Hjörleifur Guttormsson | 12. nóvember 2002 |
Óvæginn penni og baráttumaður Rudolf Augstein 1923-2002 Rudolf Augstein aðalritstjóri og útgefandi þýska vikuritsins Der Spiegel lést 7. nóvember síðastliðinn 79 ára að aldri. Með honum er horfinn af sviðinu risi í mannsmynd, að vísu lágur vexti en þeim mun tilþrifameiri og öflugri á ritvelli. Árið 1946 aðeins hálfu öðru ári eftir lok hildarleiksins mikla steig Augstein fram á ritvöllinn aðeins 23 ára gamall og lagði grunninn að útgáfu fyrsta fréttatímarits í sögu Þýskalands. Der Spiegel hefur nú lifað í hálfan sjötta áratug, borinn uppi af ótrúlega sterkri hefð og sett mark sitt á Þýskaland eftirstríðsáranna. “Við erum frjálslynt vinstramálgagn, og ef vafi leikur á vinstrisinnað blað” sagði ritstjórinn í upphafi. “Brjóstvörn lýðræðisins” var annað einkunnarorð þessa ódeiga baráttumanns gegn hverskyns misbeitingu valds. Um Augstein segir Johannes Rau forseti Þýskalands í eftirmælum, að með honum hafi stigið fram á sviðið sjálfsöruggur og orðfimur baráttumaður, með sjálfstraust og sannfæringu um hlutverk sitt, fremur sískrifandi stjórnmálamaður en pólitískur blaðamaður. Der Spiegel hélt hinsvegar í heiðri, hvað sem stjórnmálaskoðunum ritstjórans leið, þær reglur og viðmiðanir bestu blaðamennsku að upplýsa óhikað og lúta engu utanaðkomandi valdboði. Rudolf Augstein skrifaði yfir eittþúsund ritstjórnargreinar á ferli sínum og lá aldrei á eigin skoðunum. Hann var svarinn andstæðingur stefnu Adenauers kanslara í málefnum Þýskalands og háði sögulegt einvígi við Franz Josef Strauss ráðherra og holdgerving kristilegra íhaldsmanna. Strauss lét haustið 1962 loka ritstjórnarskrifstofum Der Spiegel með lögregluvaldi og hélt Augstein í fangelsi í 103 daga. Fáir atburðir í sögu Vestur-Þýskalands mörkuðu slík spor og sigur Augsteins og tímarits hans í þágu lýðræðis og málfrelsis var ótvíræður. Síðar gerðist Augstein eindreginn stuðningsmaður stefnu Willy Brandts um opnun gagnvart Austur-Evrópu. Í síðustu greinum sínum í Der Spiegel skömmu fyrir andlátið gerði hann að umtalsefni stefnu Bandaríkjanna gagnvart Írak og á alþjóðavettvangi. Orð hans voru enn meitluð og hugurinn ómyrkur þótt heilsan væri að gefa sig. Ég minnist þess enn er ég keypti fyrsta eintakið af Der Spiegel árið 1952, þá rétt að byrja að stauta mig gegnum texta á þýsku. Í fimmtíu ár hefur þetta skemmtilega, skarpa og fræðandi tímarit verið hluti af daglegu brauði. Ekkert tímarit hefur átt meiri þátt í að minna á þýska tungu og frjálslynda þýska hugsun eftir allar hörmungarnar og svartnættið á fyrri hluta 20. aldar. Ekki aðeins Þjóðverjar heldur umheimurinn allur stendur í þakkarskuld við Rudolf Augstein fyrir að lyfta því merki og standa vaktina í meira en hálfa öld. Hjörleifur Guttormsson |