Hjörleifur Guttormsson 16. október 2002

Ágeng skoðanakúgun

Það líður varla sá dagur að ekki berist fréttir af tilburðum til skoðanakúgunar sem nú lætur æ meir á sér kræla í íslensku samfélagi. Fyrir henni verða einstaklingar á ýmsum stigum þjóðfélagsins sem eiga það sammerkt að vera undir aðra settir. Starfsmenn fjölmiðla eru þar einnig í skotlínu. Oft eru skilaboðin óbein og þess efnis að viðkomandi er látinn skynja hvað sé yfirmönnum eða ráðandi öflum þókknanlegt. Látið er að því liggja að mönnum sé fyrir bestu að viðra ekki óæskilegar skoðanir. Andleg ánauð af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Rannsóknarréttur kirkjunnar stóð á miðöldum dyggan vörð um rétttrúnað og öll meðöl voru leyfileg til að þagga niðri í gagnrýni. Í árdaga kapítalismans voru hæg heimatök atvinnurekenda áður en verkalýðshreyfingin skaut skildi fyrir sitt fólk. Andlegt helsi tók á sig skelfilegar myndir í alræðisríkjum sovéttímans og margir guldu með lífi fyrir skoðanir sínar. Nú þegar lýðræði og mannréttindi eiga að teljast viðtekið norm í okkar heimshluta er enn stutt í svipuna, ef menn ekki halda sig á mottunni. Oftast eru mörk hins leyfilega óskilgreind og treyst á að óræður ótti fái menn til að hafa hægt um sig.

Stóriðjuliðið gengur lengst

Upp á síðkastið er það stóriðjuliðið, Landsvirkjun og álspekúlantar, sem lengst gengur í tilraunum til að þagga niðri í gagnrýnum röddum. Þar skáka menn í skjóli núverandi ríkisstjórnarflokka sem mestu ráða í fjölmiðlum og tyllt hafa sínum mönnum í forstjórastóla. Andrúmsloftið á Austurlandi er táknrænt fyrir þessa stöðu, þar sem ráðamenn þola ekki gagnrýni á stóriðjuáformin og þau náttúruspjöll sem þeim fylgja. Minna má á atlögu Aflsmanna að Náttúruverndarsamtökum Austurlands við Snæfell fyrir tveimur árum, þar sem reynt var að hneppa félagið í gíslingu. Þegar mótmælt var framkvæmdum Landsvirkjunar við Kárahnjúkaveg í ágúst síðastliðnum heimtuðu stóriðjumenn að fjölmiðlar segðu ekki frá atburðum og viðtalsþættir við gagnrýnendur voru teknir af dagskrá samkvæmt skipunum að ofan. Með hinni hendinni sáldrar svo Landsvirkjunarforystan út silfri til þeirra sem fallast á að hafa sig hæga. Þetta er baksvið lýðræðisins á Íslandi nú um stundir.

Hliðstæða við hergagnaiðnað

Stóriðja og orkusala í hennar þágu hefur um margt svipaða stöðu hér á landi og hergagnaiðnaður víða erlendis. Í báðum tilvikum eru stjórnmál og hagsmunir stórfyrirtækja samofin. Leynd og baktjaldasamningar eru einkenni beggja, eins og hér sést best á því að síðasta áratuginn hefur verið neitað að gefa upp raforkuverð til stóriðjufyrirtækja. Hergagnaiðnaðurinn skákar í skjóli leyndar vegna þjóðaröryggis, en hérlendis er borið við viðskiptaleynd þótt opinber fyrirtæki eins og Landsvirkjun eigi í hlut.

Sem betur fer láta fæstir hræða sig til hlýðni við sjónarmið sem ganga gegn eigin samvisku og sannfæringu. Um það vitnar mikil og vaxandi andstaða við tilraunir valdsmanna til að þvinga almenning, félagasamtök og stofnanir til undirgefni. Í þessum efnum reynir á hvort lýðræði í landinu er annað en nafnið tómt eða heldur velli gegn ofurþunga þröngra hagsmuna.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim