Hjörleifur Guttormsson 23. september 2002

Er sjálfbær þróun í sjónmáli?

Ávarp á fundi Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands um heimsþingið í Jóhannesarborg

Þrengir að lífbeltunum

Nú í aldarbyrjun eru framtíðarhorfur fyrir heimilið Jörð allt annað en bjartar. Þrátt fyrir hátíðleg loforð og samþykktir alþjóðasamfélagsins í Ríó fyrir tíu árum og hástemmdar yfirlýsingar við þúsaldarskiptin þrengir stöðugt að lífbeltum jarðar. Þetta sýna flest sólarmerki sem rifjuð voru upp í tengslum við heimsþingið í Jóhannesarborg. Efnaferli sem mynda bakgrunn lífkeðjunnar hafa raskast uggvænlega af mannavöldum á nokkrum áratugum, manngerðum eiturefnum fjölgar stöðugt í umhverfinu, búsvæðum hnignar og ört gengur á náttúrulegar auðlindir. World Wide Fund segir að burðarþoli jarðar sé þegar ofboðið um þriðjung ef ekki meir. Alþjóðabankinn telur að skortur á ferskvatni muni hafa áhrif á kjör helmings jarðarbúa um miðja öldina. Ef þróunarríki losuðu jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum hlutfallslega og iðnríkin gera nú þyrfti fimm jarðarkringlur til að jafnvægi héldist í kolefnishringrásinni. Móttökuhæfni fyrir koltvísýring skerðist stöðugt með hnignandi gróðurlendum. Regnskógar minnka um þessar mundir sem svarar 5% á hverjum áratug. Sívaxandi efnahagsumsvif hafa ekki leitt til jöfnunar lífskjara, heldur vex misskipting hröðum skrefum, einnig í þróuðum ríkjum. Lausnin felst örugglega ekki í að stækka heildarkökuna, að minnsta kosti ekki með óbreyttri uppskrift. Meira að segja Alþjóðbankinn viðurkennir að markaðurinn einn ráði ekki við vistkreppuna sem við blasir.

Minnkandi þróunaraðstoð

Hugtakið sjálfbær þróun hefur verið eins konar yfirskrift umhverfisumræðunnar í áratug. Ríóráðstefnan 1992 hafði að kjörorði Umhverfi og þróun. Þróunaráherslan var liður í málamiðlun milli iðnaðar- og þróunarríkja. Þau síðarnefndu, oft auðkennd sem G77, töldu áherslu á þróun fela í sér viðurkenningu á að jafnhliða umhverfisvernd þyrfti að leiðrétta þeim í hag misskiptingu í lífsskjörum og aðgang að auðlindum og mörkuðum. Viljayfirlýsingin um að iðnríkin, Ísland meðtalið, stefndu að því að verja a. m. k. 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til opinberrar þróunaraðstoðar átti að vera einskonar tryggðapantur til sönnunar því að alvara byggi að baki. Nú tíu árum síðar liggur hins vegar fyrir að flest iðnríki hafa svikið þetta loforð svo rækilega, að í stað þess að standa við fyrirheitin hafa opinber framlög til þróunaraðstoðar á heildina litið lækkað verulega á þessu tímabili og hvað Ísland varðar staðið nánast í stað við 0,1% mörkin. Líkt hefur farið með ýmis önnur fyrirheit í framkvæmdaáætluninni Dagskrá 21 frá Ríó. Af ávinningum er helst að nefna sáttmálana um lofslagsmál og líffræðilega fjölbreytni auk mikilvægra hugtaka í umhverfisrétti. Yfirlýsingar nokkurra ríkja í Jóhannesarborg þess efnis að þau muni á næstunni staðfesta Kyótóbókunina vekja vonir um að hún fái brátt tilskilinn stuðning og öðlist gildi, þrátt fyrir að Bandaríkin ætli að skerast úr leik.

