Hjörleifur Guttormsson 9. desember 2002

VG kjölfestan gegn stóriðjustefnunni

Síðasta áratuginn hefur orðið mikil vakning meðal landsmanna um gildi óbyggðanna. Það sem mörgum Íslendingum var nánast óþekkt og hulið hefur opinberast mönnum á ferðalögum og af umfjöllun í máli og myndum sem dýrmæt auðlind enda haldist hún sem næst óröskuð af mannvirkjagerð. Sveitamenn þekktu afréttirnar af löngum kynnum við fjárstúss kynslóð eftir kynslóð en þéttbýlisbúar, afkomendur þeirra sem fluttu á mölina á öldinni sem leið, þurftu að uppgötva töfra óbyggðanna og sívaxandi fjöldi sækir nú þangað endurnæringu í ferðum á öllum árstímum. Útlendingar staðfesta það sem við eigum að vita að íslenska hálendið er að verða einstakt í allri Evrópu og takist að halda því í svipuðu horfi og nú eigum við þar innistæðu sem lengi mun ávaxtast.

Stjórnvöld sem engu eira
Sú hugarfarsbreyting sem orðið hefur meðal þjóðarinnar að því er hálendið varðar hefur ekki náð eyrum pólitískra valdsmanna. Verndarstefna gagnvart óbyggðunum á sér nú enga talsmenn í ríkisstjórn landsins þar sem lögð eru á ráðin um nýjar risaverksmiðjur líkt og þegar kallað var eftir 20 álverum fyrir aldarþriðjungi. Það er þessi ofurtrú á orkufrekan iðnað sem leiðir af sér þá stórvirkjanastefnu sem birtist mönnum nú við Kárahnjúka og í Þjórsárverum. Þar er á ferðinni varanleg eyðilegging á einstæðum hálendisvinjum og jafnframt yrði spillt blómlegum byggðum og vötnum með flutningi stórfljóta milli vatnasviða. Fyrir þessari stefnu standa forystumenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í von um að landsmenn elti gullkálf þeirra yfir fjöll og heiðar út í rauðan dauðann. Brýnt er að þeir sem andvígir eru eyðileggingu öræfanna með stíflum, miðlunarlónum, virkjanavegum og raflínum átti sig á því að þetta er aðeins byrjunin. Flokkarnir sem nú eru við völd hafa enga aðra sýn en halda stóriðjuleiknum áfram svo lengi sem hægt er að lokka hingað erlend auðfélög til að fjárfesta í fabrikkum. Stuðningur við þessa flokka í kjörklefa er ávísun á eyðileggingu óbyggðanna.

Samfylkingin út og suður
Samfylkingin svonefnda hefur með réttu verið sökuð um stefnuleysi og að vera út og suður í flestum málum, en á því eru þó undantekningar. Þessi sérkennilega naglasúpa undir forystu Össurar hefur gert tvennt upp við sig, það er að berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu og styðja stóriðjustefnuna með ráðum og dáð. Þannig greiddi þingflokkur Samfylkingarinnar að yfirgnæfandi meirihluta atkvæði með heimild fyrir Kárahnjúkavirkjun og eins og nú er orðið ljóst eru engin ný andlit með umhverfisvernd að leiðarljósi í boði á þeim bæ í aðdraganda alþingiskosninga. Vinstrihreyfingin - grænt framboð er eina stjórnmálaflið í landinu sem fest hefur í stefnuskrá sína skýlausa andstöðu við stóriðjusiglinguna og sett á oddinn baráttu fyrir verndun hálendisins. Öllum má vera ljóst að aðeins með stuðningi við þessa nýju stjórnmálahreyfingu og stóraukinn styrk Vinstri-grænna að loknum alþingiskosningum næsta vor er von til að takist að stöðva hömlulausa eyðingu óbyggðanna.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim