Hjörleifur Guttormsson | 8. maí 2002 |
Þjórsárver má ekki skerða Sunnan undir Hofsjökli hvíla Þjórsárver, einstök vin umkringd örfoka landi, jöklum og upptakakvíslum Þjórsár. Upp úr miðri 20. öld var sett fram hugmynd um að sökkva þessu landi á kaf í jökullón. Eftir hatrammar deilur náttúruverndarfólks við virkjunaraðila tókst að fá samþykkt árið 1981 að Þjórsárver skyldu friðlýst og varðveitt ósnortin um ókomin ár. Heimildir voru gefnar fyrir tilteknum veitum austan veranna til Köldukvíslar og ákvæði sett um athugun á lóni neðst í verunum, enda rýri slík framkvæmd ekki náttúruverndargildi Þjórsárvera að mati Náttúruverndarráðs, nú Náttúruverndar ríkisins. Tuttugu ár eru liðin frá því friðlýsing Þjórsárvera var ákveðin og viðhorf almennings til náttúruverndar hafa síðan styrkst til muna, ekki síst að því er varðar miðhálendið. Því hefði mátt ætla að Landsvirkjun léti sér ekki til hugar koma að hrófla frekar við Þjórárverum en orðið er. Ekki er þó því að heilsa. Nú með vorkomunni lagði fyrirtækið fram matsskýrslu um svonefnda Norðlingaölduveitu syðst á þessu einstæða svæði. Mikið tjón af miðlunarlóni Þeim sem kynna sér efni framkominnar matsskýrslu og rannsóknaniðurstöður sérfræðinga á áhrifum miðlunarlóns við Norðlingaöldu má vera ljóst, að umhverfisáhrif slíkrar framkvæmdar yrðu mjög mikil. Sjálft lónið yrði samkvæmt matsskýrslu um 29 ferkílómetrar að flatarmáli og myndi skerða gróðurlendi og afar verðmætt freðmýra- eða rústasvæði, einkum í Tjarnaveri. Þar er að finna þétt heiðagæsavarp, fjölbreytt gróðurfar og smádýralíf. Þá mun lónið hafa áhrif á grunnvatnsstöðu langt út fyrir standlínur með tilheyrandi röskun á freðmýrum og gróðri. Áfokshætta er út frá lónstæðinu og vex eftir því sem það fyllist af framburði. Talið er að um þriðjungur af rúmmáli lónsins tapist vegna aurfyllingar á 60 árum og að öld liðinni yrði það orðið hálffullt. Ekki verður séð að svonefndar mótvægisaðgerðir myndu gera annað en illt verra. Hver kemst hjá því að álykta að slíkar aðgerðir rýri náttúruverndargildi Þjórsárvera? Við þetta bætast síðan fjölmörg óbein áhrif af framkvæmdunum, vegalagningu og umferð. Eru Íslendingar svona fátækir? Í víðfrægri grein, Hernaðurinn gegn landinu, sem Halldór Laxness ritaði á jólum 1970 snerist hann meðal annars til varnar náttúru Mývatns og Þjórsárvera. "Í okkar parti heimsins á öld þegar allir eru orðnir fátækir af því að vaða í einskisnýtum peníngum, þá er þeim mönnum hættast sem hafa ekki áður hnoðað hinn þétta leir" mælti skáldið og vega orð þess ekki síður þungt nú aldarþriðjungi síðar. Það er með ólíkindum að hálfopinber stofnun eins og Landsvirkjun sé ekki sómakærari en svo að láta sér til hugar koma að raska Þjórsárverum með þeim hætti sem nýútkomin matsskýrsla ber vott um. Samkvæmt heimasíðu greindi forstjóri fyrirtækisins svo frá 30. apríl er hann fylgdi úr hlaði þessu hugverki " ... að Norðlingaölduveita væri langhagstæðasti virkjunarkosturinn sem fyrir lægi til orkuöflunar með stuttum fyrirvara en þörf væri sem fyrst fyrir orku vegna stækkunar Norðuráls ...". Það er líklega í þeim ranni sem fátæktin nú sverfur að. Hins vegar heyrist annað hljóð úr uppsveitum Suðurlands þar sem menn frábiðja sér meiri röskun Þjórsárvera en orðið er. Undir þann málflutning mun þorri Íslendinga taka áður lýkur. Hjörleifur Guttormsson |