Viðskiptareglur með forgang

Í samþykktum ríkjaráðstefnunnar er lögð áhersla á þríþættar, samþættar forsendur fyrir sjálfbærri þróun, þ. e. samspil efnahagsþróunar, félagsmála og umhverfisverndar. Það er ekki síst efnahagsþátturinn tengdur hnattvæðingu fjármagns sem að margra mati er á röngu spori, og ýtir undir vaxandi misskiptingu lífskjara og hnignun vistkerfa. Árið 1995, þremur árum eftir Ríófundinn, var Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) komið á fót, en bindandi samþykktir hennar og viðurlög setja reglur um viðskipti ofar ákvæðum sáttmála á umhverfissviði. Svipað er raunar uppi á teningnum í ýmsum svæðisbundnum samningum. Í aðdraganda fundarins í Jóhannesarborg voru uppi tilraunir til að veita viðskiptareglum frekari forgang á kostnað umhverfissáttmála en sú varð þó ekki niðurstaðan. Verður eflaust áfram tekist á um slíka þætti. Í ávarpi frá samkomu frjálsra félagasamtaka (Global Peoples Forum) í Jóhannesarborg er kallað eftir "sanngjörnum viðskiptum" (fair trade) í stað núverandi kerfis, sem talið er halla mjög á þróunarríki. Nauðsyn þess að styrkja umhverfisþáttinn í viðkiptalegu samhengi í þágu sjálfbærrar þróunar ætti að vera augljós. Ofurþrýstingur Bandaríkjanna á óheft viðskipti með erfðabreytt matvæli er dæmi um hvað hangir á þessari spýtu.

Amerískur lífsmáti ósjálfbær

Hefðbundinn efnahagsvöxtur í þróuðum ríkjum magnar upp þann vanda sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Meini menn eitthvað með jöfnun lífskjara verða þróuð ríki að finna leiðir til að draga úr sókn í náttúruauðlindir, minnka álag sitt á vistkerfi jarðar og veita hinum fátæku og örsnauðu svigrúm til að ná sér á strik. Líta verður á svigrúm til nauðþurfta og heilbrigðs umhverfis sem hluta af mannréttindum. Jafnframt blasir við að þau svæði sem nú búa við eymd og sára fátækt þurfa að ná sér á strik með óhefðbundnum og vistvænum aðferðum. Annað gengur ekki upp vegna náttúrulegra takmarkana. Sjálfbær þróun er nafnið tómt nema til komi gjörbreyttur lífsstíll og aðrar neysluvenjur en nú tíðkast. Siðferðilegt gjaldþrot stjórnvalda í Bandaríkjunum, hvað sem líður hernaðarmætti þessa ofurveldis, felst í að neita að horfast í augu við að ameríski lífsmátinn, "the american way of life", byggður á ódýru jarðefnaeldsneyti og gengdarlausri sólund auðlinda er ósjálfbær og síst til eftirbreytni. Bandaríkin leggja nú til um fjórðung af losun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp jarðar. Sú krafa er þegar á dagskrá að aðgengi að sameiginlegum lífsgæðum eins og andrúmsloftinu eigi framvegis að miðast við íbúatölu hvers ríkis, þar sem hvert höfuð sé metið að jöfnu. Á þessa kröfu hlýtur að reyna þegar að því kemur að þróunarríkin taki á sig skuldbindingar um takmarkanir í losun gróðurhúsaloftttegunda.

Óskýr stefnumörkun

Heimsþingið í Jóhannesarborg var í senn málþing, upplýsingaveita og vettvangur til ályktana og samþykkta. Frjáls félagasamtök og talsmenn atvinnulífs, ekki síst fjölþjóðafyrirtækja, áttu þar sinn vettvang. Sveita- og héraðastjórnir þinguðu um Staðardagskrá 21 og ályktuðu um aðgerðir. Margar ríkisstjórnir lögðu fram skýrslur um sína sýn til sjálfbærrar þróunar, þar á meðal íslensk stjórnvöld. Um þeirra framlag hef ég fjallað nýlega (sjá eldra efni: Orð og athafnir stangast á, 30. ágúst 2002) og gagnrýnt að stefnumörkunin sem sögð er ná til 2020 rísi vart undir nafni og sé ekki sett í alþjóðlegt samhengi.

Gjörbreytt gildismat

Þótt leiðsögnin um sjálfbæra þróun hafi víða skotið rótum og margt sé vel gert er sjálfbær þróun sem rísi undir nafni enn draumsýn án rótfestu í alþjóðakerfinu, eins og hér hefur verið tæpt á. Það jafnvægi sem ríkja þarf milli umhverfis og mannfélags er enn ekki í sjónmáli. Efnahags- og valdakerfið sem við búum við keyrir vagn okkar í öfuga átt og pólitískur vilji til að fara inn á nýjar brautir er allsendis ónógur, sé hann á annað borð til staðar. Margir í leiðtogahlutverki eru í þykjustuleik þegar umhverfisvernd er annars vegar og þegnarnir sólarmegin láta sér vel lynda á meðan vagninn ekki kollsteypist. Allt um það var rétt að bera saman bækurnar í Jóhannesarborg og skoða umhverfi sem alið hefur af sér einstaklinga eins og Nelson Mandela. Líklega er það siðferðileg leiðsögn og nýtt og gjörbreytt gildismat sem mest þörf er á nú um stundir ásamt þróttmiklum almannasamtökum til að bera fram góðar hugmyndir.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim