Hjörleifur Guttormsson | 19. desember 2002 |
Borgarstjóri fyrir ætternisstapa Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur valið að taka svonefnt baráttusæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Með því gengur hún ekki aðeins á bak orða sem féllu fyrir fáeinum mánuðum heldur setur hún samstarfið innan Reykjavíkurlistans í uppnám. Óraunsætt er að hún geti stundinni lengur haldið stöðu borgarstjóra og leikið þannig tveim skjöldum. Sjálfstæðisflokkurinn mun nú leita eftir samstarfi við aðra flokka um stjórn Reykjavíkurborgar og trúlegt að dagar R-listans verði brátt taldir. Fari svo byrjar Ingibjörg afskipti sín af landsmálum á nýjan leik með sviðna jörð að baki sér ekki ósvipað og þegar hún greiddi Kvennalistanum náðarhöggið fyrir um það bil áratug. Ekki verður annað séð en hér sé um sögulegan afleik af hennar hálfu að ræða. Hver getur treyst stjórnmálamanni til frekari forystu sem gengur jafn rækilega á bak orða sinna? Nóg var fyrir Samfylkinguna að hafa Össur á oddinum með þann ótrúverðuga blæ sem lengi hefur fylgt honum sem stjórnmálamanni, þótt meinsæri Ingibjargar bættist ekki við í áru flokksins. Illa sviðsett leikrit Aðalskýring Ingibjargar á kúvendingu sinni nú er að brýnt sé að koma málefnum Reykjavíkur sem sveitarfélags meira á dagskrá á Alþingi. “Borgarmálavettvangurinn er að flytjast sífellt meir yfir á þingmálavettvanginn” sagði hún í fjölmiðlum kvöldið sem hún tilkynnti um ákvörðun sína. Hvers konar rugl er þetta? Telur Samfylkingin að breyta eigi Alþingi meira en hingað til í togstreituvettvang milli sveitarstjórna í landinu og hræra öllu í einn graut, sveitarstjórnarmálum og landsmálum? Telja menn þá stefnu Sjálfstæðisflokksins til eftirbreytni að hafa Gunnar Birgisson og Björn Bjarnason í tvöfeldu gervi sem alþingismenn og sveitarstjórnarmenn – og hirða jafnframt tvöföld laun? Er öll gagnrýni á kjördæmapot gleymd og grafin ef höfuðborgarsvæðið á í hlut? Æskilegast væri að lögleiða bann við því að alþingismenn gegni öðrum verkefnum samhliða þingmennsku, bæði setu í sveitarstjórnum og ráðherrastarfi. Ætli sé ekki nóg að Reykjavík hafi sem kjördæmi 22 þingmenn að loknum næstu alþingiskosningum þótt ekki bætist við að borgarstjórinn í Reykjavík sé í þeirra hópi? Ótrúverðugur samstarfsaðili Ingibjörg leggur á það áherslu að allur
munur sé á hvort hún skipi 1. eða 5. sæti
á lista Samfylkingarinnar. Einnig það er tilraun til
sjónhverfinga. Ljóst er að henni verður teflt fram
í komandi kosningabaráttu sem aðaltrompi og leiðtogaefni
Samfylkingarinnar. Össur fær að vera með sem leikbrúða
enn um skeið, en í reynd er hann að afhenda svilkonu sinni
lyklavöldin í flokknum. Hjörleifur Guttormsson |