Hjörleifur Guttormsson 23. janúar 2002

Tíu ára afmæli Ríóráðstefnunnar

Ríó-ráðstefnan 1992 um umhverfi og þróun kom umhverfismálum á dagskrá alþjóðastjórnmála með myndarlegum hætti. Ýmis hugtök sem staðfest voru í yfirlýsingu þátttökuríkja eins og sjálfbær þróun, varúðarregla, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsvernd hafa síðan verið leiðarvísar í viðleitni þeirra sem sinna umhverfismálum. Dagskrá 21 var framkvæmdaáætlun sem ráðstefnan afgreiddi og síðan hefur mannkynið stigið inn í öldina sem talan 21 vísar til. Það er því löngu komið að því að uppfylla þau fyrirheit sem staðfest voru í skjölunum frá Ríó, skuldbindingar alþjóðasamninga og framkvæmdaáætlanir.

Leiðarvísarnir skoluðust burt

Þótt eitt og annað hafi áunnist, hefur lítið farið fyrir efndum á fyrirheitunum frá Ríó. Ráðamenn þjóða og samkeppnishagkerfið hefur ekki tekið skilaboðin um sjálfbæra þróun alvarlega. Leiðarvísarnir um aðlögun að umhverfisvernd hafa skolast burt af skrifborðum forstjóra og ráðherra. Þannig hafa svefngöngur vanans sem Jóhann Jónsson orti um fallið í gamla farið og lögmál fjármagns og gróða höggvið í auðlindir og náttúru að mestu óáreitt. Afdrifaríkast hefur reynst að boðskapnum frá Ríó var hent út af borði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem sett var á fót á liðnum áratug. Síðan hefur það bákn orðið tákn fyrir vaxandi arðrán á náttúru jarðar og fátækum ríkjum. Í stofnunum eins og Alþjóðabankanum hafa velmeinandi starfsmenn reynt að þoka umhverfisleiðsögn inn í skjalabunkana en pólitískur stuðningur hefur látið á sér standa.

Bandaríkin í slæmu ljósi

Svikin við málstaðinn frá Ríó koma víða fram en verstur hefur verið hlutur Bandaríkjanna. Á Ríó-ráðstefnunni dró Bush forseti eldri lappirnar á öllum sviðum og sonurinn á stóli forseta ætlar ekki að verða eftirbátur hans. Hjá þessu ríkasta landi heims er eigingirni og skammsýni áfram í öndvegi, hvort sem það heitir þróunaraðstoð, stuðningur við stofnanir Sameinuðu þjóðanna eða aðild að loftslagssamningnum. Bandaríkjastjórn neitar áfram staðfastlega að taka þátt í átaki þjóða til að sporna gegn losun gróðurhúsalofttegunda, en um fjórðungur umræddrar mengunar lofthjúpsins á upptök sín þar vestra. Þrátt fyrir Kyótóbókunina stefnir í að losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu vaxi um 75% á tímabilinu 1997-2020.

Hlutur Íslands dapurlegur

Uppgjörið hvað Ísland varðar á afmælisári Ríó-ráðstefnunnar verður heldur dapurlegt. Framlagið í loftslagsmálum fólst í því að gera stóraukinn mengunarkvóta að skilyrði fyrir aðild Íslands að Kýótóbókuninni. Hinn Ríósamningurinn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni er gleymdur og rykfallinn átta árum eftir staðfestingu hans af Íslands hálfu. Framlag Íslands til þróunaraðstoðar er viðvarandi feimnismál. Stefnan í gróðurvernd og landgræðslu byggir á forneskjulögum frá árinu 1965. Helsta viðfangsefni ráðuneytis umhverfismála er að slást við náttúruverndarfólk og ryðja brautina fyrir orkuiðnaðinn inn á ósnortin víðerni og jarðhitasvæði. Varúðarreglan hefur aldrei komist inn í orðasafn íslenska stjórnarráðsins og sjálfbær þróun er aðeins til brúks á ráðstefnum erlendis. Í formála aðalritara Sameinuðu þjóðanna að skýrslu um horfur í umhverfismálum sem birt var 20. desember síðastliðinn er bent á að pólitískur vilji sé lykill að árangri (www.johannesburgsummit.org). Þann sama dag blessaði íslenski umhverfisráðherrann Kárahnjúkavirkjun. Táknrænna gat það ekki verið um stöðu sjálfbærrar þróunar og Dagskrár 21 hérlendis.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim