Hjörleifur Guttormsson 12. nóvember 2002

Til varnar Langasjó og Skaftá

Verkefnisstjórn um rammaáætlun kynnti fyrr á þessu ári bráðabirgðaniðurstöður um samanburð á 15 virkjunarkostum, þar á meðal um Kárahnjúkavirkjun og Norðlingaöldulón sem hvorutveggja eru með réttu talin hafa mjög mikil og neikvæð umhverfisáhrif. Meðal kosta í þessum verkefnisáfanga er svonefnd Skaftárveita sem fælist í að veita vatni úr Skaftá yfir í Langasjó og þaðan áfram vestur í Tungná. Fær sú hugmynd afar mildilega afgreiðslu í þessum bráðabirgðaniðurstöðum og er talin hafa tiltölulega lítil umhverfisáhrif og gefa góðan hagnað á orkueiningu.

Á kynningarfundi sem verkefnisstjórn rammaáætlunar efndi til fyrr á árinu gerði ég alvarlega athugasemd við þetta mat að því er umhverfisáhrif Skaftárveitu snertir. Langisjór milli Fögrufjalla að austan og Grænafjallgarðs og Breiðbaks að vestan er einstæð náttúrugersemi eins og allir sem þangað koma og horfa yfir svæðið, til dæmis frá Sveinstindi, hljóta að skynja. Breyting á þessu 27 km2 stöðuvatni í miðlunarlón með jökulvatni væri að mínu mati óafsakanlegt gerræði og sama á við að ætla sér að veita vatni Skaftár vestur í Tungná. Slíka vatnaflutninga milli vatnasviða ætti ótvírætt að banna með lögum fyrr en seinna.

Afleiðingar aðgerða sem þessara fyrir núverandi vatnakerfi Skaftár frá upptökum til ósa eru lítt kannaðar og ófyrirséðar án umfangsmikilla rannsókna. Varðar það meðal annars ferskvatnsstreymi um Eldhraun og grunnvatnsstöðu á stóru svæði. Með Skaftárveitu væri verið að stórspilla hálendi Skaftárhrepps sem nú er að mestu óraskað víðerni og áhrifin fyrir ferðaþjónustu og útivist á svæðinu yrðu mjög neikvæð. Sveitarfélagið sem heild myndi bíða af þessu ómældan hnekki og efnahagslegur ávinningur fyrir heimamenn væri hverfandi til lengri tíma litið. Langisjór myndar ásamt Eldborgaröðum (Lakagígum) og upptökum Skaftár órofa heild sem þarf að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði fyrr en seinna.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim