Hjörleifur Guttormsson 14. júní 2002

Hálendið í skotlínu stóriðjunnar

Það kemur æ betur í ljós hvað býr að baki stefnu stjórnvalda í stóriðjumálum. Þrjár risaálverksmiðjur eru á teikniborðinu, á Reyðarfirði, Grundartanga og í Straumsvík. Nú eru alls framleidd um 280 þúsund tonn af hrááli hérlendis en hugmyndir um stækkun og nýjar fabrikkur næsta áratuginn eða svo gera ráð fyrir meira en þreföldun eða um 900 þúsund tonnum í viðbót. Til slíkrar framleiðslu þarf raforku sem svarar til 12 teravattstunda á ári, en á síðasta ári nam öll raforkuframleiðsla í landinu 8 teravattstundum, þar af runnu 64% til stóriðjuvera. Það er því ekki aðeins á döfinni ein Kárahnjúkavirkjun norðan Vatnajökuls heldur fjöldi virkjana sem til þarf að anna raforkuþörf umræddra verksmiðja. Þótt af sumum sé horft til jarðvarma í því sambandi er ljóst að fyrst og fremst er stefnt að byggingu vatnsaflsvirkjana til að knýja stóriðjukvörnina. Gangi þessi áform eftir verða höggvin óbætanleg skörð í náttúru landsins, fyrst og fremst hálendisins. Það fer ekki saman að margfalda álframleiðslu hérlendis og ætla að standa vörð um þau verðmæti sem fólgin eru í óbyggðum lands okkar og víðernum.

Stórgjafir til álframleiðenda

Stóriðjustefnan þar sem Landsvirkjun sem orkusali er aðaldriffjöðurin felur í sér gjafir á silfurfati til álframleiðenda með lágu verði á raforkunni þar sem fórnarkostnaður af náttúruspjöllum er að engu metinn. Þar við bætast ókeypis losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir og aðra mengun. Það er opinbert leyndarmál að Landsvirkjun er nú á hnjánum í samningaviðræðum við Alcoa og stjórnarherrarnir heimta að samið verði við auðhringinn hvað sem það kostar. Á móti krefst Landsvirkjun ríkisábyrgðar sem baktryggingar. Það blasir við að almenningi er ætlað að axla áhættuna og greiða það sem á vantar að dæmið gangi upp.

Við framleiðslu 900 þúsund áltonna losna úr læðingi um 1600 þúsund tonn af gróðurhúsalofttegundum (CO2-ígildi) á ári, en það jafngildir því magni sem stjórnvöld gerðu að skilyrði fyrir aðild Íslands að Kyótóbókuninni. Þessum kvóta er úthlutað ókeypis til álfyrirtækjanna á sama tíma og öðrum atvinnurekstri og almenningi er ætlað að standa undir kostnaði af skuldbindingum um samdrátt.

Verndun hálendisins knýjandi

Ef núverandi stefna nær fram að ganga verður hálendið á skömmum tíma kögrað með virkjunum og öðrum tilheyrandi mannvirkjum. Með því væri fórnað fyrir stundarhagsmuni einni dýrmætustu auðlind Íslendinga. Atlagan að Þjórsárverum í beinu framhaldi af valdníðslunni vegna Kárahnjúkavirkjunar er lýsandi fyrir vinnubrögð núverandi valdhafa.
Í fyrirliggjandi matsskýrslu Landsvirkjunar (maí 2002) stendur m. a.:

"Landsvirkjun á í harðri alþjóðlegri samkeppni um orkusölu til nýrra stóriðjuvera. Norðlingaölduveita sem er ein hagkvæmasta framkvæmd sem Landsvirkjun hefur undirbúið er m. a. liður í að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækisins á þessum markaði."
Hér er talað tæpitungulaust. Við þetta bætist sú þjóðhagslega áhætta sem því fylgir að leggja öll egg í sömu álkörfuna og þrengja um leið svigrúm fyrir aðra atvinnuþróun og þjónustu við almenning. Reynslan kennir okkur að aðeins einbeittur stuðningur almennings við verndarsjónarmið getur hrundið núverandi áformum stjórnvalda. Það verður ekki bæði sleppt og haldið þegar náttúruvernd og blind stóriðjustefna takast á.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim