Hjörleifur Guttormsson 16. apríl 2002

Sjálfbær þróun - leiðarstjarna eða blekking

Landvernd og Umhverfisstofnun Háskóla Íslands efndu til málstofu um sjálfbæra þróun 8. apríl síðastliðinn. Undirritaður flutti þar framsögu ásamt fjórum öðrum og tók þátt í pallborði. Meðal áheyrenda var Steingrímur Hermannsson fv. forsætisráðherra og tók hann í umræðum sérstaklega undir þær áherslur sem hér fara á eftir.

Kanadamaðurinn Maurice Strong sem fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna stjórnaði bæði undirbúningi Stokkhólmsráðstefnunnar 1972 og Ríóráðstefnunnar 1992 sagði í upphafi ræðu sinnar í Ríó:

"Í brennidepli þeirra mála sem við erum að fjalla hér um er einkum eftirtalið: Framleiðsluferli og neysla í iðnvæddum hluta heimsins sem eru að grafa undan burðarásum lífs á jörðinni; sprenging í fólksfjölgun sem bætir við fjórðungi úr milljón daglega; dýpkandi gjá mismununar milli ríkra og fátækra sem skilur 75% mannkyns eftir við kröpp kjör; og efnahagskerfi sem tekur ekkert tillit til vistrænna útgjalda eða skemmda á náttúrunni - kerfi þar sem litið er á óhefta gróðasöfnun sem framfarir."
Kannast einhver við þessa lýsingu? Á hún við nú 10 árum eftir ráðstefnuna í Ríó? Eftir hálft ár, fyrrihluta september næstkomandi, mun standa yfir þriðja umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Milli hinna stóru þinga alþjóðasamfélagsins í Stokkhólmi, Ríó og Jóhannesarborg er ákveðið samhengi sem myndar rammann um núverandi umræðu og markar stöðuna í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.

Stokkhólmsráðstefnan 1972

Stokkhólmsráðstefnan um umhverfi mannsins var merkur atburður, bæði á því skeiði sem hún var haldin en einnig í sögulegu samhengi. Yfirlýsing ráðstefnunnar, aðgerðaáætlun í 109 liðum, drög að alþjóðasáttmálum og ný stofnun, UNEP - Umhverfisskrifstofa Sameinuðu þjóðanna - með aðsetur í Nairobi, voru vörður á vegi fyrir stærri skref sem stigin voru í Ríó. Áhrif Stokkhólmsráðstefnunnar hér á landi voru margvísleg. Ráðstefnan féll saman við harðvítuga baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar í 50 og síðar 200 sjómílur og samþykkt ráðstefnunnar um yfirráðarétt þjóða yfir auðlindum sínum féll að þeirri stefnu. Andinn frá Umhverfisverndarári Evrópu 1970 sveif yfir vötnum, Landvernd og félög um náttúruvernd í landsfjórðungunum voru nýlega stofnuð, Náttúruverndarráð hóf störf samkvæmt nýrri löggjöf þetta sama vor með þáverandi forseta Alþingis, Eystein Jónsson, sem formann. Sóknarár fóru í hönd, með bjartsýni, einnig í byggðarlögunum vítt um landið - Það segir hins vegar sitt um pólitískt skilningsleysi, tregðu og bakslag, ekki síst 9. áratugarins, að 18 ár liðu frá 1972 uns umhverfisráðuneyti var loks sett á fót á Íslandi.

Ríóráðstefnan 1992

Meðal fyrstu verka nýstofnaðs umhverfisráðuneytis 1990 var að annast undirbúning að þátttöku Íslands í Ríó-ráðstefnunni. Sá undirbúningur var heldur vanburða, en þó fóru opnir starfshópar yfir drög að samþykktum ráðstefnunnar og lögðu fram hugmyndir. Fyrir ráðstefnuna tók Ísland lítinn sem engan þátt í undirbúningi alþjóðasamninganna um líffræðilega fjölbreytni og loftslagsbreytingar sem lagðir voru fram í Ríó. Hins vegar var Eiður Guðnason umhverfisráðherra í hópi þeirra fyrstu til að setja nafn sitt undir þessa sáttmála. Í Ríó vann íslenska sendinefndin ötullega og lagði líkt og í Stokkhólmi sérstaka áherslu á varnir gegn mengun hafsins, ekki síst af þrávirkum efnum. Samþykktir ráðstefnunnar lögðu grunn að ferlinu um gerð alþjóðasáttmála um bann gegn þrávirkum lífrænum efnum, sem fullgerður var í Stokkhólmi í fyrravor en bíður staðfestingar.

Framhaldið hérlendis eftir Ríó

Meginreglurnar í Ríóyfirlýsingunni hafa enn ekki verið lögfestar hér á landi, þrátt fyrir að fyrrverandi umhverfisráðherrar hafi tvívegis lagt fram sérstakt frumvarp þar að lútandi, síðast á árinu 1998. Eftirfylgni Ríóferlisins hérlendis hefur verið afar hæg og brotakennd en Ríó-samningarnir voru þó staðfestir á árinu 1994. Flestir munu þekkja sögu Rammasamningsins um loftslagsbreytingar að því er Ísland snertir og viðhorf stjórnvalda til Kyótóbókunarinnar. Ekki tókst að ná yfirlýstu markmiði samningsins hérlendis miðað við árið 2000 og aðild Íslands að Kyótóbókuninni var skilyrt til síðasta dags með kröfu stjórnvalda um sérstakan mengunarkvóta fyrir stóriðju. Þar er um einnotaaðgerð að ræða á fyrsta skuldbindingatímabili samningsins, en hann verður væntanlega staðfestur af Alþingi á næstu vikum.

Aðkoma Íslands að hinum Ríósamningnum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni hefur verið í molum. Það var ekki fyrr en 6 árum eftir Ríó-ráðstefnuna, að farið var að dusta rykið af samningnum og fyrst í fyrra að skilað var skýrslu af Íslands hálfu til skrifstofu samningsaðila, þremur árum eftir samningsbundinn eindaga! Sú skýrsla er raunar, rétt eins og Dagskrá 21, aðeins til á ensku. Framkvæmdaáætlun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis liggur enn ekki fyrir. Ísland tók ekki neinn þátt í undirbúningsvinnu að sérstakri bókun um lífvernd (Biosafety Protocol) á grundvelli samningsins, en sú bókun var frágengin í janúar árið 2000.

Árósasamningurinn í öngstræti

Opin stjórnsýsla, réttur til aðgangs að upplýsingum og þátttaka almennings og frjálsra félagasamtaka að ákvarðanatöku og málsmeðferð í umhverfismálum er markmið svonefnds Árósasamnings sem byggir á yfirlýsingum bæði frá Stokkhólmi og Ríó. Fyrrverandi umhverfisráðherra skrifaði undir þennan samning í Árósum vorið 1998 og hann var lagður fyrir Alþingi til staðfestingar á síðasta þingi en afgreiðslu varð þá ekki lokið. Nú bregður svo við að Árósasamningurinn hefur ekki verið lagður fyrir yfirstandandi þing og utanríkisráðherra sagði aðspurður á Alþingi 11. febrúar sl. enga ákvörðun liggja fyrir hvort eða hvenær hann yrði lagður fyrir að nýju til staðfestingar. Þetta eru mikil vonbrigði, og athygli vekja þær skýringar sem fylgdu frá ráðherra, sem vísaði sérstaklega til viðkvæmrar stöðu orkumála hérlendis.

Staðardagskrá 21 sem liður í framkvæmdaáætlun Ríóráðstefnunnar lá í gleymsku í ráðuneyti umhverfismála allt til ársins 1998 að loksins komst hreyfing á fyrir tilstilli Alþingis. Síðan hefur þessi þáttur tekið fjörkipp í samvinnu við mörg sveitarfélög eins og Stefán Gíslason skýrir okkur væntanlega frá hér á eftir.

Þróunaraðstoð í lágmarki

Ég vil hér að lokum nefna framlag Íslands til þróunaraðstoðar. Íslenskir ráðamenn hreykja sér af því að þjóð okkar standi í efstu þrepum efnahagslegrar velsældar á alþjóðamælikvarða. Þessa sér því miður lítinn stað í þróunaraðstoð þar sem við stöndum í neðstu þrepum meðal iðnsvæddra ríkja. Í fyrra var framlag Íslands af vergri þjóðarframleiðslu aðeins 0,12% og sama hlutfall er áætlað á þessu ári. Þetta er nákvæmlega sama hlutfall og rann til þróunaraðstoðar 1992, árið sem Ríóráðstefnan var haldin, en í samþykktum hennar var sérstaklega skorað á velstæð ríki að leggja 0,7% VÞF til fátækra ríkja. Það vantar sexfalt upp á að því marki verði náð af Íslands hálfu.

Umhverfisvandinn fer vaxandi

Þótt sitthvað hafi vel til tekist í umhverfismálum hér á landi síðasta áratug hafa íslensk stjórnvöld hliðrað sér við að koma að kjarna þess hnattræna umhverfisvanda sem við blasir og dreginn var fram í gögnum Ríó-ráðstefnunnar. Um er að ræða gífurlega og vaxandi misskiptingu milli ríkra og snauðra jarðarbúa sem lítið svigrúm hafa til vaxtar nema hinn velstæði hluti heimsbyggðar dragi að marki úr ósjálfbærum framleiðsluháttum og gegndarlausri sóun sem einkennir búskaparhætti iðnvæddra ríkja. Afleiðingar þessa efnahagskerfis sem nú er kennt við hnattvæðingu blasa enn skýrar við nú en áður. Gjáin sem Maurice Strong talaði um í Ríó er stöðugt að breikka og sjálfbær þróun lítið annað en orð á blaði, í besta falli góður ásetningur.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim