Hjörleifur Guttormsson 8. apríl 2002

Þingvellir og skipulag Valhallarsvæðisins

Það er fagnaðarefni að tekist hafa samningar um kaup ríkisins á Hótel Valhöll á Þingvöllum með öllum réttindum. Löngu var tímabært að leysa þann hnút sem skapast hafði með eignarhaldi einkaaðila á hóteli á þessum friðlýsta helgistað allra Íslendinga, svo notað sé orðalag laganna um friðun Þingvalla frá 1928. Þeim sem sæti hafa átt í Þingvallanefnd eins og undiritaður um tólf ára skeið er öðrum fremur kunnugt um þau margvíslegu vandkvæði sem fylgdu rekstri Valhallar, bæði vegna mengunar og skipulags innan þjóðgarðsins. Er það enginn áfellisdómur yfir fyrrverandi eiganda sem fannst sér þröngur stakkur skorinn, en við bættust óskýrar heimildir og losarabragur á ákvörðunum um Valhöll eins og margt annað á fyrstu fjórum áratugum Þingvallaþjóðgarðs. Eftir að ríkið hefur nú eignast Valhöll og réttarstaðan í nánasta umhverfi er ljós skiptir öllu að vel takist til um framhaldið.

Stefnumörkunin frá 1988

Vorið 1988 gekk þáverandi Þingvallanefnd frá stefnumörkun í skipulagsmálum Þingvalla, þeirri fyrstu og einu sem hefur stöðu aðalskipulags fyrir þjóðgarðinn. Í forsendum skipulagsins segir m.a.:

"Stefna ber að því, að ný mannvirki og meiriháttar starfsemi, sem laðar að bílamergð og manngrúa, verði vestan Almannagjár, en sigdældin verði gerð aðgengilegri með því að auka og bæta gangstíga og bílastæði, veita upplýsingar og merkja vel" (bls. 23).
Í samræmi við þetta var lagt til að reisa "menningarmiðstöð" fyrir upplýsingar og þjónustu við Kárastaðastíg vestan við Hakið. Sú gestastofa er nú loks að verða að veruleika og á eflaust eftir að stækka og þróast í framtíðinni, enda svigrúm þarna án þess truflun valdi í hjarta þjóðgarðsins.

Um Valhöll og nágrenni segir í stefnumörkuninni (bls. 25):

"Ekki er svigrum til að fjölga byggingum á Valhallarsvæðinu. Valhöll verður að óbreyttu rekin sem veitingahús, enda fullnægi starfsemin þeim lögum og reglum, sem þar að lúta. Framtíðarskipan veitinga og gistiþjónustu er rétt að meta síðar í ljósi þróunar mála á öllu Þingvallasvæðinu."
- Jafnframt þessari stefnumörkun óskaði Þingvallanefnd eftir að ríkið leitaði eftir kaupum á hótelinu.

Vanda þarf framhaldið

Þeim áfanga er náð að ríkið á við sjálft sig um nýtingu Valhallarsvæðisins þar sem nú standa heldur hrörlegar og óásjálegar byggingar. Vel má vera að þær megi nýta eitthvað enn um sinn, en rekstur hliðstæður þeim og þarna hefur verið um áratugi á þarna ekki framtíð fyrir sér, hvað þá það sem stærra væri í sniðum. Hafa ber í huga ofangreinda niðurstöðu Þingvallanefndar frá 1988, "að ný mannvirki og meiriháttar starfsemi, sem laðar að bílamergð og manngrúa, verði vestan Almannagjár ...". Það á auðvitað við um gistihús og ráðstefnuhallir, ef einhverjum hugnast að setja slíkt niður í grennd Þingvalla.

Hótel Valhöll er í útjaðri svæðis sem geymir fornminjar frá þinghaldi fyrri alda. Þær eiga skilið annað umhverfi en gistihús og bílaplön og að hyljast framandi skógviðum. Núverandi byggingar hljóta að víkja af þessu svæði innan tíðar og þar á ekki neitt hátimbrað að koma í staðinn. Lítill viðkomustaður, látlaust og velhannað kaffihús fyrir þá sem þrætt hafa göngustíga í grennd Lögbergs, gæti verið til álita, en þá án aðkomu ökutækja fyrir aðra en fatlað fólk. Umfram allt mega menn ekki falla í gryfjur fyrri tíðar en skoða þess í stað mál Þingvalla í ljósi þess að staðurinn er helgistaður allra Íslendinga og nú í örskotsfjarlægð frá aðalþéttbýli landsins.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim