Hjörleifur Guttormsson 22. febrúar 2002

Kaflaskil í heimsmálum?

Andstæður eru að skerpast milli Bandaríkjanna og annarra heimshluta vegna einleiks risaveldisins og valdhroka á mörgum sviðum. Stjórnin í Washington, sem komst til valda í skjóli fjárausturs frá orkufyrirtækinu Enron sem nú er gjaldþrota, notar baráttu gegn hryðjuverkum til að ná fram einhliða markmiðum í trássi við önnur ríki.

Utanríkisstefna Bandaríkjanna er farin að ógna heimsfriði. Viðbrögð stjórnar þessa hátæknivædda risaveldis við meintri hryðjuverkaógn ber ekki aðeins vott um vanþekkingu og brenglað mat á umheiminum heldur verður æ ljósara að Bandaríkjaforseti notar hana sem skálkaskjól til að ná fram pólitískum markmiðum. Þar er efst á blaði hömlulaus vígvæðing með stórfelldri aukningu á opinberum útgjöldum til hermála og riftun ABM gagneldflaugasamningsins frá 1972. Sá samningur hefur verið hornsteinn í samskiptum kjarnorkuveldanna en jafnframt þyrnir í augum haukanna í Repúblikanaflokknum allt frá dögum Reagans. Atlögu hryðjuverkamanna 11. september og taugaveiklun almennings í kjölfarið á nú að nota til að ryðja úr vegi hindrunum fyrir háskalegum stjörnustríðsáformum.

Forseti fremstur hauka

Strax eftir árásarhryðjuna á Tvíburaturna kom Bush með yfirlýsingar um langvarandi stríð sem hann skilgreindi sem baráttu við "hið illa". Ólíklegustu menn urðu til eð éta upp þennan frasa gagnrýnilaust. Nú boðar Bush stríð gegn "möndulveldum hins illa", hvað sem líður afstöðu annarra ríkja, og spyrðir þar saman lönd sem engin sýnileg tengsl eru á milli, hvað þá að þau ógni öryggi Bandaríkjanna. Bandamenn virðast aðeins nytsamlegir svo lengi sem þeir taka við forskrift frá Washington, og hafi þeir uppi efasemdir mega þeir fara að vara sig. Forráðamenn flestra Evrópuríkja hafa nú vaknað upp við vondan draum. Nú má heyra gagnrýni á stefnu Bandaríkjanna frá talsmönnum flestra stjórnmálaafla í Frakklandi og Þýskalandi, nú síðast með Johannes Rau forseta í fararbroddi. Í samúðarbylgjunni síðastliðið haust gleymdist að spyrja, hvernig skilgreinir Bandaríkjastjórn hryðjuverkamenn. Prófsteinninn hefur lengi blasað í Ísrael þar sem hryðjuverkin tala óhindrað í skjóli Bandaríkjastjórnar, að ekki sé talað um bakgarðinn í Rómönsku Ameríku.

Áróðursvélar sem einskis svífast

Út yfir tekur þegar upplýst er að sérstök áróðursskrifstofa innan Pentagon, Office for Strategic Influence, hefur fengið það verkefni að sáldra skipulega lygafréttum og misvísandi upplýsingum vítt um veröld til stuðnings markmiðum Bandaríkjastjórnar og kaupa meðal annars til liðs við sig útlendar fréttastofur. Áður hafði leyniþjónustan CIA endurheimt heimildir sem frá henni höfðu verið teknar um skeið til gripdeilda og morða utan landamæra Bandaríkjanna. Er ekki nema von að menn séu farnir að ókyrrast, þar á meðal þeir sem litið hafa til Bandaríkjanna sem brjóstvarnar fyrir lýðræði. Fjölmargir virtir fréttamenn rísa nú upp og vara við einleik og sjálftökurétti Bandaríkjastjórnar sem stefnir í siðferðilega blindgötu. Rudolf Augstein er ekki lengur einmana hrópandi, fjöldi engilsaxneskra dálkahöfunda hefur nú uppi sterk varnaðarorð. Hugo Young hjá Guardian bendir á að Bandaríkin séu vissulega eina risaveldið en séu að tapa tilkalli til forystu vegna einleiks og tillitsleysis við aðra.

Kvíðvænlegar horfur

Kaflaskilin í heimsmálum eru skörp og kvíðvænleg. Öflugasta ríki heims neitar í raun að axla með öðrum ábyrgð á sameiginlegri vegferð mannkyns, hvort sem um er að ræða umhverfismál, framlög til baráttu við sjúkdóma og fátækt, alþjóðlega réttarfarsþróun eða takmörkun vígbúnaðar. Okkar er mátturinn og dýrðin er viðkvæðið á þeim bæ. Menn verða að vona að mótvægi komi fram fyrr en seinna innan Bandaríkjanna sjálfra gegn þessari háskalegu stefnu. Skylda annarra er að vara Bush og stjórn hans við þannig að eftir sé tekið.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim