Hjörleifur Guttormsson | 11. júlí 2002 |
Mesta glæfraspil Íslandssögunnar Skammt er að bíða þáttaskila í stóriðjurúllettunni á Austurlandi. Líklegt er talið að Alcoa taki við hlutverki Norsk Hydro, en óvíst er að það leiði til framkvæmda við álverksmiðju á Reyðarfirði. Hér á eftir er stiklað á stóru í sögu þessarar lönguvitleysu sem gæti farið á sama veg og áformin um álver á Keilisnesi fyrir áratug. Í gúrkutíð þessara snemmsumardaga þegar fjölmiðlamenn finna sér fátt annað til dundurs en frásagnir af útihátíðum, pústrum og smáþjófnaði er að tjaldabaki reynt að reka smiðshöggið á mesta glæfraspil Íslandssögunnar - risaálver og Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur um fimm ára skeið glímt við þennan draug sem Halldór Ásgrímsson vakti upp sumarið 1997 og lagði flokk sinn að veði. Til að hamla gegn fólksflutningum úr kjördæmi formannsins skyldi á Reyðarfirði reist stærsta álfabrikka Evrópu, knúin orku jökulfljóta frá norðanverðum Vatnajökli. Norsk Hydro voru boðin slík kostakjör í orkuverði að fyrirtækið hlaut að lýsa sig reiðubúið til viðræðna um málið. Eftir alþingiskosningarnar 1999 var skipt út í ráðherraliði Framsóknar og Siv Friðleifsdóttir fékk umhverfisráðuneytið gegn svardögum um að aðhafast ekkert það sem spillt gæti fyrir stóriðjunni eystra. Eftir ítarlegt mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að virkjunin væri ótæk þar eð hún valdi gífurlegum óafturkræfum náttúruspjöllum. Siv sneri hins vegar við úrskurði Skipulagsstofnunar, kaus að tapa ærunni sem umhverfisráðherra en halda titlinum fyrir vikið. Norsk Hydro leist ekki á blikuna Þegar hér var komið sögu leist Norsk Hydro ekki á blikuna. Því ollu einkum bágar rekstrarhorfur fyrir álverksmiðju á Reyðarfirði og sá alþjóðlegi álitshnekkir sem fyrirtækið yrði beint og óbeint gert ábyrgt fyrir vegna umhverfisspjalla af byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Norðmenn hafa frá öldinni sem leið dýrkeypta reynslu af einhæfum stóriðjustöðum. Það hefur blasað við frá upphafi þessa leiks að dýrt gæti orðið að reka risaálverksmiðju í fámenninu á Reyðarfirði. Samfélagsstúdía Sigfúsar í Nýsi var aldrei traustvekjandi enda sagði höfundurinn opinberlega að hann hafi gengið að verki með bundnar hendur. Risaálver mun hvorki stöðva fólksflutninga burt frá Austurlandi né fjölga þar íbúum og gæti að loknum byggingartíma leitt til hins gagnstæða. Eigandi verksmiðjunnar yrði að kaupa mest alla þjónustu að og taka á sig fjölþættar skuldbindingar til að manna kerskálana. Engin grein hefur verið gerð fyrir hvernig fjármagna eigi byggingu 700 íbúða auk annarra samfélagslegra aðgerða til að öllu væri ekki stefnt í voða frá upphafi. Mikið af vinnuaflinu gætu orðið útlendingar og óhjákvæmilegt að ráðast í margháttaðar stuðningsaðgerðir í þeirra þágu. Alcoa býðst enn lægra orkuverð Uppi varð fótur og fit á stjórnarheimilinu þegar sprakk á Hydro-vagninum. Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri sem boðað hefur 2,5% vaxtahækkun strax og ráðist yrði í stóriðjuna eystra var sendur út af örkinni með loforð Landsvirkjunar um enn lægra orkuverð. Á móti krefst Landsvirkjun ríkisábyrgðar og komandi kynslóðum yrði sjálfkrafa gert að jafna mismuninn með hærra raforkuverði. Þessa dagana eru forstjórar Alcoa að gylla fyrir stjórn auðhringsins kosti þess að semja við auðsveipa ríkisstjórn Íslands um Reyðarfjarðardæmið, að ekki sé talað um sveitarstjórnarmenn sem árum saman hafa þulið stóriðjubænina seint og snemma. Forsvarsmenn Alcoa gera sér enga rellu út af umhverfisspjöllum og hafa tilkynnt umheiminum að á Íslandi þurfi víst enga að flytja nauðungarflutningum vegna virkjunarframkvæmda! Aðeins einn er farinn að pakka niður, sá hinn sami og vakti upp drauginn eystra, og hyggst nú bjóða sig fram öðru hvoru megin Hringbrautar. Hver veit nema Alcoa beini innan tíðar sjónum sínum í sömu átt. Hvernig er það annars, á ekki ríkið stóriðjulóð á Keilisnesi frá því Jón Sigurðsson gafst upp á ráðherradómi og flúði land fyrir réttum áratug? Hjörleifur Guttormsson |