Hjörleifur Guttormsson 11. mars 2002

Austfirðingar hnepptir í álgildru

Margt bendir til að Austfirðingar sem stutt hafa Kárahnjúkavirkjun í trausti þess að henni fylgdi álverksmiðja á Reyðarfirði hafi látið hafa sig að ginningarfíflum. Ósennilegt er að á Reyðarfirði verði nokkru sinni reist álverksmiðja. Landsvirkjun er hins vegar á góðri leið með að fá leyfi fyrir virkjuninni óháð því hvert orkan frá henni fer að lokum. Þá sitja Austfirðingar uppi með náttúruspjöllin og örfá störf tengd rekstri virkjunarinnar!

Austfirðingar hafa látið lokka sig í álgildru. Fyrir Alþingi liggur frumvarp ríkisstjórnarinnar til heimildarlaga um Kárahnjúkavirkjun. Látið er í veðri vaka að orka frá virkjuninni eigi að knýja risaálverksmiðju á Reyðarfirði. Engin formleg tengsl eru hins vegar á milli frumvarpsins um virkjunina og ráðstöfunar á orkunni. Að fengnu leyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun getur Landsvirkjun ráðstafað orkunni hvert á land sem vill, þótt á það reyni líklega ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum. Markmið forystu Landsvirkjunar og stóriðjusinna hefur verið að koma Kárahnjúkavirkjun í gegnum mat á umhverfisáhrifum og komast sem lengst með önnur tilskilin leyfi óháð því hvað verður um hugmyndina Reyðarál.

Dýrkeypt náttúruspjöll

Kárahnjúkavirkjun ef reist verður mun leiða af sér meiri náttúruspjöll en nokkur einstök framkvæmd hérlendis til þessa. Mikið af eyðileggingunni er óendurkræft og verður því aldrei bætt, um annað er teflt í mikla tvísýnu eins og áfok á gróðurlendi að ógleymdri hættu af flóðum og stíflurofi. Fljótsdalur og Jökuldalur verða aldrei samir og áður og ásýnd og lífríki Lagarfljóts mun bíða mikinn hnekki. Fyrir þessum óskunda er verið að afla leyfa með pólitískri valdbeitingu ráðherra og stuðningi meirihluta stjórnarflokkanna á Alþingi. Austfirðingum er sagt að álverksmiðjan sé bjarghringur fyrir fjórðunginn. Því miður hefur þorri auðtrúa sveitarstjórnarmanna ginið við þessum áróðri og er þar aumastur hlutur forráðamanna Fjarðabyggðar. Ef í ljós kemur sem líklegt er að ekkert verði úr álversframkvæmdum sitja menn uppi með skömmina eina en Landsvirkjun hefur virkjunina í hendi til að egna fyrir kaupendur annars staðar.

Samfélagsleg áhrif stóriðjuframkvæmda

Að mínu mati yrðu samfélagsleg áhrif risaverksmiðju á Reyðarfirði yrðu ófarsæl fyrir Austurland í heild. Hvergi nokkurs staðar annars staðar dytti mönnum í hug nú á dögum að planta slíku fyrirtæki niður í fámennar byggðir. Reynsla erlendis frá af einhæfum iðnaðarstöðum er víða dapurleg. Talsmenn stóriðjuframkvæmdanna gera ráð fyrir að þær leiði af sér nokkur þúsund manna fjölgun íbúa á Mið-Austurlandi og stöðvun á fólksflutningum af svæðinu. Það er spá út í vindinn og hitt allt eins líklegt að nettóáhrif að byggingatíma loknum verði þveröfug. Stóriðjuframkvæmdirnar myndu verða þeim atvinnurekstri sem fyrir er á svæðinu, bæði til sjávar og sveita, afar þungbærar vegna mikils þensluástands og soga til sín fólk frá byggðum sunnan Fáskrúðsfjarðar og úr Vopnafirði.

Margir óvissuþættir óútkljáðir

Ýmislegt bendir til að NORAL-áformin renni út í sandinn. Málaferli standa yfir vegna úrskurðar umhverfisráðherra. Óvissa er um niðurstöðu úr kæruferli vegna mats á umhverfisáhrifum Reyðaráls-verksmiðjunnar. Umhverfisráðherra hefur þegar farið þrjá mánuði fram yfir lögboðinn frest um úrskurð. Þungt er undir fæti um innlenda fjáröflun til framkvæmdanna og alls óvíst um raunlegulegan vilja Norsk Hydro. Austfirðingar gerðu rétt í því að leita hið fyrsta úgönguleiða úr álgildrunni og leggjast gegn því að lagaheimild verði veitt fyrir Kárahnjúkavirkjun.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim