Hjörleifur Guttormsson 22. ágúst 2002

Í aðdraganda heimsþings

Frá Jóhannesarborg I

Það er að koma vor í Jóhannesarborg þar sem heimamenn eru tilbúnir að taka á móti gestum á stórráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hitinn er þægilegur hér fyrir Íslendinga á þessum árstíma en gestgjafarnir kvarta um kulda. Mannlíf er hér litríkt fyrir, þannig að ekki verður svo mjög vart við þótt við bætist gestir frá 180 þjóðríkjum. Þessi aðeins aldargamla borg telur um 5 milljónir íbúa og þelþökkum heimamönnum fjölgar ört. Flestir eru þeir sárafátækir og búa þröngt, safnast ekki síst í miðborgina samhliða því sem viðskiptalíf og auðmenn flytja í úthverfin, eins konar gettó sem vandlega er gætt af lögreglu og einkavarðliði líkt og einnig hótela og gististaða. Þannig hafa orðið hér hlutverkaskipti frá því ógnarstjórn hvítra alskilnaðarsinna féll fyrir alþýðuuppreisninni 1994. Breytingin er mikil á flestum sviðum segja heimamenn sem reyna að laga sig að nýjum siðum. Vandamálin eru tröllaukin og sum ný af nálinni eins og eyðni. Gríðarlegri misskiptingu lífskjara fylgir spenna, rán og gripdeildir, ekki síst í stórborgum. Jóhannesarborg er sagður ótryggasti gististaður í heimi og að því leyti kannski ekki kjörstaður fyrir heimsþing. Hins vegar endurspeglar þetta umhverfi veruleika, sem er hlutskipti meirihluta mannkyns og um hann ætti það þing að snúast sem hér er í uppsiglingu.

Þríþættur farvegur

Þingið sem hverfist um hugtakið SJÁLFBÆR ÞRÓUN er þríþætt bæði hvað varðar þemu og staðsetningu innan borgarinnar. Opinbera ríkjaráðstefnan hefst ekki formlega fyrr en mánudaginn 26. ágúst og er staðsett í Sandton-viðskiptahverfinu í norðurhluta borgarinnar. Embættismenn eru þó komnir á kreik til að freista þess að berja í marga bresti og fækka misklíðarefnum áður en ráðherrar og þjóðarleiðtogar mæta á staðinn.

Samkoma frjálsra félagasamtaka í Nasrec-hverfinu rétt hjá útborginni Soweto er hins vegar að hefjast, og það er ekki síst til að taka þátt í henni sem ég sem fulltrúi NAUST (Náttúruverndarsamtaka Austurlands) og Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, formaður Landverndar lögðum hingað leið okkar á undan öðrum úr íslensku sendinefndinni. Búist er við allt að 60 þúsund manns á þá samkomu sem ber yfirskriftina Global Peoples Forum. Tilvist hennar við hlið ríkjaráðstefnunnar endurspeglar þann hækkandi sess sem frjáls félagasamtök hafa fengið í viðleitni alþjóðasamfélagsins til að ná tökum á vistkreppunni. Þau munu hvert um sig og sameiginlega reyna að hafa jákvæð áhrif á yfirlýsingar þeirra sem með völdin fara og þinga í hinum enda borgarinnar.

Milli þessara póla, ríkjaráðstefnunnar og samkomu frjálsra félagasamtaka, hefur verið sett upp eins konar þekkingar- og fræðslumiðstöð, nefnd Ubuntu-þorpið, þar sem ríki, fjölþjóðafyrirtæki og fleiri aðilar kynna hugmyndir sínar um sjálfbæra þróun.


Snæfellsbær í Ubuntu-þorpinu

Það var fróðlegt að ganga um í Ubuntu-þorpinu og líta á umbúnað um þá starfsemi sem þar fer fram. Norðurlöndin önnur en Ísland hafa þegar komið sér þar fyrir til að kynna stefnu sína, bæði stjórnvöld og samtök um þróunaraðstoð. Skýrslur og bæklingar liggja frammi og settar eru á svið hugmyndir um tækni til bættrar umgengni við umhverfið. Sameiginlegt verkefni Norðurlanda að staðardagskrá 21 kynnir þarna hlut sveitarfélaga og héraða við að ná tökum á umhverfisvandamálum á neðstu þrepum stjórnsýslunnar. Það gladdi okkur að sjá þarna Snæfellsbæ í hópi þeirra sem nefndir voru til sögunnar. Sérstakur vettvangur verður hér í Jóhannesarborg fyrir Staðardagskrá 21 og á hann eru væntanlegir tveir fulltrúar Reykjavíkurborgar. Einmitt á þessu sviði hafa Íslendingar sprett úr spori síðustu árin og mætti ríkisvaldið nokkuð af því læra. Þýskaland á myndarlegan bás í Ubuntu-þorpinu og framlag þess á fleiri sviðum til ráðstefnunnar hér í Jóhannesarborg endurspeglar þá fótfestu sem græn hugmyndafræði hefur öðlast þarlendis. Ekki má gleyma hlut gestgjafans Suður-Afríku, sem leggur greinilega mikinn metnað í að hlúa að þeim væntingum sem fjöldi manns í heimsþorpinu Jörð ber til þessa fundar. Stjórnvöld hér hafa virkjað fjölda ungmenna til starfa á ráðstefnunni og nærvera þeirra ýtir undir þær vonir um árangur sem tengjast þessu heimsþingi. - Um horfur í þeim efnum verður nánar fjallað í næsta þætti.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim