Hjörleifur Guttormsson 21. nóvember 2002

Skipulagsmál og sjálfbært samfélag

Dagana 8. – 9. nóvember 2002 var haldið Skipulagsþing í Reykjavík og sóttu það á þriðja hundrað manns. Skipulagsstofnun átti frumkvæði að þessu þinghaldi og öllum undirbúningi sem var til fyrirmyndar. Samkoma af þessu tagi er ekki lögboðin en oft hittast menn af minna tilefni. Skipulagsmál eru afar mikilvægur þáttur í mótun hvers samfélags en hafa hérlendis ekki notið þeirrar athygli sem skyldi. Stjórnmálamenn eru fæstir uppteknir af stefnumótun til langs tíma og á það jafnt við um alþingismenn og fulltrúa í sveitarstjórnum. Það er hins vegar ekki síst á vettvangi Alþingis og sveitarstjórna sem forsendur eiga að ráðast í skipulagsmálum og með aðild almennings að umræðu og stefnumótun á öllum stigum. Hérlendis er nú til staðar stór hópur af fólki með sérmenntun á ýmsum sviðum sem gagnast í vinnu að skipulagsgerð. Skipulagsþingið endurspeglaði þessa staðreynd en þingið sóttu því miður ekki margir kjörnir fulltrúar almennings.

Landsskipulag vantar

Lög um skipulags- og byggingarmál voru síðast endurskoðuð í heild árið 1997. Með þeim var sveitarstjórnum fært verulega aukið vald í skipulagsmálum og með setningu nýrra sveitarstjórnarlaga 1999 var landinu öllu skipt upp á milli sveitarfélaga með því að mörk þeirra voru framlengd inn á miðhálendið. Jafnhliða voru leidd í lög ákvæði um fyrirkomulag á skipulagi miðhálendisins undir forystu sérstakrar samvinnunefndar. Miklar deilur urðu um þessi atriði á sínum tíma, ekki síst tengdar málefnum miðhálendisins.
Í 11. grein skipulags- og byggingarlaga er fjallað um áætlanir um landnotkun á landsvísu. Samkvæmt lagaákvæðunum á Skipulagsstofnun að afla gagna um áætlanir opinberra aðila um landnotkun er varða landið allt, svo sem samgöngur, fjarskipti, orkumannvirki og náttúruvernd. Komi í ljós ósamræmi og hagsmunaárekstrar um landnotkun skulu ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga setja niður nefnd til að gera tillögur um samræmingu og skulu niðurstöðurnar síðan felldar að skipulagsáætlunum. Stíga þarf skrefið til fulls og lögleiða gerð landsskipulags með þátttöku ríkis og sveitarfélaga, þar sem ákveðnir megindrættir sem varða land og þjóð sem heild yrðu festir í skipulagi.

Umhverfismál og skipulag

Skipulag þarf að vera allt annað og meira en línur á blaði um fyrirhugaða landnotkun. Sú hugsun og vinna sem lögð er í að ræða og móta forsendurnar skiptir sköpum um þá leiðsögn sem felast þarf í góðu skipulagi. Um er að ræða það umhverfi og samfélag sem við viljum búa okkur og afkomendunum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og hugmynda um sjálfbæra þróun. Í skipulagi þarf því að samþætta umhverfisforsendur og hugmyndir um æskilegt samfélag og hagþróun. Slík umræða er í eðli sínu pólitísk og þarf að byggja á sem bestum upplýsingum á hverjum tíma og fræðslu til almennings.
Enn sem komið er erum við býsa langt frá því að taka skipulagsvinnu ofangreindum tökum. Það sést best í því handahófi sem ríkir í ákvörðunum um ýmsar stórframkvæmdir svo sem virkjanir, deilunum um Reykjavíkurflugvöll og aðdraganda að byggingu verslunarmiðstöðva eins og Smáralindar. Skipulagsmálin varða fyrirkomulag og gæði þjónustu við almenning, samgöngur, skóla og heilsugæslu og náttúrulegt og manngert umhverfi sem við viljum vera hluti af og búa börnum okkar.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim