Um hvað eru Alcoa og Reyðarál
að semja?
Að því fréttir herma hafa um margra mánaða
skeið staðið yfir viðræður milli Alcoa og Reyðaráls
um kaup þeirra fyrrnefndu á undirbúningi sem Reyðarál
hf hafði lagt í vegna álverksmiðju á Reyðarfirði.
Þar er meðal annars um að ræða mat á umhverfisáhrifum
420 þúsund tonna álverksmiðju og 233 þúsund
tonna rafskautaverksmiðju sem Skipulagsstofnun úrskurðaði
um 31. ágúst 2001 og féllst á með tveimur
skilyrðum. Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST)
og Náttúruverndarsamtök Íslands kærðu
úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra,
sem staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar með úrskurði
14. mars 2002. Skömmu síðar kom í ljós að
ekkert yrði úr fyrirhugaðri framkvæmd á vegum
Reyðaráls en í þess stað kæmi hugsanlega
Alcoa.
Í kæru sinni til umhverfisráðherra benti NAUST
meðal annars á að samkvæmt lögum um mat á
umhverfisáhrifum bar að meta rafskautaverksmiðju og álverksmiðju
aðgreint en ekki sameiginlega. Þetta var ekki gert. Engin ákvörðun
var heldur tekin um annað á grundvelli lagaheimilda (5. grein,
2. málsgrein laga nr. 106/2000). Í stað þess var
mat á rafskautaverksmiðju samofið mati á álverksmiðjunni
í matsskýrslu Reyðaráls hf. Með þessu
var ótvírætt gengið gegn fyrirmælum laga
og því augljóst að matið stenst ekki nánari
skoðun. Í pólitískum úrskurði sínum
um kæruna vék ráðherra sér undan skýrum
lagafyrirmælum um þetta efni og staðfesti ranga málsmeðferð
Skipulagsstofnunar. Ljóst er því að umrætt
mat á umhverfisáhrifum framkvæmda Reyðaráls
er einskis virði, verði látið reyna á málsmeðferðina
fyrir dómsstólum. Þessir pappírar eru því
ekki álitleg söluvara. Hafi Alcoa raunverulegan áhuga
á byggingu risaálverksmiðju á Reyðarfirði
þarf fyrirtækið fyrst af öllu að efna í
sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum hennar vegna
og þá auðvitað byggt á þeirri tækni
sem ráðgert er að nota. Önnur málsmeðferð,
byggð á yfirfærslu á mati í höndum
Reyðaráls, væri reist á sandi.
Hjörleifur Guttormsson |