verksmiðjanna eru alltof rúm að þessu leyti og eigendur þeirra ganga á lagið og spara sér kostnað við mengunarvarnir sem sjálfsagðar ættu að teljast. Mengun sjávar vegna losunar frá verksmiðjunum eða fiskiskipum í höfnum kemur einnig alltof oft fyrir. Almenningur þarf að krefjast skjótra úrbóta með hertum reglum vilji menn ekki festa þetta ástand í sessi. Það er síðan stjórnmálamanna að fylgja slíku eftir og setja leikreglurnar.

Misjöfn umgengni í þéttbýli

Miklar umbætur hafa átt sér stað í umhverfi þéttbýlisstaða á Austurlandi eins og víðast hvar á landinu. Þar munar mest um viðleitni einstaklinga að fegra í kringum sig og fyrirtæki eins og t. d. Síldarvinnslan í Neskaupstað hafa brugðist við hertum kröfum og lagt sig fram við lóðagerð sem áður var óþekkt. Byggðarlög eins og Eskifjörður og Búðir í Fáskrúðsfirði hafa tekið miklum stakkaskiptum. Víða er þó enn pottur brotinn þar sem sveitarstjórnir og fyrirtæki eiga hlut að máli. Innkoman í Neskaupstað hefur lítið lagast á undanförnum árum og verður það að skrifast á reikning sveitarfélagsins. Fjörum hefur þar verið spillt af handahófi og óhrjálegar byggingar og steypustöð bæta ekki um áður komið er í íbúðahverfin. Seyðisfjörður er annað dapurlegt dæmi um sóðaskap og hirðuleysi sem heyra ætti sögunni til. Staðurinn býr að merkri sögu, fallegum húsum og þar er haldið uppi menningarstarfi. Hvergi hef ég hins vegar séð aðra eins dreif af járnarusli, ónýtum tækjum og bílhræjum og tekur þó steininn úr á sveitabæjum norðan fjarðarins. Að sunnanverðu út með firðinum heilsa malargrúsir og vanhirt hús vegfarendum og þessi ótrúlega landkynning er það fyrsta sem mætir augum þeirra sem koma sjóleiðis yfir Atlantsála. Það liggur við að maður óski þess að Autfjarðaþokan byrgi stöðugt sýn til slíkrar ómenningar.

Hvernig væri að taka sig á?

Hér er alvara á ferðinni. Menn laða ekki til sín ferðamenn við slíkar aðstæður. "Til Norðfjarðar, nei þar er bara ólykt" , sagði erlendur ferðamaður nýlega sem taldi eina heimsókn þangað meira en nóg. Auraleysi er hér ekki um að kenna. Austfirðingur sem heimsótti Vestfirði í sumar undraðist góða umgengni þar og snyrtilegt yfirbragð víða í plássunum. Austfirðingar hafa enga ástæðu til að verða samdauna mengun og vanhirðu. Hér gildir það eitt að taka sig á.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim